spot_img
HomeFréttirAf hverju er alltaf dæmt á unga leikmanninn?

Af hverju er alltaf dæmt á unga leikmanninn?

Kristinn Óskarsson fjallar um dómgæslu
Ég vil byrja á að þakka fyrir einstaklega jákvæð viðbrögð við fyrri pistlum mínum hérna á karfan.is. Í síðustu viku fjallaði ég um hagnaðarregluna en í þessar viku langar mig að velta fyrir mér gildi reynslu, bæði hjá leikmönnum og dómurum.
 
Þegar ég hóf að dæma í efstu deild karla fyrir 20 árum var staðan ekki svo ólík því sem nú er. Erlendir leikmenn voru þá bannaðir og íslenskir leikmenn því allsráðandi. Íslenskir leikmenn eru í dag í forgrunni og ungir leikmenn fá fyrr og fleiri tækifæri en áður. Í dag er það meira að segja svo að menn sem setið hafa á bekknum jafnvel í áraraðir eru farnir að leika nokkuð stór hlutverk. Einhverjir segja eflaust að þetta sé skýrt dæmi um að deildin sé veikari en áður, en ég sé í þessu mikil tækifæri. Það sem er þó klárlega mjög ólíkt er að fyrir 20 árum voru nýju dómararnir sérlega ungir.
 
Reynsluminni dómararnir í efstu deild karla eru núna ca 10 árum eldri en fyrir 20 árum , en umfjöllun um þessa hluti bíða seinni tíma. Í ár er sem sagt, mun meira af ungum leikmönnum að spila en áður. Ég sem gamall íþróttakennari, barna- og unglingaþjálfari og faðir unglings, hef mjög gaman af þessu. Ég hef alltaf treyst ungu fólki og met mikils þá sem gefa ungu fólki tækifæri. En fá ungu leikmennirnir sömu meðferð og hinir eldri?
 
Hver kannast ekki við hugtakið „rookie foul“ ? Ég hef velt þessu fyrir mér og hef komist að í
hugtakinu felast tvær merkingar. Sú fyrri að dómurum finnist auðveldara að dæma á
nýliðana fremur en þá eldri og noti þá gjarnan sem skálkaskjól í erfiðum aðstæðum. Hin
merkingin er að nýliðar falli í gildrur og brjóti „klaufalega“ af sér, eitthvað sem eldri leikmenn
hafa gengið í gegnum og gera ekki lengur.
 
Nú hugsa einhverjir, „dómarar viðurkenna aldrei neitt!“ og kanski er eitthvað til í því. Ég ætlaði hins vegar að segja að rookie-foul er eflaust einhver blanda af báðum merkingum. Dómarar eru misreyndir en allir eru þeir mannlegir. Það getur verið þægilegt að taka ákvörðun sem maður geriri sér grein fyrir að verður minna mótmælt en ella. Á það bæði við um unga leikmenn, stjörnur og ýmsar aðstæður. Nánast allan minn feril var Teitur hetjan. Ég hafði sérstaka unun af því að dæma hjá honum. 
 
Ég hef í seinni tíð velt því fyrir mér af hverju? Það var ekki af því að það væri auðvelt fyrir mig að dæma hjá honum og Njarðvík, það var ekki fyrir það að ég væri í sérstökum tengslum við hann, eða að mér líkaði sérlega vel eða illa við hann sem persónu. Niðurstaða mín er að ég virti hann fyrir getu sína, keppnisskap og persónuleika. Getur verið að virðing mín fyrir honum hafi haft áhrif á dómgæslu mína gagnvart honum? Það verða auðvitað aðrir að dæma um, en lærdómurinn er að vera meðvitaður um að dómarar þurfa að hunsa tilfinningar og leggja kalt mat á hverja stöðu fyrir sig. Ég tel að reyndari dómarar eigi auðveldara með þetta en þeir sem eru reynsluminni.
 
Getur verið að reynslumeiri leikmenn hafi breytt leikstíl sínum og séu útsjónasamari? Getur verið að reynslumeiri leikmenn nái að fela brot sín fyrir dómaranum. Getur verið að reynslumeiri leikmenn þekki inná hvern og einn dómara og viti hvað má hvenær og hjá hverjum? Getur verið að reynslumeiri leikmenn setji meira á svið en dómarar og reynsluminni leikmenn gera sér grein fyrir? Hvað gerir reynslumikill leikmaður þegar ungur nýliði gætir hans? Ég tel mig vita svörin en skil spurningarnar eftir fyrir ykkur lesendur góðir. Það er eflaust til að dómarar dæmi frekar á ungu leikmennina. Ég trúi því hins vegar að oftar en ekki brjóti ungu leikmennirnir frekar reglurnar sökum ákafa og reynsluleysis. Eflaust eiga báðar skýringar við, því dómararnir eru mannlegir eftir allt.
 
Samanekt:
Það eru fleiri ungir leikmenn í deildinni en áður Reyndari leikmenn eru klókari en þeir óreyndu. Dómarar þurfa að vera meðvitaðir um tilfinningar sínar og halda þeim utanvið ákvarðanatöku.
Kær kveðja,
Kristinn Óskarsson, alþjóðlegur körfuknattleiksdómari
Fréttir
- Auglýsing -