spot_img
HomeFréttirÁgúst: Mikil forréttindi að hafa aðaláhugamálið að atvinnu

Ágúst: Mikil forréttindi að hafa aðaláhugamálið að atvinnu

Ágúst S. Björgvinsson: Mikil forréttindi að hafa aðaláhugamálið að atvinnu

Ágúst S. Björgvinsson er flestum körfuboltaunnendum vel kunnur. Hann hefur verið þjálfari frá unglingsaldri og er enn að og hvergi nærri hættur. Þrisvar sinnum hefur Ágúst verið valinn þjálfari ársins og titlarnir sem hann hefur unnið eru ófáir; til að mynda gerði hann kvennalið Hauka að Íslandsmeisturum tvisvar og bikarmeisturum einnig í tvígang. Karfan lagði fyrir Ágúst nokkrar spurningar.

Jæja, byrjum á byrjuninni – hver er Ágúst S. Björgvinsson?

„Ég er fæddur og uppalinn í Reykjavík; kláraði nám frá Háskólanum í Reykjavík, BS íþróttafræði og MSc þjálfunarvísindum og þjálfun. Ég er giftur og á tvo stráka sem báðir æfa körfubolta með Val. Það verður að segjast eins og er að mest allt sem ég hef verið að gera í gegnum árin hefur haft einhverja tengingu við fjölskyldu og körfubolta.“

Ágúst með Hamri 2010

Hvenær byrjaðirðu að æfa körfubolta og varstu góður leikmaður?

„Ég byrjaði að æfa árið 1992, eftir Ólympíuleikanna í Barcelona; þá var algert æði í kringum körfuboltann og það varð einfaldlega til þess að allt byrjaði að snúast um körfubolta hjá mér. Þá spilaði einnig inn í að Valsmenn höfðu spilað til úrslita um titilinn í karlaflokki vorið 1992, og var það líklega þess vegna sem ég valdi að fara í Val. En ég byrjaði líklega of seint til þess að verða góður leikmaður,“ segir Ágúst sem var þrettán ára gamall á þessum tíma.

En hvernig skyldi það hafa komið til að þú byrjaði að þjálfa, og hvað við starfið gerir það svo spennandi að þú ert búinn að vera þjálfari meirihluta ævi þinnar?

„Ég hafði ungur mikinn áhuga á þjálfun, og byrjaði ungur að þjálfa hjá Val; var orðin aðstoðarþjálfari í yngri flokkunum sextán ára gamall, og stuttu síðar vantaði þjálfara og ég var því aðeins rétt rúmlega sextán ára þegar ég tók við mínum fyrsta yngriflokk sem aðalþjálfari. En það var svo að þegar ég var tvítugur hætti ég að spila vegna meiðsla, og byrjaði þá að þjálfa á fullu. Varð yfirþjálfari og með þrjá flokka, og ég tel það vera mikil forréttindi að geta verið að fást við sitt áhugamál daglega og hafa það sem atvinnu.“

Ágúst með Inga Þór er þeir luku FECC 2015

Ágúst hefur hefur náð frábærum árangri sem þjálfari á löngum ferli og bæði þjálfað karlalið og kvennalið. Finnst honum vera munur á því að þjálfa karla og konur?

„Já, það er mjög mikil munur, og nei, það er ekki mikill munur. Því fleiri hópa sem ég hef þjálfað finnst mér munurinn meira vera á hópum og einstaklingum frekar en á kynjunum. Körfuboltinn er þó nokkuð ólíkur, þar sem kvennaboltinn er meira undir hringnum á meðan karlaleikurinn er fyrir ofan hring.“

Hvað segirðu mér um þjálfunaraðferðir þínar?

„Þær hafa breyst töluvert með árunum. Ég hef alltaf lagt mikið uppúr að byggja upp liðsheild og lagt mikla áherslu á tækniþjálfun. Hef viljað spila „high tempo“ bolta með áherslur á aggressívan varnarleik. En taktískar aðferðir þarf til að geta aðlagað áherslurnar að leikmannahópnum hverju sinni.“

Ágúst Björgvinsson, Valur 2019

Hvernig heldurðu þér við sem þjálfari?

„Ég hef gert ýmislegt í gegnum árin. Þjálfað í æfingabúðum í Bandaríkjunum flest sumur frá árinu 2001. Hef haft mjög gaman að sækja þjálfaranámskeið og hef reynt að fara á að minnsta kosti eitt slíkt erlendis ár hvert. Einnig hef ég verið verið að fara á æfingar hjá landsliðum og atvinnumannaliðum og háskólaliðum. Það hefur líka verið góður skóli að vera í kringum landsliðin hjá KKÍ. Auðvitað að vera þjálfa með og gegn mörgum frábærum þjálfurum sem maður lærir mikið af.“

Ágúst er í dag meðal annars að þjálfa U-16 landslið karla og er á því að bjart sé framundan hjá því liði.

