spot_img
HomeFréttirAlgjört virðingarleysi: Veittist að dómara

Algjört virðingarleysi: Veittist að dómara

12:41

 {mosimage}

 

 

KR og Breiðablik mættust í 11. flokki karla í gær þar sem leiðindaatvik setti ljótan blett á leikinn. Þessi tvö lið hafa verið liða best í sínum árgangi síðustu ár en jafnan hefur KR haft vinninginn. Á því varð reyndar ekki undantekning í gær, KR hafði sigur í leiknum 109-93 og komust með því í undanúrslit í bikarkeppni KKÍ.

 

Atvikið átti sér stað í öðrum leikhluta í gær þegar leikmaður KR reyndi að fiska ruðning og Breiðablik missir boltann út af. Dómarar leiksins, Hákon Hjartarson og Konráð Brynjarsson, dæmdu þá KR boltann og við það varð fjandinn laus. Einn leikmanna Blika öskrar þá í átt til dómara og fær fyrir vikið tæknivíti. Á meðan dómarinn er að gefa ritaraborðinu merki um tæknivítið og það skráð til bókar vindur annar leikmaður Blika sér að dómaranum og virtist sem svo að hann ætlaði að rífa flautuna úr munni dómarans en fór í andlitið á dómaranum og uppskar brottrekstur fyrir vikið því sá leikmaður hafði þegar fengið tæknivillu fyrr í leiknum.

 

Þjálfari Breiðabliks, Bojan Desnica, fékk einnig reisupassann eftir orðaskak við dómarann og því tveir úr röðum Blika sem þurftu frá að víkja.

 

Það kemur fyrir í starfi dómarans að hann þurfi að gefa leikmönnum eða þjálfurum tæknivíti og jafnvel að reka þá út úr húsi en að veitast að dómara með slíkum hætti og var gert í umræddum leik er gjörsamlega óviðunandi af hálfu leikmanna. Sá er þetta ritar æfði körfuknattleik um árabil og fékk sinn skerf af tæknivítum og átti að hann taldi oft sökótt við dómara í einhverjum leikjum, sér í lagi hin síðari ár í 2. deildinni þar sem menn eru flestir hverjir komnir af besta skeiði í íþróttinni en hafa engu að síður gaman af.

 

Framkoma af þessu tagi er óafsakanlegur dónaskapur fyrir unga og upprennandi leikmenn og alla ef út í það er farið, sama hvað býr að baki. Dómarar eru ekkert öðruvísi en leikmenn, þeir stíga fram á völlinn með það að augnamiði að gera sitt besta. Stundum gengur það eftir og stundum ekki, hjá dómurum, leikmönnum og þjálfurum. Almennt skeytingarleysi hefur að einhverjum hluta til gefið eins konar skotleyfi á dómara, frá leikmönnum, þjálfurum og úr stúkunni. Ég fæ ekki séð hvernig þetta er körfuboltanum til framdráttar.

 

Meira er vert um ef allir leggðust á eitt um að efla dómarastéttina í stað þess að útata hana aur og fúkyrðum í hverjum einasta leik. Að framkoma ungra leikmanna á borð við það sem gerðist í leik KR og Breiðabliks skuli eiga sér stað eru mikil vonbrigði fyrir körfuboltahreyfinguna á Íslandi. Einhvers staðar hefur aðhaldið og umgjörðin brugðist þegar ungir leikmenn veitast að dómurum. 

 

Látum þetta dæmi okkur að kenningu verða og nýtum það til að efla virðingu okkar fyrir dómurum og þeirra störfum því þeir eru jú órjúfanlegur þáttur af íþróttinni.

 

Jón Björn Ólafsson

Ritstjóri Karfan.is

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -