spot_img
HomeSubway deildinSubway deild karlaAf oddaleikjum í úrslitum - gestirnir hætta að hitta þriggja stiga skotum

Af oddaleikjum í úrslitum – gestirnir hætta að hitta þriggja stiga skotum

Valur og Tindastóll munu mætast í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn þar sem staðan í einvíginu er 2-2 og vinna þarf þrjá leiki til að fara alla leið. Leikir sem skera úr um hvort liðið vinnur viðureign í úrslitakeppninni eru eins og flestir vita kallaðir oddaleikir. Þessir oddaleikir eru heldur fátíðir í úrslitaviðureignum þar sem titillinn sem allir vilja er báðum liðum innan seilingar.

Alls hafa tólf oddaleikir verið leiknir frá upphafi úrslitakeppninnar árið 1984 eins og Jón Björn Ólafsson fyrrum ritstjóri Karfan.is tók saman í tísti í gær. Meðalstigamunurinn í þessum tólf er 13,2 stig svo það er viðbúið að leikurinn í kvöld verði ekki jafn.

Frá því fimm leikja úrslitaviðureignir voru settar á árið 1990 þar sem vinna þurfti þrjá leiki til að klára dæmið – en fram að því þurfti aðeins að vinna tvo – hafa verið leiknir níu oddaleikir.

Í þeim leikjum er meðalstigamunurinn orðinn 14,9 stig en 12,4 stig í öllum leikjum þessa sömu úrslitakeppna fram að úrslitaviðureignunum. Munurinn á milli úrslitakeppninnar og oddaleikjanna er að finna á fleiri tölfræðiþáttum. Þriggja stiga nýting dregst saman, villum fækkar um næstum heila villu, töpuðum boltum fækkar, vítaskotum fækkar um rúmlega fjögur og nýtingin dregst einnig saman. Stigaskor verður minna en stigamunurinn verður meiri eins og áður kom fram.

Munurinn á heimaliðinu á móti gestaliðinu er einnig umtalsverður. Heimaliðið hefur unnið sjö af þessum níu leikjum með 82,3 stigum á móti 75,7 stigum gestanna. Heimaliðið fær á sig fleiri villur en tapar færri boltum. Heimaliðið tekur færri þriggja stiga skot en hittir betur úr þeim eða 37,3% á móti 28,4% hjá gestunum. Samanlögð þriggja stiga nýting þessarra liða sem hafa verið gestir í umræddum oddaleikjum, var 34,4% þar til að oddaleiknum sjálfum kom. Vítanýting heimaliðs er hins vegar sögulega slök eða 57,0% á móti 73,9% gestanna, en þeir taka iðulega fleiri vítaskot.

Stigaskor eftir fjórðungum segir okkur það að þessi leikir klárist að jafnaði í öðrum leikhluta en þá skorar heimaliðið að meðaltali 22 stig á móti 16 gestanna. Aðrir leikhlutar eru nokkuð jafnir. Þessi tölfræði er aðeins fáanleg frá og með 2000-2001 leiktíðinni.

Valur hefur áður gert atlögu að Íslandsmeistaratitilinum í oddaleik sem ekki bara árangur – en þá var Pavel Ermolinskij aðeins 5 ára. Tindastóll hefur hins vegar aldrei spilað oddaleik í úrslitum. Hvað svo sem gerist í kvöld er ómögulegt að segja þrátt fyrir að sagan bendi í ákveðna átt. Staðan er 0-0 þegar leikur hefst – hvernig sem á það er litið – og hafa þessi lið sýnt í þessari úrslitaviðureign að þau eru bæði til alls líkleg.

Fréttir
- Auglýsing -