spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaÁlftnesingar semja við stjörnu úr bandaríska háskólaboltanum

Álftnesingar semja við stjörnu úr bandaríska háskólaboltanum

Álftanes hefur samið við Andrew Jones um að leika með liðinu á komandi tímabili í Subway deild karla.

Andrew er 26 ára 193 cm bandarískur skotbakvörður sem kemur til Álftaness frá Orchies í Frakklandi, en tímabilið á undan hafði hann leikið fyrir Rasta Vechta í Þýskalandi. Hann er þó einna þekktastur fyrir frammistöðu sína á háskólaárunum með stórliði Texas Longhorns, en hann er níundi stigahæsti leikmaður í sögu skólans og sá fjórði í þristum skoruðum.

„Andrew var okkar fyrsti kostur í þessa stöðu og er verulega ánægjulegt að fá hann til liðs við okkur. Andrew hefur náð miklum árangri á sínum ferli og við erum viss um að koma hans á Álftanesið verðu gæfuspor fyrir hann og félagið. Hann hefur eiginleika sem munu hjálpa liðinu verulega; hann er frábær skorari og les leikinn einstaklega vel,“ segir Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftnesinga. 

„Ég er mjög spenntur fyrir komandi tímabili. Ég hef verið að kynna mér félagið og er afar þakklátur að næsta skref mitt á ferlinum sé að spila með Álftanesi,“ segir Andrew Jones.

Þegar hann er spurður hvers aðdáendur Álftaness megi búast við af honum svarar hann: 

„Þau mega búast við leikmanni með keppnisanda sem gerir allt til að hjálpa liðinu að vinna leiki.“

Árangur í Evrópu 

Jones lék síðast í NM1 deildinni í Frakklandi, sem er þriðja efsta deildin þar í landi. Þrátt fyrir það er þetta sterk deild og hafa margir leikmenn komið þaðan til Íslands og gert það gott. Jones var með næst flest stig að meðaltali deildinni, skoraði 17,2 í leik. Auk þess var hann með 4,3 fráköst 2,6 stoðsendingar og 1,8 stolinn bolta. Hann hitti úr 47% skota sinna og var með 45% þriggja stiga nýtingu, sem telst einstaklega gott. 

Tímabilið 2022 – 2023 lék hann í Pro A í Þýskalandi, sem er næst efsta deildin þar í landi. Jones var þá hluti af hinu feykisterka Rasta Vechta sem vann deildina og fór upp í Bundesliguna. Jones var þar með rúm 10 stig, þrjú fráköst og stal um einum bolta í leik auk þess sem hann hitti úr tæplega 39% þriggja stiga skota sinna. 

Magnaður háskólaferill 

Jones er þekktur í Bandaríkjunum fyrir framgöngu sína utan vallar sem innan í bandaríska háskólaboltanum. Hann lék virkilega vel á sínu fyrsta ári fyrir Texas-háskólann og var orðaður við NBA deildina. Hann ákvað þó að halda áfram að leika með Texas. En undir lok annars árs síns þar var hann greindur með hvítblæði. Þetta var mikið reiðarslag fyrir Jones, hans aðstandendur, liðsfélaga hans, þjálfara og samfélagið í kringum Texas-liðið. Jones hefur margoft þakkað einstöku læknateymi og starfsfólki spítalanna sem hann var á. Hann hefur sömuleiðis sagt frá því að körfuboltinn hafi veitt honum von og var hann staðráðinn í að snúa aftur á völlinn, sem þótti ansi háleitt markmið á þeim tíma. 

En með einstakri þrautseigju tókst Jones að komast aftur í nægilega gott leikform til að leika með einu sterkasta háskólaliði Bandaríkjanna. Hann lék tvo leiki tímabilið 2018 – 2019 og kom lítið við sögu, enda ekki búinn að ná fyrri styrk fyllilega. En strax í fyrsta leiknum tímabilið 2019 – 2020 skoraði hann 20 stig, sem var þá stigametið hans í einum leik. Jones sýndi þar að hann væri kominn aftur til þess að halda áfram að leiða liðið. Endurkoman gekk einstaklega vel og náði hann á undraverðan hátt að halda áfram stigaskorun sinni og kröftugum leik. Hann lauk tímabilinu með 11,5 stig að meðaltali í leik og lék tvær leiktíðir til viðbótar með liði skólans (14,6 stig að meðaltali ‘20-’21 og 11,2 stig ‘21-22). 

Alls lék hann 135 leiki fyrir Texas og skoraði rúm 12 stig að meðaltali í leik, tók 3,4 fráköst, gaf 2,3 stoðsendingar og stal einum bolta. Hann var valinn í annað úrvalslið hins feykisterka Big 12 riðils árið 2021 og hlaut árið 2022 hugrekkisverðlaunin í bandaríska háskólaboltanum sem kennd eru við Perry Wallace í karlaboltanum. 

Þess má einnig geta að Andrew Jones átti framúrskarandi feril í framhaldsskóla. Hann var til að mynda valinn í McDonald’s All American leikinn, en þar koma saman 24 helstu leikmenn hvers árgangs. Hann tók sömuleiðis þátt í Jordan Brand All Star leiknum sama ár.

Fréttir
- Auglýsing -