Um helgina æfðu fimm af sex yngri landsliðum Íslands í körfuknattleik. Um var að ræða síðustu æfingar áður en lokahópar fyrir NM U16 og U18 liða verða valdir, sem og U15 hópar fyrir Copenhagen Invitational í júní. U15 stúlkur æfðu ekki þessa helgi, en þær munu æfa um næstu helgi.
Almennt gengu æfingar vel. Þjálfarar liðanna voru ánægðir með framlag leikmanna og nú bíður þeirra það verkefni að velja lokahópa fyrir komandi mót Það er jákvætt vandamál að samkeppnin er víðast hvar mikil.
12 manna hópar fyrir NM verða tilkynntir í lok mars en hóparnir fara utan 12. maí og mótið stendur frá 13. til 17. maí. Lokahóparnir koma saman fyrstu tvær helgarnar í maí áður en haldið verður til Solna.
Í stuttu spjalli við karfan.is sagði Einar Árni Jóhannsson yfirþjálfari yngri landsliða að aðalviðfangsefnið þessa æfingahelgi hefði verið áframhaldandi vinna við samræmingu sóknarleiks liðanna sem hefði heilt yfir gengið vel, og að sjálfsögðu að meta leikmenn enn frekar, en framundan væri svo val á lokahópum.



