spot_img
HomeFréttirAðsent: Að rækta garðinn

Aðsent: Að rækta garðinn

Að gera sama hlutinn aftur og aftur en búast við mismunandi niðurstöðu er skilgreining Albert Einstein á geðveiki. Nú er körfuknattleikshreyfingin enn einu sinni komin í umræðuna um fjölda erlendra leikmanna. Enn einu sinni ætlum við að hjakkast í sama farinu, pikkföst og pirruð. En til þess að bæta við vitleysuna langaði undirrituðum að leggja sín léttu lóð á vogarskálina og taka út nokkra þætti sem einkenna þessa umræðu og leggja fram spurningar sem hann telur mikilvægar upp á framhaldið:
 
1. Í fyrsta lagi vekur athygli að þeir sem tjá sig opinberlega um þetta mál eru ekki að iðka íþróttina. Annaðhvort eru það stjórnarmenn, þjálfarar eða stuðningsmenn. Leikmennirnir sjálfir tjá sig lítið um málið, þó svo að þetta komi þeim ansi mikið við. ?Ég hef heyrt af mörgum leikmönnum sem voru gáttaðir með niðurstöðu síðasta þings. Flestir sem fylgdust með málum bjuggust við því að hin svokallaða 3 2 regla yrði samþykkt og tveir bandarískir leikmenn leyfðir í kjölfarið. En á einhvern óskiljanlegan hátt var seinni reglan samþykkt, en sú fyrri felld. ?Í þessari umferð af „útlendingaumræðum“ hvet ég leikmenn til þess að leggja orð í belg. Að sama skapi hvet ég fjölmiðla að heyra hvað þeim sem spila íþróttina finnst.
 
2. Einnig vekur það athygli manns að þegar einhver tjáir sig um þetta mál, er gjarnan ráðist á þann aðila og spjótunum beint að honum. Sem dæmi um það má nefna grein Ingólfs Þorleifssonar, þar sem hann réð í þau orð sem Finnur Stefánsson, þjálfari kvennaliðs KR, lét falla í viðtali eftir leik við Hauka. Ingólfur ýjaði að því að áhyggjur Finns af fjölda útlendinga ráðist af stöðu hans eigin félags. ?Getur ekki verið að Finnur hafi einfaldlega hag þeirra fjölmörgu efnilegu drengja sem hann þjálfaði hjá KR fyrir brjósti? Getur ekki verið að Finnur sé nægilega vel gefinn til þess að hafa skoðun á málinu, án þess að hún mótist eftir aðstæðum liðs sem hann var að taka við??Þessi lenska að vaða alltaf í þann sem vogar sér að opna munninn er að mínu mati fáránleg og er til þess gerð að umræðan fer aldrei upp úr sandkassanum.
 
3. Hver er stefna íslenskrar körfuknattleikshreyfingar? Hefur hún verið mótuð? Hvert ætlum við okkur í framtíðinni? Nú er ekkert íslenskt lið sem tekur þátt í Evrópukeppni. Liðin eru semsagt eingöngu að keppast innbyrðis. Það gerir þennan fjölda erlendra leikmanna svolítið einkennilegan. Þetta minnir á vígbúnaðarkapphlaup stórveldanna tveggja eftir miðja 20. öldina. Þegar öllu var á botninn hvoflt rann upp fyrir mönnum að allur þessi vígbúnaður var til lítils. Ef við erum eingöngu að keppa innbyrðis, af hverju erum við þá sífellt að sækja í hjálp erlendis frá? Þetta væri svipað og ef einhverri húsmóður langaði í viðurkenningu bæjarstjórnar fyrir að eiga fallegasta garð bæjarins. Í stað þess að rækta upp garðinn og uppskera eftir nokkur ár, færi hún og keypti fullþroskaðar plöntur og fengi landslagsarkítekt til þess að hanna garðinn. Auðvitað er gaman að fá verðlaunin, en hvað situr eftir þegar upp er staðið?
 
