spot_img

Áfram í Dalhúsum

Sigvaldi Eggertsson hefur framlengt samningi sínum við og mun áfram leika með Fjölni í fyrstu deild karla.

Sigvaldi var lykilmaður í liðinu á síðasta tímabili, með að meðaltali 21 stig og 8 fráköst í leik.  Hann var fyrir vikið valinn í úrvalslið 1. deildar karla á lokahófi KKÍ í vor, ásamt því að vera valinn mikilvægasti leikmaður Fjölnis á lokahófi deildarinnar í maí.

Sigvaldi hefur áður leikið fyrir Hauka og ÍR í Bónusdeildinni.  Einnig lék hann á Spáni árið 2018, eftir að hafa spilað með Fjölni tímabilið 2017-2018, þar sem hann var kjörinn besti ungi leikmaður 1. deildar karla eftir tímabilið. Hann hefur líka verið lykilmaður í öllum yngri landsliðum Íslands.

Sigvaldi sagði við undirskriftina að hann væri spenntur fyrir að halda áfram með Fjölni: „Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum fyrir félagið og leiða liðið í baráttunni um sæti í efstu deild.  Við teljum okkur eiga óklárað verkefni sem við stefnum á að skila inn eftir tímabilið.“

Baldur Már Stefánsson, þjálfari liðsins, sagði að hann væri gríðarlega ánægður með að Sigvaldi tæki aftur slaginn með liðinu: „Hann var algjörlega frábær í fyrra og einn allra besti leikmaður deildarinnar.  Hann spilar risastórt hlutverk fyrir liðið sem ætlar að gera aðra atlögu að því að komast upp í úrvalsdeild.“

Fréttir
- Auglýsing -