spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaÁlftanes og Ljósið taka höndum saman "Viljum svo auðvitað fylla húsið í...

Álftanes og Ljósið taka höndum saman “Viljum svo auðvitað fylla húsið í fyrsta heimaleik þannig að sem mest renni til þessa frábæra starfs”

Ljósið og Álftanes hafa undirritað samstarfssamning sem felur í sér kynningu á starfsemi Ljóssins í gegnum starf félagsins. Markmiðið með samstarfinu er að auka vitund um starfsemi Ljóssins og fjölga þeim sem styðja við bakið á því. Í þessu skyni mun lið Álftaness spila í búningum merktum Ljósinu og auka sýnileika Ljóssins í tengslum við viðburði félagsins. Þá mun allur ágóði af fyrsta heimaleik Álftaness renna óskertur til Ljóssins en fyrsti leikurinn verður á móti Þór Akureyri þann 23. september kl. 19:15. Til að styðja við framtakið á föstudaginn hefur Halldór Kristmansson, einn af bakhjörlum körfuknattleiksdeildarinnar í vetur, heitið einni milljón króna til styrktar Ljósinu.

Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður deildarinnar:

„Ljósið vinnur ómetanlegt starf í íslensku samfélagi. Samstarf okkar við Ljósið gengur út á það að lyfta þessu starfi í gegnum körfubolta og þakka fyrir það. Við viljum svo auðvitað fylla húsið í fyrsta heimaleik þannig að sem mest renni til þessa frábæra starfs.“

Erna Magnúsdóttir, forstöðumaður Ljóssins:

„Við erum mjög spennt fyrir þessu samstarfi við Álftanes í vetur og kynna starfsemi Ljóssins með þessum skemmtilega hætti. Íþróttir og hreyfing eru mjög mikilvægur þáttur í okkar starfi og því gott að nýta þennan vettvang sem körfuboltinn er til að vekja athygli á starfsemi Ljóssins.“

Halldór Kristmansson einn af bakhjörlum deildarinnar segir:

„Ég þekki vel til starfsemi Ljóssins sem og uppbyggingarinnar á körfunni á Álftanesi og vil því leggja mitt að mörkum til að styðja við þetta samstarf.“

Fréttir
- Auglýsing -