„Ég er búin að vera í kringum afreksstarf KKÍ í um það bil tuttugu ár og höfum við átt nokkur virkilega góð yngri landslið. Það sem mér finnst vera mesti munurinn núna og fyrr er hvað það eru margir góðir leikmenn í hverjum árgangi. Það er orðið þannig að mjög góðir leikmenn eru ekki að komast í lokahóp í yngri landsliðum.“

Það er meira en óhætt að segja að það sé mikið að gera hjá Ágústi og honum fellur sjaldan verk úr hendi, enda hefur hann í mörg horn að líta.

„Ég starfaði sem þjálfari í aðalstarfi í um það bil tuttugu ár, og hef oft haft eitthvað með tengt körfubolta; eins og kennslu, að lýsa leikjum og hef stýrt þjálfaramenntun KKÍ síðan árið 2015. En í vetur er ég í fyrsta skipti búinn að snúa þessu við og starfa sem kennari í aðalstarfi, en ég er að kenna í Fjölbraut i Breiðholti á íþróttabraut og við íþróttabraut HR. En Þetta er fyrsti veturinn sem ég þjálfa ekki meistaraflokk í sautján ár. En það er samt meira en nóg að gera – ég finn mér alltaf eitthvað gera,“ segir Ágúst sem þjálfar hjá Val í minnibolta átta til níu ára stráka, sjöunda flokk karla og er yfirþjálfari körfuboltadeildarinnar.

Ágúst er með fleiri járn í eldinum; hann er að skrifa bók og er ekki bara kennari heldur er hann nemandi líka. Ég spyr Ágúst um þetta og hvort hann þurfi ekki að skipuleggja tíma sinn vel.

„Jú, maður verður að gera það. Það hjálpar mér að hafa þjálfað tvo meistaraflokka á sama tima ásamt yngri flokk, auk þess að vera i háskólanámi 2010 til 2015. Maður lærir að nýta tímann vel. En bókin er á byrjunarstigiog kannski lítið hægt að segja um hana eins og er; en þetta er kennslubók í körfubolta. Meðfram þessu er ég svo í MEd (Master in Education) námi í HR. Það er gott að hafa nóg að gera.“

Ágúst með Pétri fyrir utan Staples höllina í Los Angeles um stjörnuhelgina 2018

 Það er ekki úr vegi að spyrja Ágúst hvaða leikmenn hér á landi og á heimsvísu séu þeir bestu allra tíma að hans mati.

„Ég segi að Pétur Guðmundsson og Helena Sverrisdóttir eru þeir íslensku leikmenn sem hafa náð lengst. Á heimsvísu er það svo Michael Jordan sem er sá leikmaður sem hefur haft mest áhrif á leikinn sögulega séð.“

Áttu þér uppáhalds NBA lið og leikmann?

Portland Trail Blazers  var mitt uppáhalds lið, en í dag er það breytilegt eftir hvernig lið spila þjálfurum og leikmönum. Hvað leikmann varðar þá var Clyde Drexler alltaf minn maður, og það hefði verið gaman að fylgjast með honum í deildinni í dag; hann var svo mikil íþróttamaður og svo rosalega fjölhæfur.“

Ágúst með Mike Krzyzewski þjálfara Duke og Bandaríkjanna

Fylgistu með öðrum íþróttum?

„Ég hef gaman af öllum íþróttum en eðlilega mismikið. Ég er að reyna fylgjast með öllu sem gerist hér heima. Ég fylgist eðlilega vel með Domino´s deildunum tveimur og yngriflokkum, og þá sérstaklega þeim sem ég tengist núna –  tíunda flokk drengja þar sem ég er með U-16 ára liðið.

Erlendis frá fylgist ég með NBA, NCAA, og reyni að horfa á sem flesta Duke leiki, Euroleauge, ACB og reyni að fylgjast með deildum þar sem íslensku leikmennirnir eru að spila, og svo þeim leikmönnum sem ég þekki og eða hef þjálfað. Ég reyni líka að fylgja nokkrum þjálfurum, en það hefur sjaldnast verið nægur tími til að fylgjast með öllu sem manni langar að fylgjast með.“

Áttu þér einhver áhugamál?

Öll mín áhugamál hafa tengst körfubolta á einhvern hátt og ég hef haft mjög gaman að ferðast og tengja körfuboltann ferðalögum; fara í heimsókn til liða, fylgjast með æfingum og leikjum, og fara á námskeið. Satt best að segja þá er ekki mikil tími fyrir önnur áhugamál en körfubolta. Meira að segja er leyni áhugamál mitt af körfuboltalegum toga; ég safna körfuboltamyndum,“ segir Ágúst að lokum. 

Texti / Svanur Már Snorrason

Fréttir
- Auglýsing -