Það var mikil spenna fyrir leik Grindavíkur og Fjölnis í kvöld enda liðin í neðstu sætum Dominosdeildarinnar, Grindavík með 10 stig og Fjölnir með 6 stig. Flestir bjuggust við jöfnum leik og heyra mátti í körfuboltafræðingum segja að þetta yrði jafn leikur, mest 4 stiga munur og líklega myndi ekki muna meiru en 1-2 stigum í lok leiks.
Leikurinn byrjaði vel og var jafn og spennandi. Grindvíkingar komast í 7-2 en Fjölnisstúlkur voru fljótar að jafna 7-7 og í lok 1.leikhluta var staðan 18-16 fyrir Grindavík. Sama barátta hélt áfram í upphafi 2.leikhluta en í stöðunni 25-23 fyrir Grindavík um miðjan leikhlutann fóru heimastúlkur að stíga hægt og rólega fram úr Fjölnisstelpum og þegar mínúta var til leiksloka var kominn 15 stiga munur á liðunum en Bergdís Ragnarsdóttir skoraði 4 stig á seinustu mínútunni og náði að laga stöðuna áður en flautað var til hálfleiks. Hálfleikstölur voru 44-33 fyrir Grindavík.
Hjá Grindavík var Crystal Smith og Petrúnella Skúladóttir með 12 stig hvor. Síðan verður að hrósa Berglindi Önnu Magnúsdóttur fyrir frábæra baráttu í Grindavíkurliðinu en hún var komin með 5 stig, 5 stoðsendingar, 5 fráköst og 3 stolna í hálfleik. Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir var einnig öflug með 3 stoðsendingar og 3 stolna bolta.
Hjá Fjölni voru Britney Jones og Bergdís Ragnarsdóttir með 12 stig hvor og voru þær að draga vagninn hjá Fjölni, Fanney Lind Guðmundsdóttir var með 6 stig og 7 fráköst en ljóst að Fjölnir þurfti að fá meira frá öðrum leikmönnum ef þær ætluðu sér sigur í leiknum.
Flestir bjuggust við Fjölnisstelpum sterkum inn á völlinn í síðari hálfleik en því miður var eins og það vantaði allan vilja og kraft í Fjölniskonur og leit alls ekki út fyrir að þær væru að berjast fyrir veru sinni í deildinni. Að sama skapi þá efldust Grindavíkurstúlkur með hverri mínútu og héldu áfram að auka muninn og staðan eftir 3.leikhluta var 74-47.
Ljóst var að Fjölnisstelpur þurftu að gefa allt í leikinn í 4.leikhluta ef þær ætluðu að eiga möguleika á sigri. En leikmenn höfðu ekki trú á verkefninu og leit út fyrir að margar væru inn á vellinum af skyldu en ekki af löngun til að spila körfubolta. Britney Jones reyndi að bera liðið uppi og koma þeim aftur inn í leikinn en Crystal Smith og Ingibjörg Yrsa voru búnar að skiptast á að spila stífa vörn á hana og átti hún því ekki mikla orku eftir til að vinna upp þennan mikla mun auk þess sem aðstoð vantaði frá öðrum leikmönnum Fjölnis. Grindavíkurstelpur héldu áfram að spila vel saman og stýrðu öruggum sigri í höfn, 90-64.
Stærsti munurinn á liðunum tveimur í kvöld var sá að Grindvíkingar fengu 17 stig af varamannabekknum og skoruðu 10 leikmenn liðsins meðan Fjölnir fékk engin stig af bekknum. Grindvíkingar stóðu sig mjög vel í því að stöðva Britney Jones, erlendan leikmann Fjölnis, og átti því Fjölnir í nokkrum erfiðleikum með að finna leið að körfunni.
Stigahæstar í liði Grindavíkur voru Crystal Smith með 24 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar, og Petrúnella Skúladóttir með 23 stig (4/4 í þriggja stiga skotum), 8 fráköst, 5 stoðsendingar og 5 stolna. Berglind Anna Magnúsdóttir átti einnig flottan leik og þá sérstaklega í fyrri hálfleik og endaði hún leikinn með 12 stig, 5 stoðsendingar og 6 fráköst. Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir átti einnig mjög góðan leik þar sem hún ásamt Crystal Smith sáu að mestu leyti um að dekka Britney Jones og héldu henni í 19 stigum sem telst ansi lítið á þeim bæ.
Hjá Fjölni átti Bergdís Ragnarsdóttir mjög góðan leik og skoraði 21 stig ásamt því að taka 7 fráköst. Britney Jones var með 19 stig og 7 stoðsendingar og Fanney Lind Guðmundsdóttir var með 11 stig og 11 fráköst.
Mynd/ Jenný Ósk
Umfjöllun/ BG



