spot_img
HomeFréttirÁgúst: Þetta verður seint eða aldrei leikið eftir

Ágúst: Þetta verður seint eða aldrei leikið eftir

13:40

{mosimage}

Ágúst Björgvinsson þjálfari margfaldra meistara Haukakvenna ljómaði eins og sólin í leikslok í gær eftir að Haukar höfðu tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn. Óvíst er hvað verður í framhaldinu hjá Ágústi en vitað er að Helena Sverrisdóttir verður ekki með Haukum á næstu leiktíð þar sem hún heldur til Bandaríkjanna í nám. Í ágúst á síðasta ári fékk Ágúst tilboð um að koma að taka að sér þjálfarastöðu í Litháen en hann hélt tryggðinni við Hauka og segist ekki sjá eftir því. 

„Hvað á maður að segja, ég veit það ekki,“ sagði Ágúst í samtali við Karfan.is. „Þetta verður seint leikið eftir með svona ungt lið, ég held bara að þetta verði aldrei leikið eftir,“ sagði Ágúst en Haukar voru með yngsta liðið í Iceland Express deildinni í vetur og þá var Ágúst yngsti þjálfarinn. „Við erum með lið sem er hálfu ári yngra að meðaltali en það lið sem varð Íslandsmeistari í fyrra og okkar elsti leikmaður verður 23 ára á þessu ári.“

 

Hrein unun var að fylgjast með úrslitakeppni kvenna þetta árið og þá voru rimmur Hauka og Keflavíkur heilt yfir tímabilið magnaðar svo vægt sé til orða tekið. Bikarleikur liðanna var stórkostlegur þar sem úrslitin réðust á síðustu sekúndum leiksins. Haukar sýndu svo á lokasprettinum í úrslitakeppninni hvers þær eru megnugar með því að leggja Keflavík 3-1 í úrslitum og fagna þeim stóra í Sláturhúsinu.

 

„Þetta er uppskeran hjá okkur því stelpurnar hafa lagt ótrúlega mikið á sig,“ sagði Ágúst. Aðspurður hvort hugurinn lægi nú út fyrir landsteinana svaraði Ágúst: „Það er enn þá sætara fyrir mig að vinna í ár því ég hef lengi stefnt að því að þjálfa erlendis eða frá því að ég var úti í Litháen. Í ágúst í fyrra fékk ég ágætt peningatilboð sem var mjög freistandi en ég ákvað að standa með mínu liði og ég sé ekki eftir því í dag. Ég vona samt að ég fái aftur einhver tilboð sem hafa verið svipuð þeim sem mér hefur borist áður. Ég hef samt engar áhyggjur af þessum málum í dag, við sjáum bara hvað gerist,“ sagði Ágúst svo það kemur væntanlega í ljós í sumar hvort Ágúst verði áfram með Hauka.

 

[email protected]

 

Fréttir
- Auglýsing -