Þjálfari karlaliðs Vals var nokkuð sáttur með dráttinn í átta liða úrslitum Maltbikarsins sem fram fór í gær. Ljóst var að Valur tekur á móti KFUM félaginu frá Hafnarfirði, Haukum.
Valur hefur slegið vesturlandsliðin Skallagrím og Snæfell úr bikarkeppninni til þessa en bæði lið leika í efstu deild í ár. Haukar eru því þriðja úrvalsdeildarliðið sem Valur fær í Valshöllinni og því fróðlegt að sjá hvort Valur verði banabiti fleiri liða úr Dominos deildinni.
Karfan.is spjallaði við Ágúst Björgvinsson þjálfara liðsins stuttu eftir að dregið hafði verið í átta liða úrslitunum. Það lá beinast við að ræða þennan óvænta sigur liðsins á Skallagrím kvöldið áður þar sem lokastaðan var 109-105.
„Fyrir mér voru þetta ekki óvænt úrslit en ábyggilega útá við. Við lékum nokkuð vel í leiknum og sérstaklega sóknarlega. Það er ekki eins og Skallagrímur hafi átt einhvern slæman dag, þeirra aðalskorarar voru með um 20 stig. Þannig það er ekki eins og þeir hafi lent í einhverjum vandræðum með að skora á okkur. Við lékum mjög vel, ég var ánægður með hvað við vorum fljótir að refsa þegar við lentum á leikmönnum sem gátu ekki dekkað okkur (mismatch).“ sagði Ágúst um sigurinn á Skallagrím.
Eins og áður hefur komið fram tekur Valur á móti Haukum í næstu umferð sem fram fer í janúar.
„Mér lýst vel á að þetta sé heimaleikur. Gaman að fá Haukana, þetta er gott lið sem spilaði til úrslita í fyrra og við förum klárlega inní þetta sem litla liðið.“
Segja má að Valur sé spútnik lið bikarkeppninnar hingað til en það er ekki vanalegt að 1. deildar lið slái úrvalsdeildarlði úr leik og hvað þá oft í sömu keppninni.
„Við erum að gera eitthvað sem gerist ekki á hverju ári. Fólk er auðvelt með að hrífast með því sem gerist ekki dags daglega.“ sagði Ágúst og bætti við að lokum um möguleika Valsliðsins gegn Haukum.
„Það getur allt gerst þegar þú kemur inní svona körfuboltaleik. Haukar eru með hörkulið og betra lið en við á pappírum. Enn það skemmtilega við þessa bikarkeppni er að þetta er bara einn leikur og það getur allt gerst. Ef við mætum í verkefnið og höfum fulla trú á því þá aukast bara líkurnar á að eitthvað óvænt og skemmtilegt gerist. Við mætum með bakið upprétt og tilbúnir að takast á við þetta.“



