00:48
{mosimage}
(Hammer gerði 19 stig í kvöld)
Segja má að lokahátíð 1. deildarinnar hafi farið fram í kvöld því úrslitarimma FSu og Vals hefur jafnast á við hverja þá hátíð sem undirritaður hefur upplifað. Leikurinn í kvöld var stórkostleg skemmtun fyrir alla aðila og að mörgu leiti sigur fyrir körfubolta á Íslandi. Leikurinn var hnífjafn allan tíman en munurinn á liðunum varð aldrei meiri en 10 stig. Áhorfendapallar í Iðu hafa líklega sjaldan verið jafn þétt setnir og báðir endar við völlin voru nýttir. FSu höfðu frumkvæðið meirihluta leiksins og höfðu á endanum 4 stiga sigur við mikinn fögnuð heimamanna en þeir spila því meðal þeirra bestu að ári á meðan Valsmenn sitja eftir í 1. deildinni enn eitt árið eftir harða en hetjulega baráttu um úrvalsdeildarsætið. Stigahæstir í kvöld voru Sævar Sigurmundsson og Matthew Hammer með 19 stig hvor og Vésteinn Sveinsson með 8 stig fyrir Fsu. Hjá Val var Rob Hodgson atkvæðamestur með 17 stig en næstir voru Ragnar Gylfason og Craig Walls með 10 stig hvor.
Eftir stórglæsilega kynningu á leikmönnum með ljósasýningu og öllu tilheyrandi hófst leikurinn. Valsmenn mættu mun ákveðnari til leiks og spiluðu virkilega sterka vörn á óákveðna FSu menn. Þegar þrjár mínútur voru liðnar af leiknum skoruðu heimamenn sín fyrstu stig en það var eftir að Brynjar Karl hafði tekið leikhlé í stöðunni 0-8. Eftir leikhléið náðu FSu að bæta sinn leik og Sævar Sigurmundsson náði að spila sig lausan tvær sóknir í röð og laga stöðuna, 4-8, þegar fjórar mínútur voru liðnar. Leikurinn róaðist aðeins þegar leið á leikhlutan, heimamenn náðu þó góðum kafla og skoruðu 5 stig gegn engu og jöfnuðu metin, 10-10 þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af leikhlutanum. Leikurinn spilaðist nokkuð kaflaskipt því Valsmenn áttu næstu 6 stigin og komust í 10-16 með góðum varnarleik en Fsu voru þó líka oft að fara illa með góð skot. Sævar Sigurmundsson átti seinustu stig leikhlutans sem endaði 14-19 Valsmönnum í vil. Sævar var mjög duglegur að spila sig í gegnum varnarleik Valsmanna og virtist vera sá eini sem gæti gert það með sómasamlegum árangri því hann átti 10 af 14 stigum FSu í fyrsta leikhluta.
{mosimage}
Heimamenn settu í annan gír í varnarleik sínum í öðrum leikhluta og fengu fyrir vikið aukinn hraða í sinn leik en þeir komust yfir í fyrsta skiptið í leiknum þegar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum, 22-21, þegar Matthew Hammer lagði boltann laglega ofan í eftir hraða sókn. Matthew átti svo þriggja stiga körfu í næstu sókn sem sendi Valsmenn á bekkinn til að leggja á ráðin en Sævaldur Bjarnason tók þá leikhlé, 25-21. Valsmönnum gekk mjög brösulega í sóknarleiknum og þegar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum höfðu þeir aðeins skorað 4 stig, gegn 13 stigum FSu, 27-23. Eftir að hafa náð sínu stærsta forskoti fram að því, 32-25, misstu FSu niður forskot sitt á lokasekúndunum og Valsmenn jöfnuðu leikinn þegar um hálf mínúta var eftir af leikhlutanum, 34-34. Valsmenn tóku svo leikhlé þegar 9 sekúndur voru eftir af leiknum en þeir áttu þá möguleika á að komast aftur yfir í leiknum, sem þeir nýttu ekki þar sem Ragnar Gylfason klikkaði úr þriggja stiga skoti á lokasekúndunni. Staðan var því hnífjöfn 34-34 þegar flautað var til hálfleiks.
