spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaÁ að slátra gullgæsinni?

Á að slátra gullgæsinni?

KKÍ þing fer fram næsta laugardag og þar liggur fyrir tillaga um að fjölga liðum í úrvalsdeild kvenna í 10 lið, taka síðan upp tvískipta keppni um mitt keppnistímabil ásamt því að leyfa ungmennaflokki að keppa í 1. deild til að halda þeirri deild lifandi ásamt því að leggja af úrslitakeppni í 1.deild (stutt útgáfa af tillögunum).

Ég skil hugmyndafræðina á bak við þessa tillögu og við fyrstu sýn lítur út fyrir að vera frábær hugmynd að fjölga í úrvalsdeild kvenna. En ég tel tillöguna ótímabæra og fórnarkostnaðurinn of mikill því tillagan mun gera út af við 1. deild kvenna. Körfubolti kvenna hefur verið í miklum vexti síðustu ár, meðal annars vegna þess að 1. deild kvenna er skemmtileg og er að búa til bæði leikmenn og lið sem vilja spila í efstu deild. Sem er akkúrat tilgangur deildarinnar og frábært að því markmiði hafi verið náð. Úrslitakeppnin hefur verið það skemmtileg og spennandi að leikir hafa verið sýndir í beinni útsendingu á stöð 2 Sport. 1. deild kvenna er í raun gullgæs körfubolta kvenna! Vettvangur nýrra og ungra leikmanna til að vaxa áður en farið er í efstu deild. Tvær skemmtilegar deildir sem er allt annað en fyrir nokkrum árum.

Í dag eru 16 meistaraflokks kvenna lið (plús eitt B-lið). Helmingur liðanna spilar í efstu deild og helmingur í 1. deild. Ef 10 lið verða í efstu deild þá verða 6 lið eftir í 1. deild. Þar sem ég hef fylgst með körfubolta kvenna í óeðlilega mörg ár þá man ég bæði eftir 6 liða efstu deild (því fleiri lið vildu ekki spila í efstu deild) og 6 liða fyrstu deild (því það voru ekki til fleiri lið). Ég get sagt þér að það er hundleiðinlegt! Og að setja ungmennaliðin í 1. deildina mun eingöngu minnka gæði deildarinnar og leikirnir verða líklega ekki sýndir á stöð 2 sport í þeirri deild. En verri hugmynd er að leggja af úrslitakeppnina því við elskum öll vorið þegar úrslitakeppnin tekur yfir í öllum deildum. Síðan verður að taka inn í myndina að nú þegar er komið í umræðu að 1-3 lið muni ekki mæta til keppni næsta haust í 1.deild kvenna! Þá erum við komin í 13 meistaraflokks lið og þrjú þeirra eru eftir í 1.deild ef það er 10 liða efstu deild?

Ég tel líka að 10 liða efstu deild muni minnka gæði efstu deildarinnar, fleiri of ungar stelpur fara að spila í efstu deild sem skaðar hagsmuni körfubolta kvenna til lengri tíma litið (hætta fyrr) ásamt því sem keppnisfyrirkomulagið sem lagt er til er einfaldlega flókið sem gerir það óáhorfendavænt. Nógu erfitt er að berjast fyrir því að koma íþróttum kvenna í umfjöllun þótt flókið keppnisfyrirkomulag bætist ekki ofan á það. Svo fá ein dæmi séu nefnd um ókosti þessa fyrirkomulags.

En aftur, ég skil hugmyndafræðina og ég er sammála þeim sem leggja tillöguna til að eitthvað þarf að gera. Það er rétt að fleiri lið nú en nokkru sinni fyrr hafa sagst vilja vera í efstu deild (sögulega eru samt ekki allir sem vilja fara upp þegar raunverulegt tækifæri gefst). Einnig var sárt að fylgjast með metnaðarleysi tveggja liða í efstu deild í vetur að vera ekki með amerískan leikmann innan sinnan raða. Ég vil því leggja til breytingatillögu, breytingatillögu sem slátrar ekki gullgæsinni sem er 1.deild kvenna og flækir ekki keppnisfyrirkomulag efstu deildar, en mun vonandi auka gæði í báðum deildum og gefa fleiri liðum tækifæri til að spila í efstu deild.

Hér er mín breytingatillaga:

  • 8 liða efstu deild en í lok tímabils falla tvö lið (ætli Breiðablik hefði fengið sér kana ef tvö lið hefðu fallið?)
  • Í 1. deild kvenna fer eitt lið beint upp og lið í sætum 2-5 keppast um hitt sætið í efstu deild (alveg eins og í 1.d.kk. og þá fær deildarmeistarinn eitthvað fyrir sinn snúð)

Ég tel þetta vera góða leið til að auka veltu liða í efstu og 1. deild enda er bilið milli deildanna að minnka. Þannig eiga fleiri lið í 1. deild möguleika á að fara upp og liðin í efstu deild þurfa að leggja á sig meiri vinnu og metnað til að halda sæti sínu í deildinni. En á sama tíma höldum við gullgæsinni á lífi sem vonandi leiðir til fjölgunar liða til framtíðar svo hægt sé að hafa 10 liða efstu deild.

En gleymum ekki – aðalmarkmiðið okkar ætti að vera, hvernig fjölgum við meistaraflokks liðum kvenna? Og hvernig má það vera að á síðustu 20 árum erum við alltaf í sama fjöldanum, ca. 13-16 lið? Spurning hvort KKÍ geti tekið upp leyfiskerfi eins og KSÍ og skylda lið í efstu deild karla til að vera líka með meistaraflokk kvenna? Eigum við sem hreyfing kannski að setja okkur það markmið að um leið og við erum komin með 18 lið í meistaraflokki kvenna þá verði efsta deild 10 liða deild? Verum þolinmóð í nokkur ár í viðbót og höldum áfram að bæta þjálfun og umgjörð stelpna og kvenna í körfubolta og þá uppskerum við fleiri lið og stærri efstu deild.

Bryndís Gunnlaugsdóttir

Fyrrverandi leikmaður í 1.deild og efstu deild, aðstoðarþjálfari í 1.deild og efstu deild og fyrrum stjórnarmaður KKÍ, stjórnarmaður félaga í 1. deild og efstu deild kvenna.

Fréttir
- Auglýsing -