Boston Celtics unnu sætan sigur í uppgjöri við erkifjendurna LA Lakers í nótt. Lokatölur voru 86-87 fyrir Cetics sem unnu þar með fyrsta leikinn gegn Lakers síðan þeir tryggðu sér NBA titilinn fyrr tæpum tveimur árum. Kobe Bryant missti af fimmta leiknum í röð fyrir Lakers og munar um minna, en Ray Allen, sem mörg lið vildu fá í skiptaglugganum, fór fyrir sínum mönnum með 24 stig.
Annar toppleikur var á dagskrá í nótt þar sem Denver Nuggets, með Carmelo Anthony í fararbroddi, bundu enda á 13 leikja sigurgöngu Cleveland Cavaliers, lokastaðan eftir framlengingu var 116-118, þrátt fyrir ótrúlegan leik hjá LeBron James sem skoraði 43 stig, tók 13 fráköst og gaf 15 stoðsendingar, auk þess sem hann varði fjögur skot.
Þrátt fyrir töpin eru Lakers og Cavs enn efst í Vestur- og Austurdeildum NBA. Lakers er með fimm sigra forskot á Denver og Cavs með sex sigra forskot á Orlando.



