spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaÆfingaleikur: Hrunamenn höfðu betur gegn Fjölni á Flúðum

Æfingaleikur: Hrunamenn höfðu betur gegn Fjölni á Flúðum

Í kvöld léku Hrunamenn og Fjölnir æfingaleik í karlaflokki á Flúðum. Heimamenn hófu leikinn af krafti og komust strax í 10-0. Í upphafi bar mest á erlendu leikmönnunum þremur í liði Hrunamanna. Það var ekki fyrr en í 2. leikhluta í stöðunni 25-19 að Hrunamaðurinn Halldór Fjalar Helgason skoraði fyrstu „íslensku“ stig liðsins. Eyþór Orri Árnason og Orri Ellertsson byrjuðu leikinn fyrir Hrunamenn.

Halldór Karl Þórisson þjálfari Fjölnis var ekki með liði sínu og einhverja leikmenn vantaði í lið þeirra. Liðið hafði engu að síður þjálfara til þess að stýra liðinu. Sá tók fyrst leikhlé í stöðunni 23-18 og aftur í stöðunni 40-26 og þá kom stutt áhlaup sem skilaði árangri. Árni Þór tók þá leikhlé fyrir Hrunamenn og liðið jók aftur forskotið. Staðan 50-37 í hálfleik og Hrunamenn betra liðið.

Síðari hálfleikurinn var jafnari. Það dróg aðeins saman með liðunum í 3. leikhluta og fyrir síðustu sókn Hrunamanna munaði aðeins 3 stigum á liðunum. Í þeirri sókn skoraði Karlo Lebo þriggja stiga körfu og í sókninni á eftir tókst Fjölnismönnum ekki að skora. Lokatölur 100-94 fyrir heimamenn á Flúðum.

Í báðum liðum fengu ungir menn tækifæri. Karl Ísak sem er ekki nema 16 ára spilaði mikið í Fjölnisliðnu og fékk leyfi til að skjóta þristum eins og hann vildi. Hann hitti þremur þeirra í körfuna en mörg skotin geiguðu. Ísak Örn sem kom í sumar í lið Fjölnis frá Snæfelli, þar sem hann hefur þrátt fyrir ungan aldur verið í lykilhlutverki síðustu 2 árin, lék líka mikið. Það sama má segja um jafnaldra hans Eyþór Orra og Aron Erni í liði Hrunamanna. Þeir fengu mikla ábyrgð og stóðu sig ágætlega. Orri Ellertsson lék vel á köflum, átti nokkrar glæsilegar sendingar og var áræðinn með boltann. Nýr leikmaður í liði heimamanna, Ísak, sem einhverjir þekkja sem rapparann Lukku-Láka, fékk nokkrar mínútur og komst ágætlega frá þeim. Neðrideildakóngurinn Bjarna Bjarnason kom inn á í stutta stund en náði ekki að láta að sér kveða.

Bandaríkjamennirnir í liðunum voru bestu menn vallarins. CJ í hjá Fjölni skoraði 36 stig og Corey Taite 28 fyrir Hrunamenn. Perkovic og Lebo skoruðu 23 hvor fyrir Hrunamenn og Andreus 21 fyrir Fjölni.

Myndasafn

Umfjöllun, myndir / Karl Hallgrímsson

Fréttir
- Auglýsing -