spot_img
HomeFréttirAldrei hætta gegn Dönum og silfur í hús

Aldrei hætta gegn Dönum og silfur í hús

Ísland var rétt í þessu að leggja Dani örugglega að velli í síðasta mótsleik Norðurlandamótsins í Svíþjóð. Sigur Íslendinga var aldrei í hættu og þeir Dagur Kár Jónsson og Maciej Baginski fóru fyrir liðinu þar sem lokatölur voru 78-53. Dagur Kár gerði 27 stig og tók 4 fráköst en Maciej Baginski var með 25 stig og 10 fráköst.
 
Pétur Rúnar Birgisson opnaði með körfu og villu að auki og snöggtum síðar mætti Maciej Baginski með þrist og Íslendingar komust í 6-2. Ísland var sterkari aðilinn fyrstu tíu mínúturnar þökk sé góðri vörn og leiddi liðið 17-11 eftir fyrsta leikhluta.
 
Íslensku piltarnir héldu áfram að kvelja þá dönsku í öðrum leikhluta með þéttum varnarleik. Maciej Baginski fór vel af stað og var með 15 stig og 5 fráköst í hálfleik en þegar hans syrpa var um það bil að kólna tók Dagur Kár Jónsson við keflinu og áttu Danir fá svör við honum, Dagur með 18 stig og 3 fráköst í hálfleik og Íslendingar leiddu 43-24.
 
Þriðji leikhluti var öllu jafnari en fyrri hálfleikur, Danir börðust vel en forysta Íslendinga var alltaf í kringum 20 stigin og leiddi liðið 55-37 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Danir opnuðu fjórða leikhluta með 7-0 spretti og náðu að minnka muninn í 57-46 en Íslendingar hleyptu þeim ekki nærri og kláruðu leikinn 78-53 þar sem Jón Axel Guðmundsson gerði síðustu stig Norðurlandamótsins með þriggja stiga körfu og þar með er NM 2013 lokið.
 
Íslensku liðin koma því heim með þrjú silfurverðlaun þetta árið og þá ber að geta þess að Dagur Kár Jónsson var valinn í fimm manna úrvalslið mótsins í flokki U18 ára. Dagur Kár var stigahæsti leikmaður mótsins með 27,6 stig að meðaltali í leik en Maciej Baginski var í 2. sæti með 22 stig að meðaltali í leik.
 
 
Mynd/ [email protected] – Íslensku U18 ára strákarnir fá silfurverðlaunin afhent í Solnahallen.
  
Fréttir
- Auglýsing -