Það er ískaldur miðvikudagur um miðjan desember og korter í jól. Efstu deildirnar í körfubolta komnar í frí og misjafnt hvort þjálfarar og leikmenn vilji byrja að spila aftur eða fagni fríinu.
Jólunum fylgja yfirleitt gleði en gleðin er þó væntanlega meiri hjá þeim liðum sem eru í efstu sætum deildanna. Darri Freyr Atlason er einn af þeim sem geta verið ansi sáttir við sína stöðu um hátíðarnar. Þessi 23. ára gamli þjálfari tók við meistaraflokki Vals í Dominos deildinni fyrir tímabilið. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Darri nokkra reynslu af þjálfun en hann hóf að þjálfa yngri flokka KR aðeins 13 ára gamall, fyrir lítinn pening en hann segir það hafa verið aðallega því honum þótti það gaman.
Þessi efnilegi þjálfari var hinsvegar ekki lengi að stimpla sig rækilega inní Dominos deildina því hann situr á toppnum með lið sitt eftir fjórtán umferðir en liðið hefur einungis tapað þremur leikjum í deildinni. Valur er með fjögurra stiga forystu á toppnum en það er jafnkalt á toppnum og þennan desemberdag. Við Darri mæltum okkur mót rétt fyrir jól yfir kaffi bolla þar sem við ræddum körfuboltaáhugann, þjálfunina og árangurinn meðal annars.
Byrjum á byrjuninni
Eftir að kaffið var komið í bollanna hófst spjallið formlega. En hvar hófst körfuboltaáhuginn hjá Darra?

„Þetta er reyndar skemmtileg saga. Það er líklega Damon Johnson sem vekur alvöru körfuboltaáhuga. Birna Valgarðsdóttir er systir mömmu og hún og Damon voru par fyrir ansi mörgum árum. Ég hafði fylgst með Birnu og Halla bróðir mömmu í körfuboltanum áður og leikið mér sjálfur inní herbergi en aldrei þorað á æfingu. Það var svo Damon Johnson sem sannfærði mig um að fara á fyrstu æfinguna mína. Ætla að segja að þetta hafði því byrjað með honum.“ sagði Darri um upphafið en hverskonar körfubolti var það sem greip Darra í fyrstu.
„Fyrst voru það Keflavíkur liðin, Damon og Birna. Byrjaði svo að halda með Detroit Pistons í NBA deildinni 2003-2004 sem er fyrsta tímabilið sem ég fylgist með. Þetta var náttúrulega geggjað lið þá. Síðan þá hefur NBA áhuginn bara aukist, ég eyði alltof mörgum klukkustundum á vondum tímum sólarhringsins í að glápa á NBA.“
Körfuboltamenningin í KR
„Ég er fæddur á Sauðárkróki, svo því sé haldið til haga en er uppalinn í Vesturbæ Reykjavíkur.“ sagði Darri um uppeldi sitt en það var ljóst snemma í spjallinu að KR hjarta Darra er ansi stórt.
„Ég naut þess heiðurs að alast upp með Matthíasi Orra og Martin Hermanssyni upp alla yngri flokka svo kom Kristófer aðeins seinna. Svo komu fleiri svo þetta var rosalega sterkir árgangar. Það voru ótrúlega flottir karla sem voru að þjálfa okkur alveg frá blautu barnsbeini. Einhverjar æfingar hjá Benna (Benedikt Guðmunssyni), Inga Þór, Siggi Hjörleifs, Hrafn Kristjáns og svo stærsta hlutann Finnur Freyr. Vorum allir mjög heppnir með umgjörð og þjálfara upp alla yngri flokka. Allt ólíkir persónuleikar og ólíkir stílar en allir kenna manni eitthvað. Finnur Freyr á samt lang mest í okkur, hann var með okkur lengst og sérstaklega með Mattana (Martin og Matthías).“ sagði Darri um uppeldið hjá KR.
Liðið sem KR var með í yngri flokkum í þessum árgöngum var ógnarsterkt og var með leikmenn á borð við Martin Hermannsson, Kristófer Acox, Matthías Orra Sigurðarson, Odd Rúnar Kristjánsson svo einhverjir séu nefndir. Þegar talið berst að þessu ótrúlega liðið er velt upp hvernig þessu liði myndi ganga í Dominos deildinni.
„Ég man að þegar við urðum Íslandmeistarar í unglingaflokki, þá leið okkur eins og við værum í úrslitakeppninni í Dominos deildinni ef við myndum bæta við okkur kana. Ég var náttúrulega bara að hlaupa í hringi, setja hindranir með þessum gæjum og reyna að spila vörn. Það er kannski þeim að kenna að ég gat aldrei skotið að neinu viti enda fékk ég ekkert að gera það. Ef þessir leikmenn myndu vera saman í liði í Dominos deildinni í dag þá þyrfti ekki einu sinni kana og liðið myndi vinna deildina.“ sagði Darri um möguleika þessa liðs.

Leikmannaferlinum lýkur
Það er nokkuð sjaldgæft að þjálfarar séu svo ungir að þjálfa lið á hæsta stigi en það eru þó til nokkrar fyrirmyndir útí heimi. Brad Stevens þjálfari Boston byrjaði ungur að þjálfa sem dæmi en leikmenn sem hætta svo ungir að spila körfubolta og færa sig yfir í þjálfun hafa oft slæma meiðslasögu á bakinu. Það á að einhverju leiti við um Darra sem sleit krossband aðeins 18 ára gamall.
„Það var akkurat tímabilið sem ég ætlaði að gera eitthvað að viti í meistaraflokki í fyrsta skipti. Sleit krossband rétt fyrir jól það tímabil og lék ekki meira með það tímabil. Næ að æfa vel sumarið eftir meiðslin en reif síðan liðþófann á fyrstu æfingu eftir sumarfrí. Var frá í 12 vikur og þá var komið á mitt tímabil svo það var mjög erfitt. Ég er alveg góður af meiðslum í dag en þetta endar með því að áhuginn á því að spila körfubolta er ekki nægilega mikill. Mér gengur ágætlega annarsstaðar líka sem fór að taka meiri tíma og ég valdi bara annað en körfubolta.“ sagði Darri um endalok ferils síns sem leikmanns en hann var ánægður með þá ákvörðun að leggja skónna á hilluna.
„Í raun var frábært að fá að fara að þjálfa meistaraflokk KR til þess að hafa afsökun til að stimpla sig út sem leikmaður. Ég er mjög ánægður með þessa ákvörðun. Mér finnst rosa gott að vera ekki að harka lengur í að spila. Áttaði mig á því að mig langaði ekki til að vera ágætlega góður í körfu.“

Tvítugur þjálfari meistaraflokks KR
Árið 2014 var tekin ansi umdeild ákvörðun af stjórn KR þegar meistaraflokkur kvenna var dreginn úr keppni í efstu deild. Darri var þá fenginn til að taka við liðinu aðeins tvítugur að aldri.
„Ég sóttist ekki eftir þessu. Það var allt í rugli þarna hjá kvennaliði KR án þess að fara eitthvað nánar útí það. Björn Einarsson hafði verið ráðinn þjálfari KR en stjórnin ákvað síðar um sumarið að fara niður um deild, þá hættir hann og lykilleikmenn fara frá liðinu. Þá hringdi Jói Árna í mig og spurði hvort ég hefði áhuga á þessu. Það voru fimm leikmenn á fyrstu æfingunni. Þar á meðal Ásta Júlía Grímsdóttir sem þá var 13 ára en hún fékk stórt hlutverk í liðinu strax.“ sagði Darri um hvernig það kom til að hann fékk starfið en hann sagði tímabilið hafa verið lærdómsríkt fyrir sig og leikmenn.
„Þetta var frábær skóli fyrir 2000 árganginn hjá KR. Þær verða Íslandsmeistarar í yngri flokkum, það var í fyrsta skipti sem KR á Íslandsmeistaralið kvenna.“

Ákvörðun KR var mjög umdeild og var félagið gagnrýnt fyrir metnaðarleysi en Darri er ósammála þeim gagnrýnisröddum. „Ég held að stjórnin hafi gert rétt með þessari ákvörðun á sínum tíma. Þetta var mjög óvinsæl ákvörðun en ef við sjáum hvað þessir leikmenn hafa fengið útúr þessu þá finnst mér þetta rétt ákvörðun. Langtímamarkmiðið ætti alltaf að vera að búa til góða kvennadeild þar sem hægt er að hlúa að leikmönnum. Íslandsmeistaratitlar og árangur ætti því að vera ákveðin skref í átt að því en ekki endapunktur.“ sagði Darri um hvernig horfa eigi á starfsemi félaganna og bætti við um stöðuna á kvennakörfuboltanum á Íslandi.
„Held að þetta snúist miklu meira um hvernig þú tekur á móti leikmönnum þegar þeir mæta í íþróttahúsið í fyrsta skiptið. Eru nægilega góðir þjálfarar? Eru sömu æfingatímar? Ertu að tala eins við þessa krakka? Þeir þekkja ekkert muninn sjálfu sér og hinu kyninu á þessum aldri.“
„Þetta var því ágætis skref í þá átt að fara niður um deild. Þetta varð miklu skemmtilegra og jákvæðara umhverfi í kringum liðið. Það var miklu meira spennandi að koma á æfingar. Þú vilt reyna að byggja liðið upp á fallegum undirstöðum.“
Darri Freyr stjórnaði liðinu einungis eitt tímabil þrátt fyrir fínan árangur en KR tapaði úrslitaeinvíginu gegn Skallagrím í 1. deild kvenna. Hann sagði liðið hafa komist nær því að sigra Skallagrím með hverjum leiknum. Tímabilið hafi verið gott og félagið hafi alls ekki verið hrætt við að fara upp um deild þrátt fyrir ungan kjarna leikmanna. Darri sagði það algjörlega sína ákvörðun að halda ekki áfram með liðið.
„Ég byrjaði að vinna hjá Íslandsbanka eftir tímabilið og kláraði háskólanámið mitt á sama tíma. Sá bara fram á að geta ekki gert allt í einu og hætti með liðið. Ég ætlaði mér ekkert endilega að fara aftur í þjálfun alveg strax. Hafði í raun ekkert endilega séð fyrir mér að gera meira af þessu yfir höfuð. Síðan kom tilboð sem var ótrúlega spennandi og hefur verið mjög skemmtilegt svo ég er bara ánægður með að hafa tekið þeirri áskorun.“ sagði Darri og átti þar við það þegar honum var boðið starfið hjá Val eftir árs fjarveru frá körfuboltanum.

