12:52
{mosimage}
(Yngvi Gunnlaugsson)
Vonbrigðin leyna sér ekki, sama hvert litið er má finna sársvekkta stjórnarmenn KKÍ, þjálfara, iðkendur og körfuknattleiksáhugafólk almennt. Evrópukeppni yngri landsliða Íslands fær að bíða uns fjárhagsstaða Körfuknattleikssambandsins er komin á réttan kjöl. Síðustu ár hafa unglingalandslið Íslands vakið töluverða athygli fyrir vasklega framgöngu sína á alþjóðavettvangi en ævintýrið var of kostnaðarsamt og því munu unglingalandsliðin okkar aðeins taka þátt í Norðurlandamótinu í ár. Yngvi Gunnlaugsson þjálfari U 16 ára landsliðs kvenna segir flest lið á Norðurlöndum líta á Norðurlandamótið sem æfingu og segir muninn á Norðurlandamótinu og Evrópukeppninni vera gríðarlegan.
,,Þetta eru vonbrigði fyrir alla en þetta er bara veruleikinn,” sagði Yngvi en sjálfur hefur hann þjálfað lið í bæði Norðurlandamóti og í Evrópukeppni. ,,Munurinn á mótunum er mjög mikill, umgjörðin í kringum leikina í Evrópukeppninni er gríðarstór, fleiri áhorfendur og betri lið og þá nefni ég lið eins og Þýskaland og Rúmeníu þar sem mikil hefð er fyrir körfubolta. Lönd eins og Noregur og Danmörk senda ekki unglingalandslið til þátttöku í Evrópukeppni.”
Aðspurður hvað væri til ráða sagði Yngvi að hugsanlega þyrfti að meta betur þá árganga sem senda ætti til keppni á erlendum vettvangi. ,,Keppni eins og Evrópukeppnin er lærdómsrík fyrir alla, líka KKÍ. Við það að tefla ekki fram liðum í Evrópukeppninni í ár eru mörg góð tækifæri að fara forgörðum. Flest landsliðin sem við höfum verið að senda til keppni hafa ekki verið að sýna nægilega mikinn sjáanlegan árangur sem slíkan en landsliðsprógrammið hefur sýnt það að þessum leikmönnum hefur tvímælalaust farið fram,” sagði Yngvi og þá er kannski vert að benda á hið margrómaða Haukalið í ár sem vann alla titla sem í boði voru en þær voru jafnframt yngsta liðið í mótinu.
Einn stærsti sigurinn í íslenskri körfuknattleikssögu átti sér stað síðasta sumar þegar U 18 ára landslið karla lagði Evrópumeistara Frakklands að velli. Sá sigur fór því miður allt of hljóðlega á opinberum vettvangi hér heima og eflaust fáir sem hafa gert sér grein fyrir sigrinum sem fólst í sjálfum sigrinum á Frökkum. ,,Leikmenn eru að sýna sig á svona mótum, Evrópukeppnin er vettvangur fyrir leikmenn eins og t.d. Hörð Axel, hann fékk mikla athygli í Evrópukeppninni og komst á atvinnumannasamning í kjölfarið. Honum hefði ekki verið veitt jafn mikil eftirtekt ef unglingalandsliðin hefðu aðeins verið í Norðurlandamóti á síðasta ári,” sagði Yngvi.
Yngvi rétt eins og allir aðrir gera sér grein fyrir þeim vanda sem KKÍ glímir við, fjárhagshalla sem erfitt hefur reynst að ráða fram úr. Af þeim sökum munu íslensk unglingalandslið ekki keppa í Evrópukeppninni. Yngvi segir að þrátt fyrir að Evrópukeppnin sé úti úr myndinni að þá séu enn krefjandi verkefni fyrir höndum á vegum landsliðanna. Norðurlandamótið fer senn af stað og þá eru fyrirætlaðar æfingabúðir sem kynntar verða nánar síðar. Æfingarnar komast þó hvergi nærri því að veita sömu reynslu og hægt er að fá í toppkeppni á alþjóðavettvangi.
Fróðlegt verður að fylgjast með KKÍ berjast við skuldahalann og vonandi verður það þeirra fyrsta verkefni að koma unglingalandsliðum Íslands aftur í keppni með þeim bestu.



