Stjörnumenn geta næsta fimmtudag tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn þegar þeir taka á móti Grindavík í Ásgarði í fjórða úrslitaleik liðanna í Domino´s deild karla. Liðin mættust í Röstinni í kvöld þar sem Stjarnan fór með 89-101 sigur af hólmi. Jovan Zdravevski sem varð 33 ára í dag fagnaði afmælisdeginum vel og innilega en kappinn reyndist Grindavík erfiður með 17 stig og 6 fráköst af Stjörnubekknum. Hjá Grindavík var Sammy Zeglinski með 25 stig og 7 stoðsendingar. Stjarnan leiðir því 1-2 í einvíginu og þarf einn sigur til viðbótar til þess að landa þeim stóra í fyrsta sinn í sögu félagsins.
Garðbæingar voru ferskari á upphafsmínútunum en ekki leið á löngu uns Grindvíkingar voru komnir upp að hlið þeirra eftir þrist frá Sammy Zeglinski. Aftur var Zeglinski á ferðinni þegar hann kom Grindavík í 23-12 með þrist en þá tók Teitur leikhlé fyrir Stjörnuna og hvíslaði einhverju sniðugu að þeim því Stjarnan kom út með læti og vann síðustu þrjár mínúturnar í fyrsta leikhluta 3-12 og staðan því 26-24 fyrir Grindavík eftir fyrsta.
Annar leikhluti var líkt og sá fyrsti bæði jafn og spennandi, Jarrid Frye sagði farir sínar ekki sléttar þegar hann í tvígang fékk dæmdan á sig ruðning. Það aftraði Stjörnunni þó ekki frá því að komast yfir í 41-42 eftir að Fannar Helgason læddi sér afturfyrir Grindavíkurvörnina og skoraði snyrtilega. Jóhann Árni Ólafsson átti svo lokaorðið í fyrri hálfleik með þrist og kom Grindavík í 48-45 um leið og leikhlutinn rann út. Gulir Grindvíkingar fóru því með nokkurn meðbyr inn í hálfleikinn eftir skemmtilegan fyrri hálfleik.
Meðbyr Grindvíkinga inn í hálfleikinn breyttist strax í mótbyr í upphafi síðari hálfleiks því Stjörnumenn héldu gulum stigalausum fyrstu þrjár mínúturnar og settu á þá átta stig í röð og komust í 48-53. Sammy Zeglinski hélt Grindvíkingum við efnið með þriggja stiga körfum en á löngum kafla í þriðja leikhluta virtust menn ekki mega heyra minnst á neitt annað en þriggja stiga skot… eða þar til afmælisbarnið Jovan Zdravevski fór að refsa á blokkinni. Bæði Þorleifur Ólafsson og Davíð Ingi Bustion lentu í basli með Jovan sem kunni vel við sig með bakið í körfuna og skoraði 17 stig og tók 6 fráköst fyrir Stjörnuna komandi af bekknum í kvöld.
Grindavíkurvörnin gaf eftir og Garðbæingar náðu forystunni fyrir fjórða leikhluta og leiddu 72-74 en þeir settu 29 stig á Grindvíkinga í þriðja leikhluta.
Jafnt var á öllum tölum í fjórða leikhluta en þegar hann var um það bil hálfnaður mættu þeir félagar Justin Shouse og Brian Mills með tilþrif leiksins. Glæsileg „alley-up“ sending frá Shouse frá miðjum vellinum sem Mills greip hátt ofan við hring og tróð með látum! Við þessi glæsitilþrif varð staðan 78-85 fyrir Stjörnuna og munurinn átti bara eftir að aukast. Skipti þá litlu að Jovan varð frá að hverfa með fimm villur, Stjarnan var kominn með þennan í „wise-grip.“
Lokatölur reyndust svo 89-101 Stjörnuna í vil þar sem Brian Mills var með 25 stig og 10 fráköst, Justin Shouse bætti við 20 stigum og 12 stoðsendingum og þeir Jarrid Frye og Jovan afmælisbarn Zdravevski gerðu báðir 17 stig og Marvin Valdimarsson 14. Hjá Grindavík var Sammy Zeglinski með 25 stig og 7 stoðsendingar, Aaron Broussard gerði 22 stig og tók 14 fráköst og Jóhann Árni Ólafsson gerði 17 stig. Jóhann komst upp með ansi magnaðan hlut í kvöld, að sparka boltanum upp í stúku og það sem er enn magnaðra er að hann fékk ekki dæmt á sig tæknivíti fyrir vikið en þetta á vitaskuld ekki að líðast.
Á fimmtudag fer svo fram fjórði úrslitaleikur liðanna. Leikið er í Ásgarði í Garðbæ þar sem Stjarnan getur orðið Íslandsmeistari en Grindavík getur tryggt sér oddaleik með sigri á fimmtudag, oddaleikurinn færi þá fram í Röstinni í Grindavík.