14:56
{mosimage}
Hildur Sigurðardóttir, leikmaður Grindavíkur í Iceland Express deild-kvenna, er hugsanlega á leiðinni út í atvinnumennsku á nýjan leik. Lið frá Frakklandi og Sviss hafa sýnt áhuga á að fá hana til liðs við sig fyrir næsta tímabil.
Hildur hefur spilað með Grindavík tvö síðustu tímabil en þar á undan lék hún með Jämtland í sænsku úrvalsdeildinni þar sem hún stóð sig mjög vel og var með 12,6 stig og 6,6 fráköst að meðaltali í leik. Hildur hefur verið einn besti frákastari íslensku deildarinnar þrátt fyrir að spila sem bakvörður.
"Ég á eftir að heyra betur í umboðsmanni mínum en ég hef látið hann vita að ég sé alveg tilbúin að fara út aftur. Ég vissi af áhuga þessara liða í fyrra og bíð bara spennt eftir því hvað er í boði," sagði Hildur í samtali við Fréttablaðið í gær.
Hildur skoraði 13,0 stig, tók 10,1 fráköst og gaf 4,6 stoðsendingar að meðaltali með Grindavík í vetur og var valin í úrvalslið deildarinnar í sjötta sinn á ferlinum. Hildur, sem er 25 ára bakvörður, er sjötta leikreyndasta landsliðskona Íslands frá upphafi en hún hefur leikið 49 leiki og skorað í þeim 266 stig.
Fréttablaðið – óój
Mynd: Jón Björn Ólafsson – karfan.is



