14:00
{mosimage}
Kristinn Óskarsson skrifar um dómaramál
Ég fæ oft spurningar um hvernig línurnar virka, hvað er inná og hvað er útaf. Í okkar leik geta smáatriði skipt sköpum og millimetrar geta ráðið úrslitum t.d. um hvort skot var 2ja eða 3ja stiga virði. Mig langar til að fara aðeins yfir þetta í þessari viku.
Allar línur eiga að vera heilar (óbrotnar), eins á litinn og vera 5 cm. breiðar. Þó er heimilt að hafa línuna umhverfis völlinn breiðari og hefur það færst í vöxt hér á landi á undanförnum árum.
Línan umhverfis völlinn
Línan er útaf. Það má alls ekki stíga á hana þegar maður er með boltann inni á vellinum. Hins vegar þegar maður er útaf vellinum og er að taka innkast þá má maður stíga á línuna án þess að það sé ólöglegt, en maður má ekki síga yfir línuna eða inná völlinn fyrr en knötturinn er laus úr hendinni.
Miðlínan
Miðlínan telst til varnarvallar. Þess vegna er ekki nóg að síga á línuna til að losna undan 8 sekúndna reglunni, maður þarf að snerta sóknarvöllinn sem er handan línunnar. Hins vegar þegar sóknarleikmaður er á sóknarhelmingi þá er nóg að hann snerti miðlínuna á meðan hann er með boltann þó hann sígi ekki yfir línuna til þess að hann sé kominn „aftur fyrir miðju“.
Þriggja stiga línan
Línan sjálf telst til tveggja stiga svæðisins. Því gerir minnsta snerting skyttunnar við línuna skottilraunina tveggja stiga virði.
Vítalínan
Vítaskyttan verður að stilla sér upp innan hálfhringsins og má ekki snerta vítalínuna í skottilrauninni né stíga yfir vítalínuna fyrr en boltinn hefur snert hringinn. Því getur hann ekki stokkið upp aftan við línuna, skotið á körfuna í loftinu og lent inn í teignum þar sem hann nær því ekki áður en boltinn snertir hringinn eða hafnar í körfunni.
Vítateigurinn
Línan sem afmarkar vítateiginn er hluti af teignum. Því telst sóknarleikmaður sem stendur með hælana á vítateigslínunni innan vitateigsins og þar með á að telja 3 sekúndur. Aðeins öðruvísi reglur gilda um vítateiginn heldur en aðrar línur vallarins. Til dæmis er nóg að stíga með annan fótinn út fyrir völlinn og lyfta hinum á meðan innkast er framkvæmt. En til þess að sóknarmaður teljist hafa farið út úr teignum þarf hann að setja báða fætur niður á gólfið utan vítateigsins.
Vonandi varpar þetta einhverju ljósi á helstu línur sem máli skipta.
Með bestu kveðjum,
Kristinn Óskarsson, alþjóðlegur körfuknattleiksdómari
Fyrri skrif Kristins
Er að finna til vinstri á forsíðu karfan.is undir liðnum „Dómaramál með K.Ó.“



