spot_img
HomeFréttirAllt á hvolfi á Eurobasket

Allt á hvolfi á Eurobasket

Það má með sanni segja að fyrstu dagarnir á Eurobasket í Slóveníu lofi góðu, drama og óvæntir sigrar á hverju strái. Þjóðverjar sem komu flestum á óvart í gær með sigri á Frökkum mættu Belgum í dag og er spurning hvort um vanmat var að ræða hjá þeim þýsku því Belgarnir leiddu lengst af og höfðu sigur, þó ekki fyrr en eftir framlengingu og var það Jonathan Tabu sem var atkvæðamestur Belga.
Önnur úrslit í A riðli voru þau að Frakka sigruðu Breta örugglega 88-65 og Úkraína vann Ísrael 74-67. Úkraínumenn eru eina þjóðin sem hefur unnið tvo fyrstu leikina, Ísrael hefur tapað báðum en hinar fjórara hafa unnið einn og tapað einum. Mikið drama er í kringum Makedóna, í gær töpuðu þeir með einu stigi fyrir Svartfellingum þar sem mörgum þótti dómararnir hafa gert mistök í lok leiks og kostuðu Makedóna sigurinn. Í kvöld mættu þeir Litháum og töpuðu 75-67 of aftur voru dómarar leiksins í sviðsljósinu og enn fannst
Makedónum halla á sig.
Eins og fyrr segir unnu Svartfellingar með einu stigi í gær en í dag kom það í hlut þeirra að tapa með einu, fyrir Lettum 73-72. Að lokum unnu Serbar Bosníumenn 77-67. Serbar og Lettar hafa unnið tvo fyrstu en Makdónar og Bosníumenn hafa tapað báðum, hinar tvær þjóðirnar eru með einn sigur og eitt tap.
 
Heimamenn gerðu sér lítið fyrir og sigruðu margfalda meistara síðustu ára, Spánverja, 78-69. Goran Dragic var atkvæðamestur heimamanna í dag en Jose Calderon var það fyrir Spánverja. Króatar bættu fyrir tapið í gær með sigri á Georgíu, 77-76 og Tékkar sigruðu Pólverja 69-68 í æsispennadi og jöfnum leik. Slóvenar eru einir með tvo sigra en Pólverjar hafa tapað báðum.
Nágrannarnir og vinir vorir Finnar og Svíar áttust við í D riðli og unnu Finnar nokkuð öruggan sigur 81-60. Gerald Lee skoraði mest Finnanna, 14 stig en eins og oft áður var Petteri Koponen atkvæðamikill. Jeffery Taylor skoraði 19 fyrir Svía og Jonas Jerebko 12.
 
Ítalir héldu sigurgöngu sinni áfram og hafa komið mörgum á óvart. Í dag unnu þeir Tyrki 90-75 þar sem Pietro Aradori var þeirra atkvæðamestur. Að lokum unnu Grikkir Rússa 80-71 og hafa Rússar tapað tveimur fyrstu leikjunum. D riðill er eini riðillinn sem er tvískiptur eins og stendur, Finnar, Grikkir og Ítalir hafa unnið báða en hinar þjóðirnar hafa tapað
báðum. 

Keppni í A og B riðli heldur áfram á morgun en C og D riðill leika ekki fyrr en á laugardag. Miðað við fyrstu leikina í þessu móti má með sanni segja að allt geti gerst og full ástæða til að fylgjast grannt með. Hægt er að sjá alla leikina í gegnum livebasketball.tv fyrir litlar 1900 ísl kr.

  
Fréttir
- Auglýsing -