{mosimage}
Stigahæstir í hálfleik hjá heimamönnum voru Sævar Sigurmundsson með 15 stig og 7 fráköst, Matthew Hammer með 14 stig og Vésteinn Sveinsson með 3 stig. Hjá gestunum í Val voru það Craig Walls með 8 stig og 5 fráköst, Alexander Dungal og Jason Harden með 6 stig hvor.
Heimamenn byrjuðu af fullum krafti í seinni hálfleik með fanta vörn sem skilaði auðveldum stigum en þeir skoruðu fyrstu 10 stig leikhlutans. Staðan var því orðin 44-34 þegar tæplega þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Stuðningsmenn beggja liða létu vel í sér heyra og var hitinn í húsinu orðin það mikill að meira að segja Brynjar Karl Sigurðsson var búinn að fara úr jakkanum. Valsmenn náðu aðeins að laga stöðuna áður en Sævaldur, þjálfari Vals, tók leikhlé í stöðunni 44-38 og þrjár mínútur liðnar. Þegar leið á leikhlutan skiptust liðin á að skora en Fsu voru minnst 4 stigum yfir þangað til rétt rúmlega ein mínúta var eftir en þá virtust Valsmenn vera að vinna sig aftur inní leikinn því leikmenn FSu voru að gera sig seka um mörg klaufaleg mistök í sókninni. Valsmenn nýttu það þó ekki sem skildi og FSu náðu aftur 5 stiga forskoti áður en leikhlutanum lauk, 50-45.
{mosimage}
Rob Hodgson mætti til leiks í fjórða leikhluta og átti 6 fyrstu stig gestana en heimamenn svöruðu þó alltaf um hæl og höfðu því fjögurra stiga forskot þegar tvær mínútur voru liðnar af leikhlutanum, 55-51. Valsmenn komust þó yfir í fyrsta skiptið síðan í upphafi annars leikhluta þegar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum, 55-57. Vésteinn Sveinsson var ekki lengi að svara fyrir heimamenn og liðin skiptust svo á að leiða leikinn. Þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum tóku Valsmenn leikhlé en það var augljóst að þeir þurftu að hafa meira fyrri stigunum sínum því þeir voru oftar en ekki að skjóta þegar skotklukkan var um það bil að syngja á meðan heimamenn keyrðu hratt á Valsmenn. Hvorugt liðið fann sig þó vel í sóknarleiknum og þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum höfðu FSu ennþá eins stigs forskot, 62-61. Árni Ragnarsson átti hins vegar svakalegt áhlaup þegar hann keyrði framhjá Rob Hodgson og kom FSu í þriggja stiga forksot með eina mínútu á klukkunni.
Matthew Hammer stal boltanum í næstu sókn og höfðu þeir því úrvalsdeildarsætið í sínum höndum. Árni Ragnarson fékk hins vegar dæmt á sig skref og þegar 36,8 sekúndur lifðu tóku Valsmenn leikhlé í þeirri von að ná að snúa leiknum sér í hag. Craig Walls gerði atlögu að körfu Fsu þegar 23 sekúndur voru eftir og lagði boltan ofan í en klikkaði á vítinu, sem var hans 6 víti í leiknum sem hann klikkar á. Rob Hodgson átti seinustu tilraun Valsmanna að sigri í leiknum en fékk dæmda á sig sóknarvillu þegar hann náði sóknarfrákasti og því fengu FSu seinustu skotin í leiknum þegar Björgvin Rúnar Valentínusson lagði bæðin vítin ofan í af miklu öryggi og tryggði FSu 4 stiga sigur, 67-63.
{mosimage}
Leikurinn var hin mesta skemmtun og gerast úrslitaleikir varla meira spennandi en þessi. Sævar Sigurmundsson átti enn einn stórleikinn og óhætt að segja að drengurinn sé mikill happafengur fyrir FSu. Matthew Hammer skilaði sínu að vanda sem og Árni Ragnarsson og Emil Jóhannsson sem komu sínu hlutverki mjög vel frá sér í kvöld. Valsmenn fara líklega vel ofan í vítaskotin á næstu æfingu því vítanýting þeirra var ekki uppá marga fiska í leiknum og segja má að með sæmilegri vítanýtingu hefði leikurinn geta unnist. Valur nýtti aðeins 2 af 12 vítum sem telst 16,7 % vítanýting.
Texti: Gísli Ólafsson
Myndir: Snorri Örn Arnaldsson
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}



