spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaÆfingaleikur: Stjarnan vann Tindastól - Bæði lið vantar leikmenn

Æfingaleikur: Stjarnan vann Tindastól – Bæði lið vantar leikmenn

Tindastóll heimsótti gamla lið nýjasta meðlims þeirra, Nick Tomsick, í Ásgarði í Garðabænum í kvöld. Gestirnir að norðan höfðu ekki erindi sem erfiði, enda spiluðu þeir á fáum leikmönnum í kvöld. Heimamenn unnu að lokum öruggan 89-80 sigur. Bæði lið virðast vera að bíða eftir leikmönnum sínum, en hvorugt liðanna notaði erlenda leikmanna ígildið sitt, þ.e.a.s. fyrir leikmann utan evrópska efnahagssvæðisins.

Stjarnan byrjaði leikinn miklu betur og hafði skorað átta stig áður en Tindastólsmenn hristu af sér slenið og minnkuðu muninn. Um miðbik fyrsta leikhlutans voru liðin jöfn að stigum og hófu að skiptast á forystunni.

Pétur Rúnar og nýr litháenskur leikmaður Tindastóls, Antanas Udras, voru fljótir að krækja sér í sitthvorar tvær villurnar og liðið var ekki mikið að rúlla á mannskapnum, enda með heldur þunnan bekk. Baldur Þór, þjálfari Tindastóls, spilaði aðeins á 8 leikmönnum og af þeim var ungur leikmaður sem spilaði fáar mínútur og síðan meiddist Antanas Udras í fyrri hálfleik. Hann meiddist á ökklanum um miðbik annars leikhlutans og spilaði ekkert meira í leiknum. Hann hafði þá skorað aðeins 4 stig en tekið tæplega 10 fráköst. Alexander Lindqvist og Mirza Sarajlija hjá Stjörnunni litu ágætlega út sóknarlega og sýndu góða varnartakta eftir því sem að leið á leikinn.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn og endaði 54-48 fyrir Stjörnunni. Í byrjun seinni hálfleiks sprengdu Stjörnumenn leikinn upp með góðu áhlaupi fyrstu tvær mínúturnar og juku forystuna í tólf stig. Eftir það gátu Tindastólsmenn ekki minnkað muninn nema í 8 stig hér og þar seinustu 18 mínúturnar. Að lokum urðu þeir að sætta sig við 9 stiga tap.

Stjörnumenn voru heldur æstir í leiknum, en þeir fengu aragrúa af tæknivillum og áttu erfitt með að hemja sig gagnvart dómurunum.

Stigahæstur í liði Stjörnunnar var Ægir Þór Steinarsson, sem var flottur á báðum endum vallarins, stýrandi sóknarleiknum og mjög kræfur í vörninni. Hann lauk leik með 18 stig. Í liði Tindastóls var Nick Tomsick stigahæstur með 26 stig. Nick hitti ekkert sérstaklega vel í leiknum en bættu upp fyrir það með því að komast reglulega á vítalínuna og skora mikið af stigum þaðan. Hann tók 16 vítaskot í leiknum og setti 14 þeirra niður.

Fréttir
- Auglýsing -