spot_img
HomeFréttirAfhverju er parket betra en dúkur?

Afhverju er parket betra en dúkur?

10:55

{mosimage}

Bjarki Ármann Oddsson leikmaður KR og uppalinn Þórsari skrifar um parketmáli á spjallsvæði Þórs. Karfan.is fékk leyfi til að birta skrif hans.

  

Mig langar aðeins að blanda mér í þessa umræðu. Parket eða ekki parket?

Málið ætti að vera einfalt en er það svo einfalt?

Á mínum stutta íþróttaferli hef ég orðið vitni af þremur, JÁ ÞREMUR!!!, hásinaslitum á dúk! (2 í Íþróttahöllinni og veit af einu til viðbótar), einu krossbandasliti, óteljandi ökklameiðsla auk þess æft með fjöldann allan strákum sem gátu ekki lengur æft í Íþróttahöllinni á Akureyri vegna álagsmeiðsla í fótum, einfaldlega útaf því að dúkurinn þar er svo lélegur.

Eftir að hafa æft í mánuð á dúk sem er ívið betri en í Íþróttahöllinni snéri ég þangað aftur til þess að fara á æfingamót og í upphitun á fyrsta leiknum mínum þar byrjaði ég að finna til álagsmeiðsla á framverðum leggnum. Það ætti að vera algjörlega óþarfi fyrir mig að rökstyðja kosti þess að hafa parket. Þeir sem þekkja muninn vita hvað ég er að tala um.

En til þess að fólk skilji hversu mikilvægt þetta er fyrir okkur sem stunda íþróttina af svo miklu kappi og ástríðu þá er það algjörlega nauðsynlegt að koma fólki í skilning hversu hættulegur dúkurinn er fyrir okkur. Bara til að nefna nokkur dæmi er núna algjörlega bannað að stunda skipulagðan körfubolta á vegum háskóla í Bandaríkjunum á dúk, allir leikir og allar æfingar verða að fara fram á parketi. Þarna erum við að tala um mörg þúsund körfuboltaleiki og milljónir af æfingum. Þetta er einungis gert útaf gríðarlegri meiðslahættu á dúknum.

Að spila á dúk er eins og fyrir fótboltamenn að spila á möl. Þetta er staðreynd sem hefur verið bent á af t.d. formanni KKÍ, Hannesi S. Jónssyni. Þegar erlend lið koma hingað og keppa körfubolta á Evrópumótum er það fyrsta sem þeir spyrja þegar þau hringja hingað „er parket á gólfinu“? Ef svarið er neikvætt biðja þau liðin um að færa leikinn þangað sem er dúkur. Liðin líta á leikmenn sína sem fjárfestingu og ef eitthvað kemur fyrir fjárfestinguna þeirra tapa þeir á henni. Þess vegna gera þau allt til að koma í veg fyrir meiðsl leikmanna sinna. Af hverju haldið þið að öll toppliðin á Íslandi séu nú með sjúkraþjálfara sem fylgi þeim hvert fótspor? Er það tilviljun að deildarmeistarar Njarðvíkur, íslandsmeistarar KR, bikarmeistarar ÍR og Snæfell séu með sjúkraþjálfara? Þetta er allt gert til þess að halda leikmönnunum heilum.

Nú er það augljóst, þó að margir mjög metnaðarfullir einstaklingar komi að Körfuknattleiksdeild Þórs (helst ber að geta Hrafn þjálfara og Guðmund Oddsson), að hámarksgetu deildarinnar eru þegar sett takmörk. Jú, þannig er mál með vexti að félagið spilar sína heimaleiki í íþróttahúsinu við Síðuskóla. Þar er í mesta lagi hægt að koma fyrir 200 áhorfendum, í mesta lagi. Okkur eru sett þau takmörk að ef við komumst í úrslitakeppnina þá mun áhorfendafjöldinn á leikjunum aukast til muna. Þá eru ekki sömu 150 áhorfendur sem mæta á leikina heldur einnig áhorfendur andstæðingana. Hér fullyrði ég að ef við myndum mæta liðum með dygga stuðningsmenn, t.d. KR, Snæfell eða Skallagrím, þá myndi 200 manna her koma hingað til að styðja við bakið á sínu liði. Fyrir vikið myndi Körfuknattleikssamband Íslands banna okkur að spila leiki í úrslitakeppninni í íþróttahúsi Síðuskóla og við myndum þurfa að færa leiki okkar í Íþróttahöllina. Þetta yrði einfaldlega gert af þeirri ástæðu að það komast ekki nægilega margir aðdáendur fyrir í Síðuskóla. Þannig myndum við missa alla þá heimaleiki í úrslitakeppninni sem við værum búnir að vinna okkur inn á leiktímabilinu, vegna þess að leikirnir myndu fara fram á svo til hlutlausum heimavelli.

