spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaÁlftnesingar sterkari á lokasprettinum í Forsetahöllinni

Álftnesingar sterkari á lokasprettinum í Forsetahöllinni

Álftanes lagði Stjörnuna í kvöld í Forsetahöllinni í 20. umferð Subway deildar karla, 86-77. Eftir leikinn er Álftanes í 5. sæti deildarinnar með 22 stig á meðan að Stjarnan er í 9. sætinu með 18 stig.

Fyrir leik

Leikur kvöldsins var ekki einungis um montréttinn innan Garðabæjar/Álftaness, heldur einnig um sæti í úrslitakeppninni. Mikið bras hefur verið á Stjörnunni það sem af er tímabili og fyrir leikinn voru þeir í 9. sætinu og fyrir utan úrslitakeppnina. Álftnesingar höfðu hinsvegar siglt nokkuð lygnan sjó í deildinni lengst af, en höfðu á síðustu vikum verið að dragast niður í þessa baráttu um 8. og síðasta sæti úrslitakeppninnar, en þó þeir hafi verið í 6. sætinu munaði aðeins einum leik, tveimur stigum, á liðunum.

Fyrri leik liðanna á tímabilinu hafði Álftanes unnið með 6 stigum í Umhyggjuhöllinni þann 1. desember, 84-90. Til þess að komast uppfyrir Álftnesinga hefði Stjarnan því þurft að vinna leik kvöldsins með meira en 6 stigum.

Gangur leiks

Leikurinn fer nokkuð fjörlega af stað. Haukur Helgi Pálsson er aftur kominn í leikmannahóp Álftnesinga eftir meiðsli og lætur heldur betur finna fyrir sér í fyrsta leikhlutanum, setur 8 snögg stig í byrjun. Stjarnan er þó betri aðilinn og leiða eftir fyrsta fjórðung, 19-30. Drifnir áfram af Ægi Þór Steinarssyni og Antti Kanervo nær Stjarnan að halda fengnum hlut langt inn í annan leikhlutann. Álftnesingar eru þó ólseigir og minnka bilið niður í 5 stig fyrir lok hálfleiksins, 46-51.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Haukur Helgi Pálsson með 21 stig á meðan að Antti Kanervo var kominn með 19 stig fyrir Stjörnuna.

Leikurinn er svo í miklu jafnvægi í upphafi seinni hálfleiksins. Heimamenn hóta því í nokkur skipti að taka völdin, en allt kemur fyrir ekki, Stjarnan hangir á 3 stiga forskoti inn í lokaleikhlutann, 58-61. Í þeim fjórða er leikurinn stál í stál fram á lokamínúturnar. Þá tekur Dúi Þór Jónsson sig til, setur nokkrar fallegar körfur, vinnur boltann á hinum enda vallarins og eru Álftnesingar 6 stigum yfir þegar ein og hálf mínúta er til leiksloka, 80-74. Undir lokin sigla þeir svo í höfn nokkuð öruggum 9 stiga sigur, 86-77.

Atkvæðamestir

Haukur Helgi Pálsson var bestur í liði heimamanna í kvöld með 23 stig, 4 fráköst og þá bætti Douglas Wilson við 16 stigum og 8 fráköstum.

Fyrir Stjörnuna var James Ellissor atkvæðamestur með 16 stig og 8 fráköst. Honum næstur var Antti Kanervo með 23 stig.

Kjarninn

Leikur kvöldsins var grannaslagur af bestu gerð. Fullt hús, áhorfendur allan hringinn í kringum völlinn og læti frá fyrstu mínútu. Vissulega mikið undir fyrir bæði lið, en það breytir því ekki að hér er komin önnur grannaglíma í deildina sem spennandi verður að fylgjast með í framtíðinni.

Í leiknum sjálfum mátti varla á milli sjá. Stjarnan frákastaði mun betur á meðan að Álftnesingar voru skilvirkari sóknarlega. Á endanum var það skilvirkni Álftnesinga sem varð ofaná ásamt gífurlega flottum lokamínútum frá Dúa Þór Jónssyni.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -