16:40
{mosimage}
(Benedikt Guðmundsson)
Landsliðsmiðherjinn Fannar Ólafsson verður með Íslandsmeisturum KR í Grindavík í kvöld en Fannar missti af fyrsta leik KR í Iceland Epxress deildinni sökum meiðsla. ,,Þetta er hnéð. Það var orðið bólgið og hann þarf að láta tappa af því reglulega. Þegar hann tappar af bólgunni í hnénu þarf hann að hvíla í um fjóra daga á eftir. Hann er því orðinn fínn núna og verður með í kvöld,” sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, í samtali við Karfan.is
Benedikt tjáði Karfan.is að allir hans menn væru heilir og að annar landsliðsmaðurinn í röðum KR, Helgi Magnússon, yrði einnig með en hann var tæpur sökum meiðsla gegn Fjölni í fyrsta leik en stóð það þó af sér.
,,Ég sá ekki leik Grindavíkur og Keflavíkur í fyrstu umferð en mér skyldist að Keflvíkingar hefðu verið þvílíkt góðir í þeim leik. Sá leikur segir kannski meira um styrk Keflavíkur heldur en eitthvað um Grindavík. Það er þó klárt mál að Grindvíkingar mæta dýrvitlaustir í kvöld. Eins og einn góður maður sagði við mig að þá væri þetta væntanlega ekki besti tíminn til þess að mæta Grindavík en það gerir verkefnið meira áhugaverðara. Við vitum að það mæta allir uppgíraðir á móti okkur og við búumst við því í hverjum einasta leik,” sagði Benedikt.
Það má því gera ráð fyrir miklum slag í Röstinni í kvöld þegar Grindavík tekur á móti KR kl. 19:15. Leikurinn verður í beinni á www.kr.is/karfa ef tæknin verður ekki til trafala.



