spot_img
HomeFréttirÁætlað að ráða landsliðsþjálfara fyrir áramót

Áætlað að ráða landsliðsþjálfara fyrir áramót

Líkt og greint var frá í síðustu viku þá lét Ívar Ásgrímsson af störfum sem landsliðsþjálfari A-landsliðs kvenna eftir undankeppni Eurobasket 2019. Ljóst er því að nýr þjálfari mun taka við keflinu en leitin er hafin af nýjum landsliðsþjálfara.

Í samtali við Körfuna staðfesti Hannes S. Jónsson formaður KKÍ að leitin væri óformlega hafin en ákveðið hafi verið að klára landsliðsverkefnin í nóvember fyrst. Hannes sagði ennfremur að ráðning hefði komið til tals og stjórn KKÍ farin að líta í kringum sig en lengra væri málið ekki komið að svo stöddu.

KKÍ ætlar að taka sinn tíma til að fara yfir þessi mál og vanda til verka. Það væri þó eðlilegt að klára ráðninguna fyrir nýtt ár svo nýr landsliðsþjálfari hafi góðan tíma til að undirbúa liðið fyrir næstu verkefni. Hannes staðfesti því að nýr þjálfari yrði að öllu eðlilegu kynntur í byrjun næsta árs.

Næsti landsliðsgluggi íslenska liðsins er í nóvember 2019 en næsta sumar fara fram Smáþjóðaleikar sem yrði fyrsta verkefni nýs landsliðsþjálfara.

Fréttir
- Auglýsing -