spot_img
HomeFréttirÁlftnesingar kjöldregnir í Ljónagryfjunni

Álftnesingar kjöldregnir í Ljónagryfjunni

Álftanes mættu með lið sitt í fyrsta skipti í Ljónagryfju þeirra Njarðvíkinga í kvöld í Subwaydeild karla. Fyrir leik voru Njarðvíkingar aðeins með einum sigri meiri en Álftanes í hnífjafnri Subwaydeildinni.  Njarðvíkingar unnu. nokkuð sannfærandi og áreynslulausan sigur gegn ansi flötum Álftnesingum þetta kvöldið. 

Njarðvíkingar mættu nokkuð bjartari til leiks og voru gestirnir í nokkuð reglulegum vandræðum að ná að skora körfu fyrsta fjórðung leiksins.  Aðeins 9 stig frá bláum gegn sprækum Njarðvíkingum sem voru að spila aðeins undir pari en settu þó 22 stig.  Í öðrum fjórðung voru bæði lið í vandræðum með sóknarleik sinn og ekki mikið skorað. Erfitt er að skella skuldinni á góðan varnarleik liðana, því hann var ekkert sérstakur hjá hvorugu liðinu.  Staðan var 36:22 í hálfleik og allt enn galopið í þessum leik. 

Chaz Williams leikmaður Njarðvíkinga hafði komið sér í villuvandræði (3 villur) í fyrri hálfleik og spilaði mun minna en hann gerir venjulega þessar fyrstu 20 mínútur leiksins.   Njarðvíkingar hófu seinni hálfleik af krafti og voru komnir með 20 stiga forskot þegar um 5 mínútur voru liðnar inn í seinni hálfleik.  Gestirnir reyndu hvað þeir gátu en hreinlega hittu ekki úr jafnvel fínum færum. Njarðvíkingar hömruðu lánlausa Álftnesinga og munurinn fór á endanum í 30 stig.  Grunnur að nokkuð öruggum sigri lagður í þriðja fjórðung en staðan var 64:32.  Fjórði leikhluta virtist einungis vera formsatriði að klára eftir þetta. Lánleysi gestana var algert og sáu þeir aldrei til sólar eftir þetta. 

Stigahæstu menn Njarðvíkur þetta kvöldið voru þeir Dominykas Milka og Dwayne Lautier en hjá Álftanes var fátt um fína drætti og stigahæstu menn þeirra náðu ekki einu sinni tveggja stafa tölu.  Njarðvíkingar rýghalda í 2. sæti deildarinnar en Álftanes eru þar rétt fyrir neðan í 4 sæti deildarinnar. 

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -