Stórleikur Njarðvíkur og Keflavíkur í Domino´s deild karla fer fram í Ljónagryfjunni í kvöld. Leikurinn hefst kl. 19:15 og vissara að fólk mæti snemma enda von á að uppselt verði á leikinn. Síðustu þrjár deildarrimmur erkifjendanna hafa verið magnaðar í Ljónagryfjunni og í þessum þremur leikjum hafa aðeins tíu stig samtals skilið liðin að.
Njarðvíkingar hafa unnið þrjár síðustu deildarviðureignir liðanna í Ljónagryfjunni, síðast með sex stiga mun en hinir tveir leikirnir þar á undan lyktuðu með tveggja stiga sigri Njarðvíkinga. Gera má fyrir að ekki ósvipað verði uppi á teningnum í kvöld enda er slagur þessara liða oftar en ekki ávísun á skemmtilega kvöldstund.
Síðustu þrjár deildarviðureignir liðanna í Ljónagryfjunni:
14. mars 2013: 100-94
3. mars 2012: 95-93
24. janúar 2011: 104-102
Reyndar hafa Keflvíkingar ekki unnið deildarleik í Ljónagryfjunni síðan í október 2007 og því óhætt að segja að tölfræðin sé ekki á þeirra bandi fyrir leik kvöldsins. Keflvíkingar hafa hinsvegar oftar en ekki verið svarið þegar fólk er spurt að því hvaða lið það telji vera sterkast um þessar mundir.
Nágrannarimma liðanna mun einnig bjóða upp á sterka menn á tréverkinu í borgaralegum klæðum því Magnús Þór Gunnarsson er handarbrotinn í liði Keflvíkinga og þá er Snorri Hrafnkelsson með slitið krossband í Njarðvíkurliðinu og Maciej Baginski fjarverandi sökum veikinda. Þeir hinir sem verða í búning í kvöld munu engu að síður tryggja magnaðan leik þar sem uppúrsuðurnar gæti verið víða að finna.
Mynd/ Valur Orri Valsson er einn þeirra sem á að baki leik í meistaraflokki með bæði Njarðvík og Keflavík.



