spot_img
HomeFréttirÆfingaleikur: 10 stiga Stólasigur gegn nýliðum Hattar

Æfingaleikur: 10 stiga Stólasigur gegn nýliðum Hattar

Tindastóll og Höttur mættust í æfingaleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Úr varð hörkuleikur sem heimamenn unnu þrátt fyrir erfiða byrjun.

Hattarmenn mættu mjög ákveðnir til leiks í kvöld og virtust slá heimamenn útaf laginu í byrjun með hörkuvörn og fínni hittni. Erfiðlega gekk hjá heimamönnum að ráða við Sigga Þorsteins undir körfunni og fráköstin voru gestanna nánast að vild. Höttur leiddi 17-25 eftir fyrsta fjórðung og áhorfendur í Síkinu ekki glaðir með gang mála. Stólarnir hristu sig í gang í öðrum leikhluta, vörnin small betur saman og sóknarleikurinn fór að virka. Munurinn minnkaði jafnt og þétt og Tomsick jafnaði þegar tæpar 3 mínútur voru til hálfleiks. Stólarnir bættu svo bara í og leiddu 42-39 í hálfleik.

Eftir þennan viðsnúning voru heimamenn með örugg tök á leiknum, juku muninn jafnt og þétt og komust mest 16 stigum yfir. Gestirnir gerðu nokkur áhlaup en gekk ekkert að rjúfa 10 stiga muninn, þegar færi gafst þá misstu þeir boltann, oft klaufalega. Tindastóll hélt Hetti nokkuð örugglega frá sér út leikinn og landaði 10 stiga sigri 87-77.

Viðar átti fína innkomu af bekknum, setti 9 stig og lék frábæra vörn eins og venjulega liggur við að segja. Tomsick var frábær og Shawn Glover er að komast betur og betur inn í sinn leik og endaði með 20 stig og 8 fráköst. Hjá gestunum var Dino bestur og Brynjar átti flottan leik með 100% skotnýtingu þar af geggjaðan and1 þrist í öðrum leikhluta. Leikstjórnandi Hattar átti hinsvegar afleitan dag á skrifstofunni, hitti aðeins úr einu skoti utan af velli (af 14) en bætti það þó aðeins upp með 9 stoðsendingum.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -