21:25
{mosimage}
(Yngvi Gunnlaugsson)
Haukar höfðu góðan 76-85 sigur á Hamri í Hveragerði í kvöld en Hamar leiddi 42-41 í hálfleik. Lakiste Barkus var sjóðheit í fyrri hálfleik og gerði 18 stig en Yngvi Gunnlaugsson þjálfari Hauka sagði sitt lið hafa staðið sig vel í að hægja á Barkus og leggja grunninn að sigri í leiknum.
,,Þetta var þrælskemmtilegur leikur og greinilegt að Hamarsliðið er orðið árinu eldra og maður sá það að þær voru hundsvekktar yfir því að tapa leiknum. Hamar barðist vel á meðan við vorum sjálfum okkur verstar og tókum oft slæmar ákvarðanir en á lokakaflanum héldum við haus og þetta hafðist,” sagði Yngvi.
LaKiste Barkus gerði 18 stig í fyrri hálfleik en þegar Haukar skiptu í svæðisvörn dró nokkuð af henni. ,,Kristrún og Hardy stóðu sig vel gegn Barkus,” sagði Yngvi og bætti því við að nokkuð slen hefði verið á Haukasókninni upp á síðkastið. ,,Þegar í síðari hálfleik var komið fundum við samt að stemmningin var okkar megin. Við lögðum upp með að halda taktinum og það tókst og við stóðumst áhlaupin þeirra á lokasprettinum,” sagði Yngvi.
Kristrún Sigurjónsdóttir var stigahæsti leikmaður vallarins með 29 stig og næst henni í liði Hauka var Kiera Hardy með með 23 stig. Unnur Tara Jónsdóttir gerði svo 11 stig fyrir Hauka en hjá Hamri var LaKiste Barkus með 26 stig og Fanney Lind Guðmundsdóttir gerði 17 stig.
Haukar leika næst gegn nýliðum Fjölnis að Ásvöllum á miðvikudag í næstu viku og Hamar mætir KR í DHL-Höllinni sama dag. Leikur Hauka og Fjölnis hefst kl. 19:15 en leikur KR og Hamars hefst kl. 20:00 í Vesturbænum.
Mynd: [email protected]



