,,Það þarf ekki mikið að gerast, fyrstu fjögur sætin fá heimavallarrétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar,” sagði Ægir Þór Steinarsson aðspurður að því hvað þurfi að koma til hjá Newberry háskólanum til að komast í 64 liða úrslitin í 2. deild bandaríska háskólaboltans. Ægir leikur eins og kunnugt er með Newberry háskólanum og er þar á sínu öðru ári. Karfan.is náði í broddinn á ,,Geitungnum” og tók stuttan púls á kappanum sem segir leikstíl skólans nokkuð einstakan.
Áfram að stöðu liðsins sem leikur í South Atlantic riðlinum sem virðist vera óútreiknanlegur um þessar mundir. ,,Síðustu tvö sætin í riðlinum komast ekki í úrslitakeppnina í riðlinum. Markmið okkar er að fá heimaleik í fyrstu umferð, vinna undanúrslit og úrslitaleik og komast þannig í ,,NCAA Tournament” sem er 64 liða úrslit 2. deildar,” sagði Ægir en það er sama fyrirkomulag og í 1. deild þar sem flestir t.d. þekkja hið fræga ,,March Madness.”
,,Þetta eru alltaf þrír leikir sem þú þarft að vinna í röð nema liðin séu ,,rönkuð” og komast sjálfkrafa í úrslitakeppnina. Möguleiki okkar á því að komast áfram er góður. Deildin er reyndar einkennileg, botnlið að slátra toppliðum og öfugt svo aðstæðurnar eru skemmtilegar,” sagði Ægir en er hann að vaxa sem leikmaður?
,,Já algjörlega, maður er hinsvegar í svolítið öðruvísi hlutverki í þessum bolta sem við spilum. Þetta hlutverk sem ég er í er kannski ekki gert fyrir ,,statt-perra.” En með sex aðstoðarþjálfara sem taka þig í einkaþjálfun og myndbandsfundi er það sem er vel til þess fallið að gera mann tilbúinn fyrir næsta skref í boltanum. Ég skora svo á nátthrafna að kíkja á leiki með Newberry og sjá okkar einstaka leikstíl,” sagði Ægir en hér er heimasíða skólans.
Við vildum hinsvegar forvitnast pínulítið meira um þeannan einstaka leikstíl sem Ægir nefndi: ,,Þjálfarinn okkar hefur þróað þennan sérhannað sóknarleik í fyrir 30 ár. Við erum t.d. með brjálaðar pressur með ,,tröppum” og planið að gera hitt liðið svo þreytt að það brotnar niður,” sagði Ægir. En við slepptum honum ekkert út í daginn í Bandaríkjunum án þess að tippa á sigurvegara í bikarúrslitunum 16. febrúar næstkomandi:
,,Í kvennaflokki er þetta öruggur sigur Keflavíkur en Stjarnan vinnur karla leikinn en jafnt verður það maður.”
Mynd úr safni/ Ægir Þór á góðri stundu með Fjölni