Í sannleika sagt hvarflar það ekki að nokkrum körfuboltamanni að vilja æfa í Íþróttahöllinni með þennan dúk þar sem málið er farið að snúast um heilsufar leikmanna. Dúkurinn í Íþróttahöllinni er orðinn það slæmur að ekki er hægt að stunda þar neinar afreksíþróttir lengur. Kannski er það vilji bæjarstjórnarinnar, að geta skellt sér saman í blak tvisvar í viku á besta tíma eða kannski vilja þau geta leigt bestu tímana út? Hver veit? Reyndar er Íþróttahöllin nánast alltaf upptekinn hvort sem er, endalausar árshátíðir, veisluhöld og tónleikahald.

Er það kannski vilji bæjarstjórnar Akureyrar að drepa með öllu saman þá miklu hefð sem hefur myndast fyrir því hér í bæ að eiga íþróttafélag meðal þeirra bestu í öllum greinum? Þar að auki er íþróttagreinum í bænum mismunað allsvakalega og það þekkist hvergi annarsstaðar á landinu, í þessum mæli a.m.k.. Skautafélagið fékk margra milljón króna skautahöll og fótboltinn fékk margra milljón króna „fjölnota fótboltahús“ Hvað varð um restina? Handboltinn í bænum er skorinn niður í tvennt og á skipulagðan hátt er verið að reyna að drepa körfuboltann hægt og rólega. Þegar körfuboltinn getur ekki lengur æft þar sem honum er ætlað að keppa, spilað í þeirri deild sem hann ætti að spila eða fengið körfur í litla íþróttahúsið sitt í réttri hæð þá er klárlega verið að mismuna íþróttagreinum. Þetta er mjög athyglisvert þar sem karfan hjá Þór hefur verið lengst allra greina hjá Þór í efstu deild síðustu og féll líklegast þar síðasta vor vegna þess að liðið neyddist til að keppa á einum stað, Íþróttahöllinni, en æfa á öðrum, íþróttahúsi Síðuskóla. Það er kominn tími til að Akureyrarbær vakni til lífsins og viðurkenni staðreyndirnar. Í sameiningu getum við sett þessa vinsælustu innanhúsíþróttagrein í heimi á hærri stall hér í bæ!

Staðreynd: Akureyri er annað stærsta bæjarfélag á landinu sem er ekki með parket á neinu íþróttáhúsi í bænum.

Nokkur önnur bæjarfélög þar sem vantar parket:

Egilsstaðir
Sauðárkrókur
Hveragerði

Við gætum talið upp endalaust af minni stöðum þar sem fólk hefur séð ljósið og fengið sér parket.

Nokkur minni bæjarfélög þar sem parket hefur reynst frábærlega:

Ísafjörður (engin slit síðan parket var lagt 2001)
Stykkishólmur (engin alverleg meiðsl síðan parket var komið fyrir þar)
Þorlákshöfn
Borgarnes
Reykjanesbær
Grindavík
Og fleiri til…

