spot_img
HomeFréttirAllen inn í Stjörnuliðið fyrir Nelson

Allen inn í Stjörnuliðið fyrir Nelson

23:49:01
 Ray Allen, bakvörður Boston Celtics, var í dag valinn í stjörnulið Austurstrandarinnar í stað Jameer Nelson frá Orlando Magic sem meiddist á öxl á dögunum. David Stern valdi Allen í liðið en það sama var uppi á teningnum í fyrra þegar Allen kom inn vegna meiðsla Caron Butlers og kvittaði fyrir sig með 28 stigum í sigri Austursins.

 

Þetta verður níundi Stjörnuleikur Allens á ferlinum, en í liðinu hittir hann fyrir félaga sína í Boston, þá Kevin Garnett og Paul Pierce, en talið er að valið á Allen muni ergja LeBron James og Cleveland Cavaliers þar sem þeir þrýstu mikið á að fá þeirra mann, Mo Williams, inn í liðið.

 

Jameer Nelson verður jafnvel frá til loka tímabilsins, sem setur öll plön Magic í uppnám, en Nelson hafði verið einn af lykilmönnum liðsins sem hefur komið á óvart og var á tímabili í vetur með besta vinningshlutfall allra liða í deildinni.

 

Til að fylla í skarð Nelson hefur Magic fengið til sín leikstjórnandann Tyronn Lue í skiptum fyrir skotbakvörðinn Keith Bogans og óuppgefna fjárupphæð. Lue er skytta góð sem hefur þó lítt fengið að spreyta sig hjá Milwaukee, en hann kom þangað í sumar eftir stutta dvöl hjá Dallas. Hann lék með Atlanta í nokkur ár þar á undan.

Fréttir
- Auglýsing -