spot_img
HomeFréttirAðsent: Mikilvægt að finna lausn

Aðsent: Mikilvægt að finna lausn

Núna styttist í ársþing KKÍ og umræðan byrjar aftur um útlendingamálin. Mig langar að leggja orð í belg. Ég vil taka það fram að ég hef enga hagsmuna að gæta í þessu máli. Ég starfa ekki með neinu félagi og er ekki brennheitur stuðningsmaður neins félags, fyrir utan Ungmennafélags Reykdæla. Ég sé ekki fram á að útlendingafjöldi Domino's deildarinnar hafi áhrif á næsta þorrablót, né hvaða leiksýning verði sett upp á vegum þess ágæta ungmennafélags.

 

Nú hefur 4+1 reglan verið við lýði í tvö ár. Sem er bara gott, þar sem menn voru háværir um að láta á það reyna. Ég held að mikilvægt sé að nú finnist lausn sem mun vera fest, allavega næstu 5 árin. Ég vona innilega að farið verið frá 4+1 reglunni í ár, því hún hjálpar ekki liðum frá minni bæjarfélögum. Körfuboltinn er sú hópíþrótt sem á flest lið fyrir utan suðvesturhornið í efstu deild. Þessi regla setur félögum stólinn fyrir dyrnar. Já, ég veit að Tindastóll var í úrslitum, hinsvegar með þrjá leikmenn, sem eru ekki fæddir á Íslandi. Sýndu þeir fram á hvernig er hægt að vera með þrjá atvinnumenn, en á sama tíma gefa Íslendingum lykilhlutverk í liðinu.

Önnur landsbyggðarlið áttu erfitt í ár. Skallagrímur féll og Snæfell missti af úrslitakeppni í fyrsta sinn í allmörg ár. Þór Ak og KFÍ enduðu neðst í 1. deild. Þökkum máttarvöldum fyrir að ekkert lið hafi fallið úr 1. deild í ár, því mikill missir hefði verið ef þessi tvö félög hefðu fallið í 2. deild. Það gefur auga leið að gæði deildarinnar hafa minnkað með 4+1 reglunni.

Ekki varð það betra seinna árið þegar 4 A-landsliðsmenn héldu í víking. Þeir fóru allir í deildir þar sem þjóðerni þeirra kom ekki í veg fyrir að fá að leika körfubolta. Æfingahópar liða hafa einnig minnkað, sem gerir það að verkum að gæði á æfingum hjá einhverjum félögum hefur minnkað til muna. Það er á æfingum sem leikmenn bæta sinn leik, ekki í kappleik. Þegar gæði æfinga falla og kannski 1-2 farþegar með, þá koma menn ekki til með að bæta sig jafn mikið og þegar þeir æfa með 10 góðum leikmönnum.

Síðasti punkturinn þegar ég er að velta fyrir mér ókostum 4+1 reglunnar, hefur með ungu leikmenn landsins að gera. Flestar þjóðir eru að reyna að lengja yngriflokkaferil leikmanna. Meistaraflokksæfingar snúast oftast um undirbúning fyrir næsta leik, eða leiðréttingu á ákveðnum hlutum úr þeim síðasta. Í leikjum er ekki mikið svigrúm fyrir mistök, þar sem flestir leikir þurfa að vinnast, sama á hvaða kostnað það er. Á meðan fá leikmenn í yngriflokkum æfingar sem eru frekar sniðnar að þroskaferli hvers leikmanns. Einnig fá leikmenn fleiri tækifæri til að gera mistök í yngriflokkaleikjum.

Núna er svo komið að ársþinginu. Þar er verið að leggja fram tillögu þar sem á að meina mönnum, sem eru komnir í stór hlutverk í meistarflokki, að leika með yngri flokkum. Er þá ekki orðið frekar líklegt að við séum farnir að spila óhörnuðum unglingum of mikið í meistarflokki, vegna skorts á leikmönnum? Þegar farið var í 4+1 regluna, hafði árið áður verið 3+2 regla. Þegar 3+2 var, voru menn ósáttir við hversu mikið amerísku leikmennirnir tóku til sín. Íslendingarnir fengu ekki nóg af skotum, fráköstum og þar fram eftir götunum. Þetta er samt sú hugmynd sem flestir sem á móti 4+1 vilja fara í nú í dag.

Ég er á því að íslenska deildin væri best stödd, ef boðið væri upp á frjálst flæði bosman A og gætu lið einnig haft einn leikmann sem ekki er bosman A. Ég er á því að þarna væri hægt að mæta sem flestum sjónarmiðum. Liðin sem verða að bæta við sig 2-3 leikmönnum, til að halda úti samkeppnishæfu liði og verið með góðar liðsæfingar, geta náð sér í þá bosman A sem þeim vantar. Ekki værum við með 2 ameríkana sem myndu taka meginþorra skota og frákasta liða. Mikið er talað um að ekki sé hægt að fá bosman sem sé jafn sterkur og amerískur leikmaður nema að borga mikið meira. Er þá ekki ágætt að fá leikmann sem er ekki jafn hæfur og tekur þá ekki alla ábyrgð á sínar hendur, heldur styrkir hópinn í staðinn?

Ég held einnig að með að fá bosaman inn þá komi betra jafnvægi á leikinn heima á Íslandi. Gríðarlega fá lið spila með sannan miðherja. Í raun eru flest lið byggð upp á fjórum bakvörðum og einum hreyfanlegum framherja. Þetta gerir það að verkum að leikmenn læra ekki að spila með eða á móti stórum mönnum, sem gerir þeim erfiðar fyrir þegar haldið er út í stærri deildir. Þetta sést vel á yngrilandsliðum okkar. Yfirleitt erum við að ná í tvö efstu sætin í U16, þar sem körfuboltinn er mjög bakvarðasinnaður. Þegar kemur að eldri landsliðum lendum við oft í vandræðum, þar sem stóru leikmenn hinna landanna hafa náð meiri tökum á sínum leik. Er mér minnistætt þegar ég var með U18 (94-95 árgangi) á norðurlandamóti, við spiluðum gegn Finnlandi í úrslitum. Okkar bestu bakverðir áttu í miklum vandræðum að sækja á körfuna og að sækja úr P&R, þar sem Finnar gátu spilað ákveðin varnarafbrigði, sem einungis er hægt með stórum leikmönnum. Voru þetta hlutir sem okkar leikmenn höfðu aldrei mætt áður á sínum ferli.

Ég vona að það náist samstaða um helgina, og við sjáum eina reglu allavega næstu 5 árin. Einnig vona ég innilega að sú regla verði frjálst bosman A + einn leikmaður sem ekki er bosman.

Kær kveðja
Arnar Guðjónsson

Fréttir
- Auglýsing -