spot_img
HomeFréttirAfskriftirnar halda áfram

Afskriftirnar halda áfram

 
Á þriðjudag birti Karfan.is pistilinn Afskriftum lokið: Viljinn ræður för á fimmtudag. Þar fórum við m.a. í gegnum hvernig langstærstur hluti stuðningsmanna Keflavíkur snéri við þeim baki í leik fjögur þar sem hámark 50 manns mættu til að styðja liðið í Stykkishólmi. Við ræddum einnig hvernig fólk hefði afskrifað Snæfell eftir stórt tap í fyrsta leik seríunnar og við fullyrtum að afskriftunum væri lokið. Okkur skjátlaðist!
Í Fréttablaðinu í dag er 100% nýting hjá spámönnum og allir veðja þeir á Keflavík í kvöld! Boðið var upp á rándýrar línur eins og:
– ,,Keflvíkingar sleppa þessu ekki“
– ,,Ef Keflvíkingar finna jafnvægið tippa ég á að þeir gætu klárað“
– ,,Tilfinningin segir mér að Keflavík verði meistari“
– ,,Sú tilfinning sem ég hef er að Keflavík vinni titilinn“
– ,,Keflavík verður meistari – það er alveg ljóst.“
– ,,Það er mín tilfinning að Keflvíkingar átti sig betur á því hvaða aðstæður þeir eru að fara inn í“
Enn eina ferðina hika menn ekki við að sjá framtíðina og eru nú búnir að afskrifa Snæfell – því það gaf svo góða raun að afskrifa Keflavík í síðasta leik, var það ekki? Það er frábært að sjá hvernig líkurnar hoppa á milli liðanna og nú eru langflestir á eitt sáttir um að Keflavík verði meistari því þeirra er jú sagan, hefðin og reynslan.
Ef við skoðum liðin í þessu ljósi gæti margt forvitnilegt komið á bátinn. Hverjir eru það í Keflavík sem eru gullinu svo kunnir? Gunnar Einarsson, Jón N. Hafsteinsson, Sverrir Þór Sverrisson og Gunnar Stefánsson. Sigurður Gunnar Þorsteinsson telst vart í þessum hópi enda ungur að árum en hefur þó einn Íslandsmeistaratitil á bakinu með Keflavík. Þá eru ótaldir Nick Bradford og Urule Igbavboa. Sá fyrrnefndi kann vel við sig í stóru leikjunum og hefur unnið titil hér á landi með Keflavík, Urule er hér á sínu fyrsta ári og hefur leikið vel fyrir Keflavík þetta tímabilið. Sigurhefðin og reynslan í herbúðum Keflavíkur býr þá helst í þeim fjórum leikmönnum sem fyrst voru nefndir og þjálfaranum Guðjóni Skúlasyni. Ekki slæm þekking í herbúðum Keflavíkur en gæti verið að spámenn landsins væru að gleyma nokkrum staðreyndum er varða lið Snæfells?
 
Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells varð meistari í fyrra með karlalið KR eftir einhverja mögnuðustu úrslitarimmu sem sögur fara af. Pálmi Freyr Sigurgeirsson var í því liði KR og hans reynsla og sigurhefð er síst minni en hjá leikmönnum Keflavíkur. Þeir Hlynur Bæringsson og Sigurður Á. Þorvaldsson eiga vissulega eftir að vinna þann stóra en þeir skarta þremur silfurpeningum frá glímum sínum við Keflavík í úrslitum síðustu ár. Sú staðreynd ein og sér ætti að vera nægilegur eldur á bál þessara mögnuðu leikmanna. Þá komum við að Jeb Ivey, hann á titil að baki hér á landi og glímir nú við einn heitasta bakvörð landsins, Hörð Axel Vilhjálmsson. Hörður hefur verið frábær í vetur en það fer ekkert á milli mála að í þessari leikstjórnendarimmu hefur Ivey reynsluna og titlana á bakinu. Svona væri hægt að halda áfram að bera saman liðin og leikmenn en akkúrat í dag virðast langflestir ,,spámenn“ aðeins sjá Keflavík sem mögulegan sigurvegara.
 
Hvað verður í kvöld skal ósagt látið og vel má vera að spámenn dagsins í dag hafi sagt allt kórrétt og það standi heima í kvöld. Ég kýs frekar að stíga varlega til jarðar þegar maður ræðir þetta úrslitaeinvígi sem hefur verið ein rússíbanareið frá upphafi til enda og minni á að í kvöld verður það viljinn sem ræður för.
 
Jón Björn Ólafsson
Ritstjóri Karfan.is
Fréttir
- Auglýsing -