11:40
{mosimage}
(Það gekk mikið á í Grikklandi í fyrstu úrslitaviðureign risanna)
Í íþróttum hafa nágrannaslagir og viðureignir erkifjenda visst aðdráttarafl og jafnan einkennast þessir leikir af mikilli hörku en þegar við svo förum sunnar og stöldrum við í Grikklandi sést að nágrannaslagur eða erkifjendur eru kannski helst til of væg orð þegar risarnir Olympiakos og Panathinaikos eigast við. Heppilegra væri að nota ,,heilagt stríð“ í þessu tilfelli. Úrslitakeppni í Grikklandi er nú að ná hápunkti þar sem Evrópumeistarar Panathinaikos leiða 1-0 eftir rafmagnaðan fyrsta leik sem lauk í stöðunni 67-69 þeim grænu í vil. Upp úr sauð og kalla þurfti til óeirðalögreglu!
Josh Childress fyrrum leikmaður Atlanta Hawks og nú leikmaður Olympiakos segir farir sínar ekki sléttar eftir leikinn og hugsar nú alvarlega um að halda á ný til Bandaríkjanna þrátt fyrir að vera með þriggja ára samning í Grikklandi að andvirði 20 milljóna Bandaríkjadala.
,,Ofbeldið sem við urðum vitni að fær mig til þess að hugsa vandlega um framtíð mína í Evrópu,“ sagði Childress eftir leikinn en næstum 20 mínútna truflun varð á leiknum þegar stuðningsmenn Olympiakos hófu að grýta blysum og öðru plastdóti í átt að bekknum hjá Panathinaikos. Tímavörðurinn í húsinu meiddist lítillega í látunum fengu nokkrir leikmenn á bekknum hjá Panathinaikos brunasár við blysregnið.
Áhorfendur sem ekki voru par sáttir við stöðu mála reyndu að strunsa inn á völlinn og hundsuðu beiðnir leikmanna Olympiakos um að gera það ekki. Óeirðalögregla var kölluð á svæðið og barðist við ólátabelgina sem m.a. reyndu að brjóta sér leið inn á blaðamannafundinn eftir leik.
Af leiknum sjálfum er það að segja að bakvörðurinn Theodoros Papaloukas brenndi af sniðskoti undir lok leiks sem hefði jafnað metin en svo varð ekki og Panathinaikos leiða því 1-0. Annar leikur liðanna fer fram í kvöld á heimavelli Panathinaikos sem geta tekið 2-0 forystu í einvíginu.
Nikola Pekovic var atkvæðamestur í sigurliðinu með 16 stig og 6 fráköst en í liði Olympiakos var Josh Childress með 23 stig og 5 fráköst.



