spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÆgir með Skagafjörðinn í rassvasanum!

Ægir með Skagafjörðinn í rassvasanum!

Deildarmeistarar Tindastóls voru ljónheppnir í fyrsta leik úrslitanna gegn Stjörnupiltum á fimmtudagskvöldið síðastliðið. Stjarnan sýndi sjálfri sér og sínu stuðningsfólki að liðið á í fullu tré við norðanmenn og plan kvöldsins augljóslega að jafna seríuna í 1-1. Hvernig mun þetta þróast í kvöld, Kúla góð?

Kúlan: ,,Við fáum speglaðan leik frá fyrsta leik! Gestirnir munu leiða á löngum köflum en heimamenn munu fella Stólana með Silfurskeiðinni undir lokin. Niðurstaðan 89-85 Stjörnusigur“.

Byrjunarlið

Stjarnan: Ægir, Hilmar Smári, Febres, Orri, Rombley

Tindastóll: Basile, Arnar, Giannis, Sadio Doucoure, Drungilas 

Gangur leiksins

Það þarf varla að taka það fram en stemmningin í húsinu var kengbiluð og spennustigið í jöfnu hlutfalli við það. Mögulega skýrði það slaka skotnýtingu beggja liða í byrjun, ekki síst hjá heimamönnum en á móti spiluðu gestirnir einfaldlega mjög illa og töpuðu 7 boltum í leikhlutanum. Að fyrsta leikhluta loknum stóðu leikar 20-15.

Áfram reyndist það liðunum torvelt að setja stig á töfluna í öðrum leikhluta. Helstu fréttir voru þær að Dimitrios Agravanis fékk snemma sína þriðju villu og settist á bekkinn (meira um hann síðar!). Um miðjan leikhlutann virtust taugar heimamanna aðeins róast og Hilmar Smári sökkti þristi og kom Stjörnupiltum 10 yfir, 30-20. Arnar og Basile svöruðu fyrir gestina með tveimur þristum á örskammri stund, 30-26 og aftur allt í járnum. Í hálfleik höfðu heimamenn komið niður 35 stigum á móti 34 stigum gestanna. Segja má að Tindastóll mátti prísa sig sælan að Stjarnan skaut 16% í þristum í fyrri hálfleik, mörg hver skotanna galopin. Eitthvað um 15 stiga forskot Stjörnunnar hefði ekkert verið óeðlileg staða miðað við vægast sagt dapra spilamennsku norðanmanna fram til þessa í leiknum. 

Líkt og í síðasta leik hirtu Stjörnumenn mun fleiri sóknarfráköst en Stólarnir og Ægir sökkti galopnum þristi eftir eitt slíkt í byrjun seinni hálfleiks. Ægir var aftur á ferðinni nokkru síðar með annan þrist og múrinn góði reis aftur í stöðunni 49-38. Ægir var algerlega sturlaður í leikhlutanum og heimamenn bættu í forskotið og fóru inn í fjórða leikhlutann með ágætis púða í stöðunni 61-48. Það var ekki góð ára yfir gestunum og fátt sem benti til endurkomu þeirra að þessu sinni.

Ægir setti fyrstu stig Stjörnunnar með þristi í lokaleikhlutanum og enn syrti í álinn fyrir Stóla. Þristurinn var hins vegar bara byrjunin á ógæfu gestanna, þegar rétt rúmar 8 mínútur lifðu leiks misstu grísku undrin, Agravanis-bræður, gersamlega hausinn. Undirritaður ætlar ekki að rekja málsatvik í þaula en dómarar leiksins sáu a.m.k. ástæðu til að raða tæknivillum á bræðurna og Dimitrios var sendur í snemmbúna sturtu. Giannis fór á bekkinn með fjórar villur þar að auki. Ægir raðaði niður einhverjum 6 vítum, Stjarnan fékk boltann aftur, Ægir skoraði með gegnumbroti af harðfylgi og fékk víti í kaupbæti og nýtti það að sjálfsögðu! 9 stig í röð hjá Ægi og staðan fór úr 66-53 í 75-53! Það er óhætt að segja að Stjörnumenn litu aldrei til baka eftir þetta og leik þannig séð lokið. Mikið fjör og mikið stuð hjá stuðningsmönnum Stjörnunnar, eðlilega, en fyrir alla aðra var leik þannig séð lokið. Lokatölur 103-74, risasigur Garðbæinga niðurstaðan og 1-1 í seríunni!

Menn leiksins

Ægir Þór Steinarsson hefur átt marga frábæra leiki fyrir Stjörnuna í gegnum tíðina en þessi hlýtur að vera mjög ofarlega á blaði! Gaurinn setti 37 stig, tók 7 fráköst og gaf 7 stoðsendingar! Þvílíkur maður! Eins og svo oft áður skiluðu aðrir leikmenn liðsins sínu í kvöld.

Doucoure var skástur gestanna með 18 stig og 7 fráköst.

Kjarninn

Á Stjarnan séns í Stólana? Uuu, já! Garðbæingar, með Ægi í broddi fylkingar, gersamlega slátruðu norðanmönnum í kvöld. Í fyrsta leiknum á Króknum var Stjarnan hársbreidd frá sigri. Þetta hlýtur að gefa liðinu extra mikla trú á verkefnið. Þar að auki kemur hinn reynslumikli meistari Hlynur Bærings eins og kóngur inn af bekknum og hjálpar liðinu á allan hátt. Verður Stjarnan Íslandsmeistari í fyrsta sinn þetta tímabilið??

Frammistaða Stólanna var eiginlega bara til skammar í kvöld. Grísku bræðurnir misstu gersamlega hausinn og í raun réðust úrslitin nákvæmlega á þeim tímapunkti. Dimitrios hjálpaði liðinu nákvæmlega ekki neitt í kvöld og undirritaður leggur til að senda manninn bara heim ekki seinna en strax. Bræðurnir virðast ekki hafa góð áhrif hvor á annan inn á vellinum. Vissulega er hægt að benda á einhverja dóma sem féllu gegn gestunum í kvöld en ef það eru einhverjir sem eiga að höndla slíkt þá eru það einmitt atvinnumennirnir í liðinu.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -