spot_img
HomeFréttirAðsent: Tel mig hafa rétt til að gagnrýna þegar svo ber undir

Aðsent: Tel mig hafa rétt til að gagnrýna þegar svo ber undir

Í gær fór fram leikur ÍR og Snæfells í Dominosdeild karla í körfuknattleik. Tveir afar áberandi þættir voru að blasa við öllum þeim sem í Hellinum voru og urðu vitni af þessum leik.  
 
A) Leikmenn Snæfellsliðsins báru höfuð og herðar yfir andstæðinga sína og sigruðu verðskuldað.
B) Dómgæslan í leiknum var á lágu plani, var vægast sagt skelfileg. Samræmið í dómgæslunni var ekkert, dómarar leiksins voru illa upp lagðir og dæmdu tæknivillur í gríð og erg af litlu sem engu tilefni. Það fullyrði ég.

Samskipti mín við meirihluta dómara hafa yfir höfuð verið góð þau tímabil sem ég hef þjálfað (eða aðstoðarþjálfari) í efstu deild. Ég hef hrósað dómurum bæði eftir sigur og tapleiki enda veit ég að allir eru að reyna að gera sitt besta – einnig hef eg gagnrýnt og rökrætt ýmis atriði við menn eftir leiki. Í vor í úrslitakeppninni hrósaði ég dómgæslu í oddaleik sem ég tók þátt í sagði mönnum þar hreint út að þetta væri með bestu dómgæslu sem ég hefði upplifað. Þá tel ég mig einnig hafa rétt á því að gagnrýna þegar svo ber undir. Eftir framistöðu þeirra sem dæmdu leikinn í gær þá get ég ekki setið á mér enda var framistaðan þeirra á pari við okkar framistöðu (ÍR). Það sauð á mér vegna framistöðu okkar, hún var döpur.

Það sauð einnig á mér vegna dómgæslunnar, meira að segja þá var þjálfari sigurliðsins afar ósáttur. Vegna þessa þá finnst mér þessi umræða eiga rétt á sér á opinberum vettvangi okkar körfuknattleiksmanna, karfan.is.
 
 
Nú er ég þjálfari ÍR, það mætti skilja í fyrstu að þarna væri verið að kenna dómurum um ófarir okkar en svo er nú aldeilis ekki. Við töpuðum leiknum vegna þess að við vorum skítlélegir, lið Snæfells var mikið mun betra og eiga hrós skilið fyrir flotta framistöðu. Dómgæslan hafði engin áhrif á úrslit leiksins það er kristaltært. Hinsvegar áttu þessir 3 ágætu herramenn sem þarna mættu til þess að dæma afar, afar slakan dag, voru eins og fyrr segir bara á pari við mitt lið ef svo má segja. Við gerðum uppá bak enda sér það hver heilvita maður, við töpum leiknum með 33 stigum á heimavelli.

Þjálfari liðsins og leikmenn bera ábyrgð á því og þurfa að axla ábyrgðina. Leikmaður sem spilar illa stendur frammi fyrir því að minnka í mínútufjölda eða þá jafnvel missa sæti sitt í liðinu. Þjálfarinn þarf að bera ábyrgð á gengi liðsins og á þá jafnvel hættu á að missa starfið sitt. Þannig virkar þessi bransi. Hinsvegar er mín spurning, hvað með aðhald og ábyrgð dómara? Nú var það álit bæði blaðamanns morgunblaðsins, karfan.is, þjálfara beggja liða og yfirgnæfandi meirihluta áhofenda að dómgæslan hafi verið arfaslök. Hvaða áhrif hefur það á viðkomandi dómara? Jú, tveir þeirra þriggja sem dæmdu eru settir á leik í kvöld í Dominosdeild karla. (skv kki.is) Ég spyr því dómaranefnd, eru það rétt skilaboð? Verða þessir ágætu dómarar betri í sínu fagi, eru skilaboðin til þeirra rétt?

 
 
Tek það skýrt fram að ég hef ekkert persónulega á móti þessum ágætu mönnum, ekki frekar en ég hafi eitthvað persónulegt gegn leikmönnum mínum sem ég hellti mér yfir eftir leik. Það verður hinsvegar að vera aðhald og ábyrgð fyrir dómara, rétt eins og fyrir leikmenn og þjálfara liða.
 
Okkar refsing eftir þennan leik var auðvitað framistaðan auk þess að við fengum ekki tvö stig og staða okkar í deild versnar. Vonandi að menn taki þessu ekki illa, ég vil bara varpa þessum bolta fram. Dómarar þessa leiks hafa áður dæmt hjá mér (reyndar ekki allir saman) og átt fínar frammistöður og aðrar verri eins og gengur og gerist. Ég get alveg verið maður og viðurkennt þegar ég og mitt lið stendur sig illa, það er ekkert tiltökumál enda eigum við misjafna daga.
 
 
Ástæðan fyrir þessum skrifum mínum er sú að ég vil gjarnan fá útskýringar um aðhald dómara. Hvað segir dómaranefnd?
 
 
Virðingarfyllst,
 
Örvar Þór Kristjánsson
Þjálfari IR
 

  
Fréttir
- Auglýsing -