spot_img
HomeFréttirAllt eins og blómstrið eina...

Allt eins og blómstrið eina…

Allt sem fer upp kemur niður að lokum segir spakmælið. KR-blómið hefur verið býsna fjölært og hefur ekki verið afskorið fljótt líkt og hafa verið örlög sumra annarra. En allt rennur þó sama skeið og útséð með það fyrir leik kvöldsins að stórveldið sjálft mun leika í fyrstu deildinni á næsta tímabili.

Glóandi blómstrið frítt, Njarðvíkurblómið, er hins vegar í þann mund að springa út í takt við árstíðina. Njarðvíkingar standa í deildarmeistarabaráttu við Valsmenn og þurfa stigin 2 á meðan heimamenn leggja aðeins stoltið að veði. Ljónin ættu auðveldlega að geta gengið í hlutverk sláttumannsins í kvöld, eða hvað?

Kúlan: Frá Kúlunni góðu barst þessi litla vísa:

Í eyrum hljómar angistarvein

eftir lifir vonan ei nein.

Frá örlögum kaupir sér enginn frí

en eflaust mun stórveldið rísa á ný.

Þetta merkir að Njarðvíkingar vinna þennan leik örugglega, 84-104. KR-ingum til uppörvunar spáir Kúlan hins vegar upprisu í náinni framtíð.

Byrjunarlið

KR: Ryan, Veigar, Williams, Alanen, Þorri

Njarðvík: Rasio, Mario, Richotti, Basile, Maciek

Gangur leiksins

Njarðvíkingar tóku strax frumkvæðið í leiknum án mikilla átaka enda stigin merkingarlaus fyrir heimamenn. Um miðjan leikhlutann leiddu gestirnir 9-17 og stigin komu úr öllum áttum. KR-ingar voru þó ágætlega mjúkir í sínum aðgerðum enda algerlega pressulausir og héldu sér inn í leiknum, staðan 24-29 eftir einn og ljóst að trylltar varnir eða þandar taugar voru ekkert að þvælast fyrir sóknaraðgerðum liðanna.

Fátt hefði verið eðlilegra en að sjá liðið sem þarf á stigunum að halda sigla í rólegheitum í átt að sigrinum en það varð ekki raunin í öðrum leikhluta. Williams stýrði sínum mönnum stórvel, Alanen og Tamulis að fleygja niður þristum og eftir körfu góða frá Williams voru heimamenn komnir yfir, 35-34! Gestirnir geymdu gullgæsina á bekknum og Óli og Mario stóðu í vafasömu hnoði undir körfunni sem engu skilaði. Í hálfleik leiddu KR-ingar 53-49 en vondu fréttirnar voru hins vegar þær að Lars Erik sem og Þorri þurftu frá að hverfa vegna meiðsla.

Þorsteinn Finnboga hóf síðari hálfleik með smekklegum þristi og við það rann á manninn æði en hann hefur ekki raðað þeim neitt mjög oft í vetur. Vörn heimamanna var hins vegar ekki jafn frambærileg og í öðrum leikhluta og gestirnir svöruðu fyrir sig, þó einkum Basile sem virðist stundum vera staddur í öðru tímabelti en allir aðrir á vellinum! Maðurinn var eigi einhamur, hvarf framhjá mönnum ítrekað eða setti þrista. KR-ingar leiddu samt sem áður 72-71 þegar þrjár mínútur voru eftir af þeim þriðja en gestirnir tóku þá á góðan sprett og leiddu 77-84 fyrir lokafjórðunginn.

Njarðvíkingar byggðu fljótt upp 10 stiga múrinn fræga í fjórða leikhluta og virtust loksins ætla að tryggja sér stigin mikilvægu. Tamulis var ekki á þeim buxunum að leyfa Benna að slaka neitt á strax og minnkaði muninn í 93-97 þegar 5 mínútur voru eftir og Benni henti í leikhlé. Segja má að Richotti hafi tekið við keflinu af Basile þessar síðustu mínútur og kom í veg fyrir mögulegt panic á bekk gestanna. Hann lokaði leiknum með þristi þegar um 3 mínútur voru eftir, munurinn aftur kominn upp í 10 stig og úrslit ráðin. Lokatölur urðu 101-120, nokkurn veginn eins og Kúlan hafði séð fyrir, en KR-ingar voru sannarlega inn í leiknum fram á síðustu mínútur og eiga hrós skilið fyrir fína frammistöðu.

Menn leiksins

Richotti og Basile voru í öðrum gæðaflokki í kvöld, settu báðir 28 stig og tóku samtals 6 fráköst og gáfu 10 stoðsendingar.

Erlendir leikmenn KR-inga stóðu sig allir ágætlega í vinnunni í kvöld, stigahæstur var Williams með 25 stig. Gaman var að sjá Þorstein Finnbogason hitna í kvöld, hann skilaði heilmiklu til liðsins, 17 stigum, 4 fráköstum og góðri baráttu varnarlega.

Kjarninn

KR-ingar eru sennilega sæmilega sáttir með sitt lið þrátt fyrir tap. Það hlýtur að vera talsvert snúið fyrir alla sem að stórveldinu koma að mæta í leik við þessar aðstæður. Eitt vinnur þó með liðum í þessari stöðu og það er pressuleysið – það að hafa nákvæmlega engu að tapa. ÍR-ingar fengu e.t.v. að bragða á því í síðustu umferð og spurning hvort fleiri lið eigi eftir að gera það áður en yfir lýkur.

Benni gat ekki slakað á fyrr en um 3 mínútur voru til leiksloka! Tilfinningin var vissulega sú að sigurinn myndi lenda þeirra megin en hver veit hvað hefði gerst ef allt hefði verið í járnum fram á síðustu mínútu? Hefði það leitt af sér panic á bekknum, gullgæsin jafnvel kölluð til? Ekki gott að segja, en stigin tvö enduðu í höndum Njarðvíkinga og nákvæmlega EKKERT annað sem er ástæða til að ræða frekar eftir þennan leik frá sjónarhorni gestanna.

Athygliverðir punktar:

  • Woke-útgáfan af KR-laginu er viðbjóður! Getiði hætt að spila þessa hörmung? KR-ingar hafa alltaf verið og munu alltaf vera SVARTIR OG HVÍTIR.
  • Það var fín mæting í húsið í kvöld! KR-ingar skilja frasann ,,í blíðu og stríðu“, vel gert.
Fréttir
- Auglýsing -