spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaAftur lagði Tindastóll lið Grindavíkur í Síkinu

Aftur lagði Tindastóll lið Grindavíkur í Síkinu

Tindastóll náði að landa öðrum sigrunum gegn Grindavík b á jafnmörgum dögum þegar liðin mættust í Síkinu í dag í 1. deild kvenna í körfuknattleik.

Heimastúlkur byrjuðu leikinn mun sterkar og náðu ágætis forystu í fyrsta leikhluta, staðan 15-6 að honum loknum, ekki mikið skorað. Þetta snerist svo heldur betur við í öðrum leikhluta þar sem slök hittni Stóla hélt áfram en Grindavíkurstúlkur fóru að setja niður sín skot. Gestirnir unnu annan leikhluta 15-22 og staðan 30-28 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var sami barningurinn og sóknarleikur liðanna ekki upp á sitt besta. Heimastúlkur voru þó ávallt skrefi á undan og 5 stig í röð frá Tess komu muninum í 6 stig þegar 3 mínútur lifðu af þriðja leikhluta, 42-36. Gestirnir svöruðu með víti og þrist frá Yrsu en þristur frá Kristínu Höllu kom forystunni í 5 stig, 45-40.

Gestirnir jöfnuðu í upphafi fjórða leikhluta en virkuðu þreyttar og Marín Lind kom forystunni í 9 stig með frábærum þristi og tvisti eftir rúmar 2 mínútur í lokaleikhlutanum. Gestirnir neituðu þó að gefast upp og náðu með harðfylgi að minnka muninn í 2 stig 55-53 þegar um 4 og hálf mínúta var eftir. Nær komust þær þó ekki og góð karfa frá Evu Rún þegar 47 sekúndur lifðu leiks nánast tryggði sigurinn, kom stöðunni í 63-57.

Tess Williams leiddi heimastúlkur í þessum leik eftir að hafa verið róleg í leiknum í gær, endaði með 24 stig og 10 fráköst og var besti maður vallarins. Marín var drjúg á lokakaflanum og endaði með 17 stig og ekki má gleyma Kristínu Höllu með 4 varin skot í lokafjórðungnum. Lovísa Falsdóttir var atkvæðamest gestanna með 14 stig og þær hefðu sannarlega getað stolið sigri með aðeins betri hittni í dag. Liðin hittu aðeins úr 30% skota sinna í leiknum.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -