Skallagrímsmenn vildu ólmir bæta fyrir tap af stærri gerðinni gegn Njarðvík í síðustu umferð, þegar þeir tóku á móti Keflvíkingum í Fjósinu í kvöld. Áhorfendur fjölmenntu í íþróttamiðstöðina í von um góða skemmtun og sigur í kvöld.
Leikurinn byrjaði á háu tempói þar sem bæði lið spiluðu aggressíva vörn sem skilaði sér í 150 sekúndum án stiga fyrir bæði lið. Dómarar leiksins leyfðu varnarmönnum beggja liða að komast upp með allskonar uppátæki og fór það í taugarnar á flest öllum sóknarmönnum beggja liða. Skallagrímur reyndu að vinna mikið inní teignum og spila sterka vörn sem Keflvíkingar höfðu ekki nægilega góð svör við. Ekki nema gamalmennið hann Darrel Lewis sem virtist skora af vild, en var hins vegar ekki að fá að snerta boltann mikið í sóknaraðgerðum gestanna. Staðan 18-22 í lok fyrsta fjórðungs fyrir Suðurnesjamenn.
Annar leikhluti hófst á svipaðan hátt og sá fyrsti nema með örlítið meira stigaskori. Keflvíkingum gékk erfiðlega að komast að körfunni hjá heimamönnum og fengu flest öll stig sín í byrjun leikhlutans með einstaklingsframtaki. Staðan 37-40 þegar 44 sekúndur er eftir af hálfleiknum en þá skora Keflvíkingar síðustu sjö stig leikhlutans, sem einungis er hægt að skrifa á klaufaskap og einbeitingarleysi Skallagrímsmanna, og leiða í hálfleik 37-47.
Fyrstu mínútur seinni hálfleik einkenndust af lélegum sendingum, óheppilegum skotum og endalausum vandræðagangi sóknarlega hjá báðum liðum og staðan orðin 41-55 eftir fjórar fyrstu mínúturnar. Þá stinga Keflvíkingar af og sýndu loksins af hverju þeir eru efstir og taplausir í þessarri blessuðu Dominosdeild. Gjörsamlega gengu frá Skallagrímsmönnum bæði varnar- og sóknarlega og unnu 3ja leikhluta 10-29.
Skallagrímur byrjuðu fjórða leikhluta af miklu eldmóð og með góðum stuðningi Fjósamanna úr stúkunni ná þeir betri byrjun sem leiddi til leikhlés hjá Andy Johnston. Fyrir utan tæknivillu sem Arnar Freyr fékk um miðbik leikhlutans var ekki margt merkilegt á teningunum í lokaleikhlutanum , bæði lið skoruðu 20 stig, þó undirritaður vilji benda á að Keflvíkingar skelltu einum „sucker punch“ flautuþrist í lok leiksins(Hafliði Brynjarsson). Lokastaðan 67 – 96 í áhorfanlegum en óspennandi leik.
Umfjöllun/ Skúli Guð