Það er alveg augljóst að þeir sem taka ákvarðanirnar um hvort byggja eigi íþróttahús á Akureyri með dúk eða parket hafa aldrei, fyrir sitt litla líf, stundað íþróttir í fremstu röð. Þeir hafa einfaldlega ekki þann skilning sem er mikilvægur til þess að taka þessar ákvarðanir. Gott og vel, þeir lögðu hart að sér í skóla til að komast þangað sem þeir eru núna. En þegar fólk sem einungis hugsar um tölur á blaði og næstu kosningar þegar taka á ákvarðanir um heilsufar mitt og félaga minna er mér hætt að lítast á blikuna. Það er þegar orðið augljóst að þeim er sama hversu miklum árangri við náum en í guðanna bænum leyfið okkur að halda heilsunni! Ætli við endum ekki flestir með slitnar hásinar eða slitin krossbönd og hjólbeinóttir af áverkum, algjörlega óvinnandi, á hækjum eða í hjólastól, lifum á bótum frá bænum, allir tólf saman í lítilli íbúð, fáum hundraðþúsund krónur á mánuði hver til að lifa á. Það gerir 1,2 milljón á mánuði eða 14,4 milljónir á ári. Ætli það sé þá ekki skárra að borga fyrir parketið? Við erum líka ekki þeir einu sem hafa meiðst á þessum dúk. Spurningin er, hvar vill bærinn spara? Vill hann spara með því að halda dúkastefnunni um ókomin ár eða vill hann spara með því að eiga heilbrigðara bæjarfélag með afreksíþróttamenn innan sinna vébanda.

Á jákvæðum nótum finnst mér rétt að minnast á það að Reykjavíkurborg hefur samþykkt það að öll íþróttahús sem byggð verða í borginni um ókomna tíð verða með parketi. Einnig ætlar borgin að borga hluta af nýju parketi sem lagt verður í KR-heimilið nú í sumar. Þetta kynnti Björn Ingi Hrafnsson á merkum fundi í Höfða fyrir skömmu síðan. Frábært framtak hjá þeim í borgarstjórn Reykjavíkur. En það er til skammar að sama skapi að bæjarstjóri Akureyrar gefi afsvar við þeirri einföldu spurningu að leggja parket í íþróttahöllina á Akureyri. Ég tel mig vera vel upp alinn en það er stór spurning hvort ég hafi verið að kjósa réttu flokkana allt mitt líf?

Eftir að hafa orðið þátttakandi í þessari miklu körfuboltaendurvakningu, sem átti sér stað í vesturbænum á síðastliðnu keppnistímabili, hef ég komist að því að áhugi á körfubolta er miklu meiri en við finnum nokkru sinni fyrir á Akureyri. Mér finnst það með ólíkindum að við séum hreint út sagt með lið í efstu deild miðað við þá litlu hjálp sem bæjarfélagið í heild hefur veitt okkur. Besta dæmið til að sanna þetta er þegar Þórsararnir þurftu að segja sig úr úrvalsdeildinni í körfuboltanum og byrja frá grunni í annarri deild. Ekki var Akureyrarbær þá tilbúinn að hjálpa okkur. Akureyrarbær sem svo oft hefur komið handboltanum hjá KA til bjargar. En með ótrúlegu framtaki fárra manni varð skaðinn ekki meiri en svo að við erum komnir aftur á meðal þeirra bestu, aftur. Ef ekki hefðu verið til menn eins og Guðmundur Oddsson þá hefði deildin aldrei rétt úr kútnum á jafn stuttum tíma og hún gerði. Staðreyndin er nefnilega sú að þeir fáu sem leggja sitt af mörkum er virkilega vinnusamir einstaklingar sem eiga bara gott skilið. Nú þegar það fækkar í góðra manni hópi þurfum við að leggjast á eitt og vinna saman að frábærri uppbyggingu körfuboltans á Akureyri. Körfuboltinn er kominn til þess að vera og líka á Akureyri!

Ég legg til að Akureyrarbær byggi nýtt íþróttamannvirki fyrir körfuna og taki sig svo til og leggi parket á KA-heimilið. Frábær staðsetning íþróttahússins yrði við Giljaskóla á Akureyri í hjarta Þórshverfissins. Ég bið um þrennt í mitt draumaíþróttahús:

1. Parket, Parket og aftur Parket.
2. Áhorfendastæði fyrir a.m.k. 300 aðdáendur, þetta eru örfáir pallar.
3. Körfur sem stoppa í viðurkenndri körfuboltahæð skv. FIBA, 3,05m í fullorðinsstærð.

Ef þetta myndi gerast þá mætti bæjarstjórnin, mín vegna, mæta tvisvar í viku klukkan sex og spila blak í Íþróttahöllinni.

Takk fyrir mig
Þórsarinn:
Bjarki Ármann Oddsson

Mynd: www.kr.is/karfa

 

Fréttir
- Auglýsing -