4. Hvernig verða menn góðir í körfubolta? Leikæfing skiptir gríðarlegu máli að mínu mati. Við sjáum það líka að þegar við höfum verið að skila af okkur sem bestum leikmönnum hefur fjöldi erlendra leikmanna verið takmarkaður. Hvað hefði gerst ef Teitur Örlygsson, Valur Ingimundarson og Jón Kr. Gíslason hefðu þurft að sitja á bekknum fram á næstum miðjan þrítugsaldurinn sökum þess að í liðinu voru þrír erlendir atvinnumenn? Mjög líklega hefðu allir þessir snillingar náð að slá útlendingana úr liðinu, það hefði þó ekki endilega gengið eftir (sjá punkt nr. 5 um „kanaígildi“ ).?Við verðum að vera sanngjörn við okkur sjálf og sjá að við erum í bullandi samkeppni við aðrar íþróttir. Virkilega vel hefur gengið að bæta umgjörð yngri flokka, í þjálfun og í mótahaldi (KKÍ eiga hrós skilið þar!) en hvað svo? Ég fullyrði að sú kynslóð sem er að koma upp núna sé með því betra sem við höfum uppskorið í lengri tíma. Íslensk lands- og félagslið eru nú yfirleitt að keppa um efstu sætin á opinberum, jafnt sem óopinberum Norðurlandamótum. Hvert eiga þessir drengir og þessar stúlkur að fara þegar öll lið eru með fjölda erlendra leikmanna fyrir??Eins og ég sagði þá verða leikmenn betri á því að spila. Ingólfur Þorleifsson, stuðningsmaður KFÍ og toppmaður, ætti að vita að KFÍ hefur nú þegar lagt sitt að mörkum í að búa til góða leikmenn, Sigurður Þorsteinsson og Birgir Björn Pétursson þurftu ekki að keppa við mikinn fjölda útlendinga (2005-2007 voru þeir aðeins tveir hjá KFÍ og fengu þessir tveir fyrrnefndu menn mikið að spila, fengu að gera sín mistök, sem er mikilvægt fyrir unga leikmenn). Vissulega er hvimleitt fyrir Ísfirðinga að þessir leikmenn fari Suður. En þó verðum við að horfast í augu við þá staðreynd að síðan að útlendingum tók að fjölga hafa fáir leikmenn á borð við þá tvo komið fram í leiðarljósið. Undirritaður ætlar sér alls ekki að taka KFÍ fyrir, því þar er líklega einhver besta stjórn landsins og starfið þar algjörlega til fyrirmyndar! (Og drengir að blómstra þar sem alrei fyrr.) Eingöngu er verið að velta upp hlutum sem gætu gagnast okkur í umræðunni.
 
5. Gjarnan heyrist í þeim sem vilja hafa fjölda útlendinga sem mestan: „Ef menn eru nógu góðir, þá spila þeir“. En er það endilega rétt? Áður hefur undirritaður tjáð sig um það opinberlega að á Íslandi er gjarnan hugsað í „kanaígildum“. Útleggst það svo: Félag ákveður að taka til sín þrjá erlenda leikmenn. Í byrjunarliðinu eru því þrír útlendingar og tveir Íslendingar. Nú gerist það að sjötti maður liðsins spilar betur en einn af útlendingunum þremur og vinnur í raun sæti hans í róteringunni. Í stað þess að íslenski leikmaðurinn fái sætið sem hann hefur unnið fyrir, er útlendingurinn einfaldlega sendur heim og nýr tekinn í staðinn, sem fer beint aftur í byrjunarliðið.?Staðreyndin er einnig sú að þeir Íslendingar sem stunda körfubolta í efstu deildinum eru í þessu af áhugamennsku. Vissulega fá menn borgað fyrir að spila, en lang flestir eru í krefjandi vinnu og/eða námi með spilamennskunni. Þeir útlendingar sem hingað koma eru yfirleitt eingöngu að spila og hafa því mun meiri tök á því að bæta sig. Við núverandi ástand breytist ekkert í þessum málum.
 
6. Í umræðunni hefur heyrst að um 100 milljónir á ári fari í erlenda leikmenn. Sem þýðir að á áratugi fari milljarður þá leiðina. Á sama tíma höfum við varla getað haldið úti A-landsliðum, yngri landsliðsmenn þurfa að borga sitt eigið flug og yfirleitt er sparað eins og hægt er þegar hótel eru bókuð (enda menn hjá KKÍ ekkert að bruðla). ?Er þetta forgangsröðunin sem við viljum? Er þetta körfunni til hagsbóta? Þessum spurningum er kastað fram af æðruleysi og eiga ekki að vera gildishlaðnar. Við, sem hreyfing, þurfum einfaldlega að spyrja okkur hvert við viljum að peningarnir fari. Við þurfum að spyrja okkur hvað við viljum að liggi eftir okkur. Stjórnarmenn í sjálfboðastarfi hljóta að spyrja sig af þessu og hvort afrakstur þeirra vinnu sé sjáanlegur þegar til langs tíma er litið – og hvort garðurinn þeirra sé eingöngu aðkeyptar plöntur eða hvort þarna vaxi eitthvað.
 
Kjartan Atli Kjartansson?
þjálfari FSu 
 
(Mynd/ NBA Ísland – Baldur Beck)
Fréttir
- Auglýsing -