spot_img
HomeFréttirAðsent: Misrétti í körfubolta

Aðsent: Misrétti í körfubolta

Ég hef lengi ætlað að rita nokkur orð um þá vanvirðingu gagnvart stelpum og konum sem viðgengst í íslenskum körfubolta. Í efstu deild karla í körfubolta dæma þrír dómarar hvern einasta leik en aðeins tveir dómarar dæma leiki í efstu deild kvenna. Að mínu mati er þetta mikil óvirðing við þær konur og stelpur sem spila í efstu deild.
 
 
 
Þetta fyrirkomulag er rökstutt á þann hátt að ekki séu starfandi nægilega margir dómarar til þess að þrír dómarar geti dæmt alla leiki í bæði efstu deild karla og kvenna. Mín skoðun er sú að ef það er ekki mögulegt að viðhalda sama fyrirkomulagi í dómaramálum karl- og kvenleikmanna sé rétta leiðin ekki að mismuna kynjunum, heldur að finna leið sem er sanngjörn fyrir alla.
 
 
Einfaldasta leiðin væri að tveir dómarar dæmdu alla leiki í efstu deild karla og kvenna, þangað til dómarastéttin telur sig í stakk búna til að sjá fyrir þremur dómurum í öllum leikjum í efstu deild, hvort sem það er efsta deild karla eða kvenna.
 
 
Dómaramál eru þó ekki eina dæmið um ójöfnuð í hreyfingunni okkar því menntaðir dómar dæma leiki hjá drengjum sem eru 16 ára og eldri, en hjá stúlkum er staðreyndin sú að menntaðir dómarar dæma fyrst leiki þegar þær eru orðnar 18 ára og farnar að spila með unglingaflokki.
 
 
Ég skil að kannski eru ekki til menntaðir dómarar til þess að dæma alla leiki í bæði drengja- og stúlknaflokki en það vandamál væri hægt að leysa á einfaldan hátt. Fyrir áramót byðist öllum félögum að fá menntaða dómara á stúlknaflokksleiki, og eftir áramót gætu félög fengið menntaða dómara á drengjaflokksleiki.
 
 
Sjálfur þjálfa ég stelpur í stúlknaflokk og þær taka eftir ójafnréttinu. Er þessi munur skilaboð til stelpna sem æfa körfubolta, og leggja sig jafnt mikið fram og strákarnir? Ættu stelpurnar alltaf að vera í öðru sæti?
 
 
Kannski er ég eini femínistinn í körfuboltahreyfingunni en mér finnst alveg ljóst að þetta misrétti er ólíðandi. Þessi mál þurfa að breytast, og fyrsta skrefið í þá átt er vitundarvakning um ástandið.
 
Benóný Harðarson
  
Fréttir
- Auglýsing -