Þeir sem hafa tekið að sér yngri flokka þjálfun vita allt um það að stundum getur hegðun barnana verið vandamál sem oftast nær er hægt að laga, jafnvel á skömmum tíma. En hinsvegar er hegðun foreldra eitthvað sem þessir sömu þjálfarar hafa lítið sem ekkert með að gera enda fullorðið fólk og ættu að vera búin að læra “thing or two” eins og kaninn myndi orða það. Kjartan Atli Kjartansson leikmaður Stjörnunar og yngri flokka þjálfari hjá sama liði segir frá miður skemmtilegri reynslu sinni á Facebook og leyfði okkur hér á Karfan.is að birta þetta enda eitthvað sem á ekki að líðast í yngriflokka starfi. Hér eftir fer sá pistill sem Kjartan skrifaði.
Við erum stödd í gömlu íþróttahúsi. Grænn dúkurinn minnir mann á gamla leikfimistíma. 10 strákar í tvennskonar búningum hlaupa um og keppa í körfuknattleik. Þeir eru 11 og 12 ára gamlir. Félagar þeirra sitja á varamannabekkjum og hvetja.
Foreldrar heimaliðsins stýra stemmningunni í húsinu. Þegar gestaliðið er í sókn hefst taktfast klapp, til þess fallið að slá gestina útaf laginu. Þegar gestirnir tapa boltanum eða klúðra skoti er fagnað.
Þegar 11 ára barn gerir mistök ákveða semsagt nokkrir tugir af fullorðnum einstaklingum að fagna. Eftir að þessir sömu fullorðnu einstaklingar hafi náð að slá þetta 11 ára barn útaf laginu með klappi og ógnandi öskrum inn á völlinn.
Það er ekki því bara græni dúkurinn sem minnir mann á gamla tíma. Heldur einnig hegðun foreldranna.
Árið er 2013. Íþróttaiðkun barna er nám. Öðruvísi nám, en nám engu að síður. Hlutverk þjálfaranna og foreldranna er að skapa öruggt og heilbrigt námsumhverfi.
Hlutverk okkar er ekki að ógna öðrum börnum. Það er ekki að lítillækka önnur börn og fagna mistökum þeirra. Því þetta stingur. Það er erfitt að gera mistök. Og það er sérstaklega erfitt að gera mistök þegar manni er nuddað upp úr því.
Þessi hegðun hefur líka keðjuverkandi áhrif. Því einhver börn sem upplifa svona hegðun munu vilja ,,hefna” sín á næstu kynslóð.
Ég held að fólk þurfi að fara að vakna aðeins þegar það kemur að hegðun á kappleikjum yfirhöfuð. Hvað þá þegar börn eru að keppa. Það sem fólk leyfir sér er alveg ótrúlegt.
Ef þú átt barn í íþróttum þá er það þitt hlutverk að breyta þessu. Hefst ef allir hjálpast að.



