Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ hefur verið mikið milli tannanna á fólki undanfarið. Fyrir tæpu ári sleppti nefndin leikmanni Snæfells við refsingu eftir kæru frá dómara vegna atviks í leik KFÍ og Snæfells í febrúar, og nú fyrr í dag sleppti hún leikmanni kvennaliðs Vals við refsingu eftir kæru dómaranefndar vegna atviks í leik Snæfells og Vals fyrr í mánuðinum. Dómur götunnar var skýr í báðum tilvikum: skýlaus agabrot sem þurfti að refsa fyrir. Hvers vegna úrskurðar nefndin þá þvert á almenna skynsemi (í margra augum), sér í lagi þegar myndbönd liggja fyrir til sönnunar í báðum málum?
Fyrra brotið átti sér stað í leik KFÍ og Snæfells þar sem leikmaður Snæfells virtist sparka í höfuð leikmanns KFÍ eftir samstuð þeirra þegar boltinn var úr leik. Ekkert var dæmt á hið meinta brot í leiknum sjálfum en dómarinn kærði atvikið til aga- og úrskurðarnefndar. Niðurstaða nefndarinnar var á þá leið að nefndin væri ekki bundin af mati dómara þar sem ekki hafi verið dæmt á meðan á leik stóð. Þar að auki eftir ítrekaða skoðun á myndbandinu hafi meirihluti nefndarinnar ekki sammælst um að brot hafi átt sér stað og því hafi meintur gerandi fengið að njóta vafans.
Seinna brotið (á 09:41) átti sér stað í leik kvennaliða Vals og Snæfells þar sem leikmaður Vals gerist sekur um gróft brot með því að reka olnboga í háls varnarmanns. Óíþróttamannsleg villa var dæmd en dómaranefnd KKÍ kærði atvikið til aga- og úrskurðarnefndar eftir nánari skoðun að loknum leik. Sú breyting varð á á ársþingi KKÍ í sumar sem heimilar slíka kæru, mögulega vegna fyrra málsins í febrúar 2013. Úrskurður nefndarinnar var á þá leið að engri frekari refsingu yrði beitt. Nefndin klofnaði hins vegar í afstöðu sinni til málsins þar sem þrír af sex nefndarmönnum mynduðu meirihluta um fyrrnefnda niðurstöðu en tveir nefndarmenn töldu rétt að leikmaður Vals sætti eins leiks banni vegna brotsins. Sá sjötti vék af fundinum vegna vanhæfis. Meirihluti nefndarinnar taldi hana bundna af ákvörðun dómarans í leiknum skv. 4. mgr. 6. gr reglugerðar aga- og úrskurðarmála, og því stæði sá dómur þrátt fyrir vitnisburð umrædds dómara á þá leið að hefði hann fengið sama sjónarhorn og myndbandið sýndi hefði hann dæmt á annan hátt.
Því skal haldið til haga til að taka af allan vafa að undirritaður er algerlega hlutlaus gagnvart öllum sem eiga hlut að máli og hefur engra hagsmuna að gæta í hvoru máli. Ég þekki hvorki umrædda leikmenn persónulega né dómara og hvað þá nefndarmenn. Þessar ákvarðanir hins vegar valda mér hugarangri þar sem mér er annt um íþróttina og ég vil að agabrotum fylgi viðeigandi refsing, sama hver á í hlut.
Hér eru um tvö aðskild atvik að ræða sem þó eiga sumt sameiginlegt og annað ekki. Bæði voru kærð með óhefðbundnum hætti til aga- og úrskurðarnefndar eftir leik, bæði varða meint ofbeldi leikmanna í leik og úrskurðirnir fara á sömu leið. Það sem er hins vegar ólíkt með þessum málum er að annað fer til nefndarinnar án dóms í leiknum sjálfum en hitt ekki. Túlka má niðurstöðu fyrra málsins sem svo að ekkert hafi verið hægt að aðhafast þar sem ekkert var dæmt í leiknum sjálfum, en í síðara málinu vegna þess að dómur féll í leiknum sjálfum. Dálítið þversagnakennt, ekki satt?
Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ virðist lítið geta aðhafst ef dómari leiksins hefur annað hvort fellt dóm í leiknum sjálfum eða ekki, ef tekið er tillit til 4. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar. Hlutverk nefndarinnar miðað við þetta virðist einskorðast við að ákvarða refsingu við agabrotum þar sem brottrekstur leikmanns eða þjálfara hefur átt sér stað, en hún virðist aðgerðarlaus í öðrum álitaefnum. Ákvæði 2. mgr. 6. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál, þar sem kæruréttur dómaranefndar er staðfestur, og 4. mgr. sömu greinar, þar sem fram kemur að nefndin er bundin af ákvörðun dómara leiksins, stangast að mörgu leyti á.
Hér er að mínu mati kominn á hnútur í úrvinnslu agabrota meðal nefnda sambandsins. Dómaranefnd hefur heimild til að kæra atvik til aga- og úrskurðarnefndar en hún er svo í raun bundin í báða skó. Stigveldi nefndanna er alls ekki skýrt. Til hvers er aganefnd ef hún getur ekki aðhafst í málum þar sem dómur fellur í leik, þrátt fyrir að um augljós mistök dómara sé að ræða? Hvaða skilaboð eru það til leikmanna hér á landi? Það er í lagi svo lengi sem dómarinn sér það ekki, eða sér það ekki nógu vel. Ef svo er tel ég regluverkið komið á hálan ís.
Aga- og úrskurðarnefnd má ekki vera bundin af ákvörðun dómara ef dómaranefnd óskar eftir að málið sé tekið til skoðunar. Ástæðan fyrir slíkri ósk hlýtur að vera mat dómaranefndar að dómgæslu í leik hafi verið ábótavannt í ákveðnu atviki. Aga- og úrskurðarnefnd verður hins vegar að vera bundin af ákvörðun dómara í leiknum ef málið ratar á borð nefndarinnar án afskipta dómaranefndar.
Bæði brot voru að mínu mati ljót og sæma íþróttinni ekki. Burtséð frá því sem á undan hefði mögulega gengið, þá á svona ekki að sjást á vellinum. Ég þekki það aftur á móti sjálfur að allt getur gerst í hita leiksins og þá þarf bara að taka á því þegar svo ber undir. Nefndir KKÍ verða hins vegar að vera í stakk búnar og hafa þau úrræði til ráðstöfunar til að fást við þau mál sem þeim berast.
Að lokum vil ég benda á þá furðulegu staðreynd að aga- og úrskurðarnefnd er skipuð sex aðilum. Ég hélt að allar nefndir sem þurfa að taka ákvarðanir þurfi að hafa fjölda nefndarmanna sem er oddatala, til þess eins að ekki komi upp pattstaða þar sem nefndin er klofin í afstöðu sinni. Þetta þarf KKÍ að taka til skoðunar.
[email protected], ritstjóri Ruslsins.
[email protected] og @TheRealTulinius á Twitter.



