10:10
{mosimage}
Guðmundur Ævar Oddsson leikmaður Þórs á Akureyri er ekki sáttur við svör Sigrúnar Jakobsdóttur bæjarstjóra Akureyrar varðandi parketgólf á íþróttahús. Hann hefur ritað bréf sem birst hefur í Vikudegi og á heimasíðu Þórs. Við birtum það hér.
Tuttugasta og sjöunda apríl á síðasta ári sat undirritaður, ásamt u.þ.b. 120 öðrum einstaklingum úr íþróttahreyfingunni hér í bæ, fund með oddvitum stjórnmálaflokkanna á Akureyri. Á fundinum, sem fram fór í Hamri, félagsheimili Þórs, lofuðu allir oddvitarnir að skipta út úr sér gengnu gólfefni Íþróttahallarinnar og KA-hússins fyrir parket. Hver í kapp við annan hömruðu oddvitarnir á mikilvægi þess að ráðast í þessar framkvæmdir sem allra fyrst og ekki seinna en fyrir næsta vetur í ljósi þess að núverandi gólfefni stofnar heilsu iðkenda í hættu. Skynsamleg afstaða, ekki satt?
Ríflega ári eftir ofangreindan fund kveður við annan tón hjá ráðamönnum bæjarins og það látið í veðri vaka að gólfefninu verði ekki skipt út fyrir parket. Bera menn fyrir sig að parket muni skerða starfsemi Íþróttahallarinnar og KA-hússins fyrir aðra viðburði en íþróttaiðkun.
Þessi málatilbúnaður meirihlutans heldur ekki vatni. Fyrir það fyrsta er auðveldlega hægt að halda hina stærstu viðburði í íþróttahúsum með parketi og er nóg að benda á Laugardalshöllina í þeim efnum. Í öðru lagi er það í hæsta máta óeðlilegt að gerðar séu málamiðlanir sem stofna heilsu þeirra sem nota Íþróttahöllina og KA-húsið að staðaldri í hættu undir því yfirskini að geta halað inn nokkrar krónur aukalega. Nær væri að taka inn í myndina öll þau hásina- og krossbandsslit sem og önnur meiðsli sem átt hafa sér stað á gólfi Íþróttahallarinnar og KA-hússins eða eiga rætur að rekja til þess. Spurning hvað þessi meiðsli hafa „skert starfsemi" viðkomandi íþróttamanna mikið?
Að sama skapi mætti velta fyrir sér af hverju forsvarsmenn Reykjavíkurborgar hafa lýst því yfir að öll íþróttahús sem byggð verða í borginni verði hér eftir með parketgólfi. Getur verið að þar á bæ horfi menn fram á veginn og sætti sig ekki við meðalmennsku, sem því miður ríður ekki við einteyming hér á Akureyri? Hér virðist alltaf skorta herslumuninn og fara bæjaryfirvöld þar fremst í flokki.
Heyrst hefur að spekingarnir hjá Fasteignum Akureyrar telji að það sé í fínu lagi með gólfið í Íþróttahöllinni?! Þar kjósa menn að skella skollaeyrum við röddum þjálfara, leikmanna og sjúkraþjálfara, sem eru sérfróðir um hvaða undirlag hentar íþróttamönnum. Ætli sömu aðilar haldi ekki einnig að meistaraflokkur karla hjá Þór í körfuknattleik og þar áður meistaraflokkur karla hjá Þór í handknattleik hafi fært æfingar sínar úr Íþróttahöllinni og í íþróttahús Síðuskóla upp á grín? Að álagsmeiðslin og hin og þessi slit hafi verið fyrirsláttur?! Ekki veit ég hvaða hvatir liggja þarna að baki en vil benda á að Fasteignir Akureyrar bera m.a. ábyrgð á því að Boginn var byggður án hitalagna, án áhaldageymslu og án salernis, þrátt bent hafi verið á nauðsyn þessa við uppbygginguna. Nú á að vísu að setja hitalagnir í undirlagið en með miklu meiri tilkostnaði og fyrirhöfn en ef menn hefðu hlustað á þá sem hafa vit á íþróttum.
Hér með skora ég á bæjaryfirvöld að vera ekki með neitt hálfkák og setja parket á bæði Íþróttahöllina og KA-húsið. Látum meðalmennskuna lönd og leið!
Með íþróttakveðju.
Guðmundur Ævar Oddsson, talsmaður Körfuknattleiksdeildar Þórs.
Mynd: www.thorsport.is



