spot_img
HomeFréttirAðsent: Sagan endalausa um erlenda leikmenn

Aðsent: Sagan endalausa um erlenda leikmenn

Í frétt á karfan.is í morgun þar sem þjálfari mfl. Kvenna hjá KR er í viðtali er komið inn á málefni erlendra leikmanna í íslenskum körfubolta. Þar segir þjálfarinn að íslenskur körfubolti þarf að taka ákvörðun um framtíðarskipulag þessara mála. Þar kemur sagan endalausa aftur uppá borðið.
Ekki veit ég hver skoðun hans er almennt á þessu, en er nokkuð viss um að í gær var hann ekki fylgjandi því að leyfa marga erlenda leikmenn í liðum hér. Gæti verið að ástæðan sé sú að hans lið er bara með einn erlendan leikmann, og meðal annars þess vegna komst það ekki í úrslit. Ég segi meðal annars vegna þess að KR ingar hafa verið mjög óheppnir með meiðsli hjá kvennaliði sínu í vetur og það spilar auðvitað stærsta þáttinn í þessari útkomu. Nú þarf ekki að fara langt í vesturbænum til að sjá að stjórn KR er almennt ekki á móti því að hafa erlenda leikmenn því þrír slíkir eru á mála hjá karlaliði félagsins.
 
Þetta fékk mig til að blanda mér í þessa sögu og koma fram minni skoðun. Þetta er alls ekki í fyrsta skipti sem upp kemur þessi umræða í Íslenskum körfubolta, og örugglega ekki það síðasta. En mér finnst hún þó ávallt ágerast eftir því sem stærri liðin á SV-horninu eiga erfiðara með að fjármagna sig eins og raunin virðist vera síðustu ár. Það er ekki að heyra að þeir sem vilja takmarka og jafnvel banna erlenda leikmenn séu að hugsa mikið upp fyrir Ártúnsbrekkuna. Það er nefnilega þannig í pottinn búið hjá okkur sem erum að halda úti starfi á landsbyggðinni að erlendir leikmenn eru forsenda þess að geta teflt fram samkeppnishæfum liðum í efstu og næst efstu deildum boltans. Ekki að það þurfi að útskýra það mikið hvers vegna þeir eru svo mikilvægir. Ég get þó nefnt sem dæmi að þegar leikmenn eru að komast á þann aldur að geta keppt í þessum deildum þá eru þeir jafnframt að ljúka námi í menntaskóla. Það verður til þess að stór hluti af þeim flyst til höfuðborgarinnar og eða Akureyrar til að hefja háskólanám.
 
Ef menn vilja fara í eitthvað rótækt til að jafna leikinn þá er ég viss um að landsbyggðarliðin samþykkja eins og skot að settur verði á stofn jöfnunarsjóður vegna ferða og gistingar. Þá er ég ekki að tala um þann sjóð sem ríkið stendur fyrir. Hvernig væri að taka saman kostnað við ferðir og uppihald allra og deila svo í með fjölda liða. Eins er hægt að taka upp kerfi til að úthluta efnilegum og góðum leikmönnum eins og er í NBA . Þá myndu leikar nú heldur betur jafnast og landsbyggðarliðin yrðu ekki í vandræðum með að fá til sín leikmenn. Ég skal fúslega viðurkenna það að svona verður þetta aldrei, einfaldlega vegna þess að þá myndu liðin sem eru stærst í dag sennilega leggja upp laupana vegna kostnaðar. Fer ekki í það hér að tala um ferða og gistikostnað míns félags, en get nefnt það að á hverju ári kemur það fyrir að lið treysta sér ekki til Ísafjarðar ýmist vegna fjarlægðar eða kostnaðar.
 
Það er mín skoðun að félög eigi að fá að hafa sinn rekstur eins og þau treysta sér til. Ef menn eiga pening þá geta þeir fengið erlenda leikmenn og ef ekki þá nær það ekki lengra. Hvernig væri að setja t.d. reglu um að lið þurfi að skila ársreikningi áður en leikheimildir eru samþykktar. Þannig er hægt að fylgjast með því að félög séu vel rekin. Félag sem skuldar mikið á ekki að fá að ráða marga atvinnumenn á meðan það nær niður skuldum. Eins er ég á því að félagsskiptagluggar séu nauðsinlegir til að lið séu ekki að skipta um leikmenn í tíma og ótíma. Ég er hins vegar alfarið á móti boðum og bönnum sem sveiflast eftir fjárhag félaga hverju sinni.
 
Að lokum vil ég minnast á að ástæðan fyrir því að fáir Íslenskir leikmenn eru ofarlega á tölfræðilistum gæti hugsanlega verið sú að flestir okkar afburða leikmenn eru nú atvinnumenn erlendis, hvar þeim er tekið opnum örmum vegna hæfileika sinna í körfubolta, en ekki vegna þess að þeir eru erlendir leikmenn !! Þar eru þeir að raða sér ofarlega á lista yfir bestu menn.
 
Áfram Karfa.
Ingólfur Þorleifsson
Körfuboltaáhugamaður. 
Fréttir
- Auglýsing -