21:49
{mosimage}
(Sovic lét vel fyrir sér finna í Toyotahöllinni)
Nýliðar Breiðabliks gerðu góða för Suður með sjó í kvöld er þeir lögðu Íslandsmeistara Keflavíkur sannfærandi 86-107. Nemanja Sovic fór mikinn í liði Blika og skoraði 41 stig og tók 12 fráköst. Hjá meisturum Keflavíkur var Hörður Axel Vilhjálmsson með 21 stig.
Gestirnir úr Kópavogi byrjuðu vel og komust í 12-17 og á þessum kafla voru Keflvíkingar að hitta illa undir körfunni. Keflvíkingar náðu þó að breyta stöðunni í 20-19 en næstu níu stig gerðu blikar gegn stífri pressuvörn heimamanna og staðan 22-26 eftir fyrsta leikhluta.
Breiðablik gerði fyrstu fimm stigin í öðrum leikhluta en eftir það skiptust liðin á körfum. Mest bar á Nemanja Sovic sem var Keflvíkingum illviðráðanlegur. Kristján Rúnar Sigurðsson og Sovic settu tvo þrista í röð fyrir gestina og breyttu stöðunni í 36-51. Heimamenn áttu þó fína lokarispu í fyrri hálfleik og var staðan í hálfleik 46-55 fyrir Breiðablik þar sem Sovic var kominn með 28 stig og Kristján Rúnar með 17. Hjá Keflavík var Hörður Axel með 11 stig og Gunnar Einarsson með 8 stig og 5 fráköst.
Keflvíkingurinn Halldór Örn Halldórsson var að finna sig vel með Blikum í dag gegn sínum gömlu liðsfélögum og kom Breiðablik í 47-58 með góðum þrist snemma í þriðja leikhluta. Keflvíkingar héldu pressunni áfram og tókst að saxa verulega á forstkot gestanna. Rúnar Ingi Erlingsson og Halldór Örn voru komnir með fjórar villur í liði Blika en um það leiti sem Íslandsmeistararnir ætluðu að láta til sín taka tók Aðalsteinn Pálsson leikinn í sínar hendur.
Aðalsteinn reif upp stemmninguna í liði Blika á báðum endum vallarins og Blikar kláruðu þriðja leikhluta á 13-0 áhlaupi og staðan því 60-79 fyrir nýliðana þegar aðeins lokaleikhlutinn var eftir.
Í upphafi fjórða leikhluta skiptust liðin á þriggja stiga körfum en það var sama hvað Keflvíkingar reyndu dagurinn var í eigu Blika. Allt gekk upp hjá nýliðunum í Keflavík og því urðu lokatölurnar 86-107 fyrir Breiðablik og ekki oft sem maður sér nýliða í úrvalsdeild fara jafn illa með ríkjandi meistara.
Eftir leiki kvöldsins eru Blikar með 4 stig í 5. sæti deildarinnar og Keflavík í 8. sæti með jafnmörg stig en eftir fjórar umferðir eru alls sex lið í deildinni með 4 stig.
Tölfræði leiksins:
http://server4.mbt.lt/prod/kki/index.php/b19sYW5nPWhlJm9fc2Vhcz0xNSZvX2xlYWc9MiZmdXNlYWN0aW9uPWdhbWVzLm1haW4mZ19pZD0xMjg=
Texti: Agnar Mar Gunnarsson
Mynd úr safni – [email protected]



