Ekki þarf að fjölyrða um efnahagskreppuna og þær afleiðingar sem hún hefur haft á íþróttafélögin í landinu og rekstrarumhverfi þeirra. Topplið Stjörnunnar hefur líkt og svo margir aðrir ekki farið varhluta af ástandinu og líkast til hefur það ekki oft verið uppi á teningnum að topplið í boltagrein hérlendis hafi verið án aðalstyrktaraðila. Þannig er í pottinn búið hjá Subwaybikarmeisturum Stjörnunnar sem auglýsa Landsbankann frítt!
,,Þrátt fyrir frábæran árangur hefur okkur ekki tekist að semja við aðalstyrktaraðila til handa körfuknattleiksdeildinni,“ sagði Gunnar Kristinn Sigurðsson formaður Stjörnunnar í samtali við Karfan.is. ,,Við höfum fundað með mörgum aðilum og fengið mörg jákvæð svör en það hefur enginn enn getað gerst okkar aðalstyrktaraðili og það er kannski skiljanlegt í ljósi ástandsins,“ sagði Gunnar og bætir við:
,,Ég segi oft að við höfum orðið bikarmeistarar á röngu ári, ef við hefðum unnið bikarinn 2007 þá hefði verið lítið mál að ná sér í aðalstyrktaraðila,“ sagði Gunnar en það er þó enginn uppgjafartónn í formanninum sem varð bikarmeistari með Garðbæingum í fyrra en það var fyrsti bikartitill og fyrsti stórtitill Garðbæinga í körfubolta. ,,Við fáum góðan stuðning í gegnum afrekssjóð Stjörnunnar, sem m.a. fær fjármuni frá Garðabæ, auk þess sem ýmis fyrirtæki eru að styrkja okkur með minni fjárhæðum þannig að reksturinn er í lagi eins og er. En það vantar auðvitað töluvert uppá til að tímabilið endi réttu megin við núllið.”
,,Við erum að fá mikla athygli í Garðabæ, innan sem utan bæjarins og áhorfendafjöldinn er alltaf að aukast. Því ætti að vera akkur fyrirtækja að tengjast okkur. Annars erum við að horfa til lengri tíma og biðjum ekki endilega um háar fjárhæðir. Við viljum þróa samstarf með einhverjum sem er tilbúinn að horfa fram á veginn,“ sagði Gunnar en núna rétt eins og hjá öllum öðrum þá er málið að halda sjó.
Landsbankinn hefur því fengið fría auglýsingu í haust þökk sé Stjörnunni enda hafa bikarmeistararnir og topplið Iceland Express deildarinnar ekki fjárfest í nýjum búningum.
Ljósmynd/Tomasz Kolodziejski: Landsbankinn nýtur sín vel framan á búningum Garðbæinga enda er engin máltíð jafn góð og frí máltíð.