„Úr áhorfendum í sigurvegara“
Síðasta tímabil var ákveðin vonbrigði fyrr lið Vals sem var vel mannað. Liðið náði ekki neinum stöðugleika og endaði í fimmta sæti með 24 stig. Ákveðið var að skipta um þjálfara og var Darra boðið að taka við af Ara Gunnarssyni sem þjálfað hafði liðið tvö tímabil.
„Ég skrifaði undir mjög snemma í sumar, bara 1. maí. Þetta var mikil áskorun. Það var einhver dramatík búin að vera en ég veit ekkert meira um það. Það er augljóst að Grímur (Atlason) hafði talað við mig og nefnt þetta en ég var ekkert inní samskiptunum meira en það.“ sagði Darri um ráðningu sína en Ari Gunnarsson sagði frá því við viðtali við mbl.is fyrr á árinu að hann væri ósáttur við vinnubrögð stjórnar Vals er honum var sagt að hann fengi ekki endurráðningu.
„Við þurftum að bæta móralinn. Ábyrgðin var ekkert bara þjálfarans að öllu leiti. Það voru líka leikmenn sem þurftu að nálgast þetta öðruvísi. Þær þurftu að taka meiri ábyrgð á sjálfum sér og taka meiri ábyrgð gagnvart sínum liðsfélögum. Þurfa að skilja að þú ert að gera þetta fyrir sjálfan þig og liðsfélagann líka.“ sagði Darri um áskorunina sem hans beið þegar hann tók við Valsliðinu og bætti við.
„Vildum líka taka umgjörðina föstum tökum. Verð að hrósa öllum sem koma að þessu hjá Val fyrir hvernig þau standa að þessu. Get lofað því að þetta er það flottasta á Íslandi í dag. “
Það er alltaf áskorun að taka við góðu liði í efstu deild en Darri sagði það ekki hafa vafist fyrir sér. Hann sagði sálræna hlutann hafa verið eina mestu áskorunina sem hans beið hjá Val.
„Ég ræddi það við stelpurnar að þegar maður kemur frá KR þá horfir maður á Val sem þátttakendur. En okkur langaði að breytast úr þátttakendum í sigurvegara. Það er andleg breyting sem er bara í blóðinu mínu og ég vildi fóstra það þarna hjá Val. Ég fann það strax að það var ótrúlega stutt í það hjá þeim öllum. Mér finnst við líka vera komin ansi langt í þá átt núna. Það er stórt skref að taka. Bara að líða eins og maður se betra lið og skilja samband erfiðis og árangurs. Þessi breyting var mesta áskorunin andlega.“
Klisja af ástæðu
„Við þurfum að sníða taktíkina að leikmönnum. Við erum í raun enn að þróast þar. Það eru leikmenn sem eru enn að koma mér á óvart og eru að sýna mér hvað þær geta á vellinum. Hallveig sem dæmi hefur verið í ruglinu sóknarlega hingað til og uppá síðkastið geðveikt flott á varnarendanum.
„Ég segi alltaf við hana að hún sé Brynjar Þór (Björnsson) kvennadeildarinnar. Hún tók bara á því í sumar, svo nálgast hún þetta bara sem algjör fagmaður. Hún æfir mikið, á góðar samræður við mig og les vel í hvernig öðrum leikmönnum líður. Við eigum henni mikið að þakka, meira segja fyrir utan það sem hún er að leggja til á körfuboltavellinum.“ sagði Darri um leikmannahóp sinn en Valsliðið situr á toppi efstu deildar með fjögurra stiga forystu á næsta lið, leyfði Darri sér að dreyma um þá stöðu fyrir tímabilið?
„Ég ætla ekkert að segja að ég hafi haldið að við myndum tapa leikjum. Ég er með flottan hóp í höndunum. Þetta er ekkert að koma okkur sjúklega á óvart. Auðvitað bjóst maður við meiri tregðu í byrjun þegar við vorum að prufa þessa nýju hluti og svona. Fyrst að það hefur gengið svona vel þá viljum við setja þá pressu á okkur að vera alvöru lið. Svo pælir maður ekkert í þessu. Við bara spilum leikina og erum ekkert að velta fyrir okkur hvað við höfum unnið marga leiki í röð eða slíkt. Klisjan um að taka einn leik í einu er klisja af ástæðu.“
„Það er klárlega stígandi í liðinu varnarlega. Við eigum tiltölulega auðvelt með að finna körfur. Þurfum allavega að gera minna til að finna körfur þar. Vörnin hefur tekið mjög stöðugum framförum á tímabilinu og toppaði í síðasta leiknum gegn Stjörnunni. Ég er mjög stoltur af liðinu að hafa haldið Stjörnunni í 50 stigum í leik.“ sagði Darri um varnarleik liðsins.
Fyrirmyndirnar – Young Pat Riley?
Það er óhjákvæmilegt að eiga sér ekki fyrirmyndir í starfi þjálfarans. Margir frábærir þjálfarar hafa gert frábæra hluti og því margt hægt að taka frá öllum þjálfum. Darri tekur undir að en viðurkennir þó að hann sé ekki með neina ákveðna eina fyrirmynd.
„Ég tek mikið frá Finn Frey sóknarlega sérstaklega. Þá aðallega varðandi flæði og færri kölluð kerfi í leiknum. Svo stel ég nokkrum kerfum frá honum.“ sagði Darri og glotti.
„Varnarlega finnst mér ég hafa náð að skapa mér ákveðið einkenni. Svo þarf ég bara að sníða mína taktík af hópnum sem ég er með. Við höfum gert vel að hlaupa liðin af þriggja stiga línunni. Lesum vel í leikmenn andstæðinganna, höfum róterað og skipt mikið á veiku hliðinni. Sem er svona einkenni frá mér. Ég módela mig ekki eftir neinum sérstökum fræðilega allavega.“

Framtíðin og draumar um titilinn?
Þegar talið berst að framtíðinni er ljóst að Darri leyfir sér ekki að hugsa of langt þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir blaðamanns. Þrátt fyrir það er trúin á því að liðið gæti tekið þann stóra til staðar.
„Væri ekki í þessu ef ég hefði ekki trú á að við gætum orðið Íslandsmeistarar. Fyrst þurfum við að komast í úrslitakeppnina og það er svarið sem þú munt alltaf fá. En auðvitað er það skref í að gera eitthvað stærra. Það er hættulegt fyrir okkur að fara framúr okkur á þessu stigi. Deildin er þétt og nokkrir tapleikir þýða að mörg lið eru komin upp fyrir þig í töflunni. Þetta eru svo ótrúlega fá lið sem fara í úrslitakeppnina en við þurfum að halda einbeitingu og vinna þessa leiki sem skipta miklu máli.“ sagði Darri um möguleika liðsins í deildinni.

Að lokum ræðum við framtíðina í þjálfuninni. Hefur Darri metnað eða áhuga að ná lengra í þjálfun og hefur hann einhverja ákveðna drauma?
„Akkurat núna er ég að horfa á þjálfun þannig að ég ætla að gera þetta meðan mér finnst það skemmtilegt. Ef það kemur síðan upp einhver sjúklegur metnaður og áhugi að elta frama á þessu sviði þá geri ég það, annars ekki.“ sagði Darri og sagði svo að lokum.
„Mér líður ágætlega með það verkefni sem ég er með í höndunum núna. Ég veit ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér, hvort sem það er í körfuboltanum eða annarsstaðar. Er eigilega alveg týndur en það er bara fínt. Þá get ég einbeitt mér að því að hafa temmilega skemmtilegt í dag.“
Þar með hélt Darri með toppsætið inní jólahátíðarnar en Dominos deildin hefst aftur 6. janúar 2018 en þá fær Valur Breiðablik í heimsókn.

Viðtal / Ólafur Þór Jónsson
Myndir / Ólafur Þór, Bára Dröfn og KR.is
Viðtalið mun birtast í Podcast útgáfu þann 30. desember næstkomandi



