spot_img
HomeFréttirAllt í járnum í vestrinu

Allt í járnum í vestrinu

Russell Westbrook gæti knúið heilt kjarnorkuver með allri þeirri orku sem býr innra með honum. Hann var út um allt á vellinum í nótt, stal öllu steini léttara og réðst á körfuna aftur og aftur eins og hann væri að hefna fyrir ófarir liðsins í fyrstu tveimur leikjunum. 
 
Russ skoraði hvorki meira né minna en 40 stig, gaf 10 stoðsendingar, tók 5 fráköst og stal 5 boltum. Sá síðasti sem setti upp slíkar tölur í úrslitakeppni er gamall skotbakvörður sem lengst af lék með Chicago Bulls. 
 
Spurs náðu góðum spretti í upphafi leiks en þá fóru Russ og Durant að spýta í lófana. Varnarleikur Thunder var svo óhugnalega góður að eitt besta og agaðasta lið jarðar leit út eins og gamlir karlar á bumbuboltaæfingu. 25 stigum undir var Popovich orðinn svo æfur út í byrjunarliðsmennina sína að hann henti þeim öllum á bekkinn snemma í seinni hálfleik og gaf varamönnum liðsins tækifæri á að sýna hvað í þeim býr.
 
Þeir svöruðu kallinu og náðu að minnka muninn umtalsvert en leikurinn var allan tímann eign Oklahoma Thunder.
 
Russell Westbrook og Kevin Durant voru saman með 71 stig í 105-92 sigri sinna manna, Russ með 40 stig og Durant með 31. Hjá Spurs var fátt um fína drætti en Frakkarnir Tony Parker og Boris Diaw settu 14 stig hvor.
 
Einn af varamönnum Spurs, Cory Joseph gerði sér lítið fyrir og hamraði hrottalega í grillið á Serge Ibaka. Klárlega play-of-the-game. Cory setti 11 stig af bekknum á 17 mínútum.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -